Löngu komin heim í heiðardalinn

Raunveruleikinn tekinn við. Ekki lengur min elskede København sem umlykur mig. Þarf varla að taka fram að í vinnunni beið bingur svo dagarnir hafa farið frekar hratt. Náði þó leikhúsferð á föstudagskvöld, á Ökutíma. Get mælt með stykkinu, þetta er listavel gert hjá LA. Við hjónin fórum svo á villibráðarhlaðborð með RT – svona í heimahúsi þar sem fólk kom með ýmsa rétti. Mummi fór á kostum í sósugerð, ég á ekki lengur neitt svið sem ég skara fram úr í eldhúsinu 🙁 .

Erum svo á leið suður – fyrst eru það gömlu vinkonurnar á föstudagskvöld, svo Kim vinur minn á laugardagskvöld – det var en lørdag aften 🙂 og endað á Skilaboðaskjóðunni á sunnudag áður en ég bruna aftur norður. Verst að ég missi af lokaþættinum af Forbrydelsen á DR. Þarf að sjá endursýningu.

Það er annars komin ný eldavél á heimilið. Mummi fékk ósk sína uppfyllta og keypti span eldavél. Maður þarf að leyfa honum að hafa réttu græjurnar … hann er núna alsæll með global hnífana sína, Le creuset pottana sína og eldavélina. Mesta furða að hann skuli fást úr eldhúsinu. Enda keypti ég nýju Hagkaups-bókina með ítölsku réttunum handa honum svo honum falli eitthvað til.