Síðasta fimmtudagsvöknunin

Jeijei – nú er átaksnámskeiðið að verða búið í bili og á morgun mun ég vakna í síðasta skipti klukkan hálf sex. Það þýðir að ég mun jafnvel vaka fram yfir tíu á miðvikudags- og fimmtudagskvöldum hér eftir 🙂 . Fór í lokamælingu í dag, þó svo það séu tveir tímar eftir. Heildarkíló farin eru 5,8. Það hægðist ansi mikið á mér í nóvember, svo ekki sé vægar til orða tekið. Allan nóvember er ég búin að missa 100 gr. :-/ . Bjór, vín, sukk… ekki að gera sig. Nú er ég í valkvíða hvað ég á að gera eftir áramót. Er að hugsa um að hætta mér í tíma fyrir viderekomne í næstu viku og sjá hvort ég þoli það. Þar eru ýmsir MA kennarar og makar svo ég verð í góðum félagsskap.

Kláraði Forbrydelsen í gær. Við Kristín hittumst og horfðum á endursýninguna og gæddum okkur á dýrindis konfekti með (allir lokaþættir eru teknir með trompi). Nú er bara að halda andlitinu í lokaðri stöðu næstu vikur. Verð samt að segja að mér finnst mörgum spurningum ósvarað – það veitir amk ekki af að horfa á seríuna aftur til að spekúlera meira.

Og breyting á tónlistarhögunum. Tónleikarnir á Glerártorgi eru á sunnudag en ekki laugardag. Alveg týpískt, þá fær maður ekki að gera sitt laufabrauð í friði og ró heldur þarf að gera hlé til að sinna spileríi. Maður fær samt mont-mómentið sitt, nógu stolt var ég í dag að horfa á litla prikið syngja með súsúkí félögum sínum, lag sem hún lærði á met-tíma. Svo þetta verður bara stuð.