Menningarreisan mikla – den store kulturrejse

Helgin var með miklum ágætum og stóðst allar væntingar. Við gamla tríóið úr MA hittumst á föstudagskvöld (eftir laaaanga keyrslu frá AK). Engin okkar ofurreynd úr skemmtanalífi borgarinnar svo við vissum ekkert hvert væri best að halda til að vera hipp og kúl. Við sáum reyndar Daníel Ágúst á vappi, hefðum getað elt hann en við reyndum við Thorvaldsen í staðinn fyrir DA. Þar voru öll laus borð frátekin, frekar leim. Þaðan fórum við á gamla „góða“ Kaffi París. Nóg af lausum borðum en vond þjónusta og allt of hávær tónlist. Þar sátum við í tvo tíma og ræddum gamla tíma og nýja.

Laugardagurinn var framan af með rólegasta móti. Ein lítil Kringluferð og síðan í heimsóknir hingað og þangað, mislangar þó og ævinlega endanna á milli í borginni, því ekki gátum við skipulagt þær miðað við hagstæðustu keyrslu hverju sinni. En það var gaman að hitta tengdaliðið. Enduðum í forpartý og mat hjá Sigga og Sigrúnu og þau tóku líka Kristínu og Árna Hrólf að sér og dekruðu við okkur öll. Þaðan lá leiðin í Vodafone höllina, á gömlu hetjuna. Það er engu logið í blöðunum þegar honum er hrósað. Gamli var ansi sprækur og Kjukken svona bráðskemmtileg hljómsveit. Við Kristín vorum alsælar með okkar menn (og Mumma og Árna 😉 ). Við Mummi buðum síðan í eftirpartý – gott að hafa heila íbúð fyrir sjálfan sig! En það stóð nú ekki ósiðlega lengi og við spiluðum enga músík svo þetta hefur ekki truflað marga. En það skýrir allar bjórflöskurnar sem bíða Eyglóar…

Við hjónin vöknuðum svo seint og síðar meir á sunnudag, gengum bærilega frá eftir okkur (og mundum eftir að skrifa í gestabókina Eygló!) og fórum til Árnýjar og Hjörvars þar sem unginn hafði dvalist í góðu yfirlæti. Fengum þar að borða (við meiri fyrirhöfn en til stóð, held ég) og svo fór hersingin – kvenfólkið og Mummi, í Þjóðleikhúsið að sjá Skilaboðaskjóðuna. Sóley var búin að hafa uppi stór orð um hvað hún væri hrædd við Nátttröllið svona fyrirfram en þegar til kom var það minna en yfirlýsingarnar. Leikritið stórskemmtilegt og Strumpa að fylgjast með allan tímann. Við splæstum svo bók og disk, diskurinn náði tæplega fjórum umferðum á leið norður, við fengum smá pásu í Húnavatnssýslu og Skagafirði, en skapið og heilsufarið afturí var líka með besta móti. Við vorum í mjög stöðugu sambandi við tónleikafélaga okkar, sem keyrðu þetta 5 – 40 mínútum á undan okkur, amk eru 36 sms í símanum mínum frá norðurferðinni 🙂 .

Nú er bara bölið framundan, ritgerðir, spóluverkefni, próf… neim it – nema árshátíð MA á föstudagskvöld, tónleikar á Glerártorgi á laugardag og líklega laufabrauð á sunnudag. Nú og síðasta vika í átaki – þrír tímar eftir!