Skrapp í borgarferð í upphafi viku með samkennurum mínum. Flugum suður í bítið á mánudagsmorgun í ævintýralega fallegu veðri og fengum leiðsagðan túrinn. Ekki valmöguleiki að halla aftur augunum eins og ég hafði planlagt. Þegar við komum í borgina var fyrst haldið í Borgarholtsskóla, þaðan í KHÍ og loks heimsóttum við Keili á Vellinum. Það var afar skemmtileg kynning, bæði lofar skólinn góðu og verður gaman að sjá hvað verður úr en ekki síður gaman að fá að skoða aðstöðuna. Skoðuðum til að mynda tvær íbúðir, hin bælda húsmóðir í mér fékk geðveikt kikk út úr því að sjá ammrísku græjurnar. Það er ótrúlegt til þess að hugsa að þær hugmyndir hafi í alvöru verið viðraðar að henda þeim öllum út, eða segjum að ryðja öllum húsunum um koll.
Um kvöldið fórum við að borða á Þrem frökkum. Þar hef ég ekki borðað áður og valdi viturlega, við gátum valið um steinbít eða lamb og í ljósi þess að steinbítur er ein sú fisktegund sem reglulega er á borðum hjá mér, ákvað ég að fá mér frekar lamb. Það kom svo í ljós að lambafólkið var mun sælla en fiskifólkið.
Að morgni þriðjudags fórum við allflest í heimsókn í Hraðbraut, það var gaman að fá innsýn þar. Síðan fórum við á hið nýja háskólatorg, ég var vægast sagt með blendnar tilfinningar, því það er búið að byggja svo mikið í kringum elsku Nýja Garð að hann er orðinn eins og krækiber inn um öll hin húsin. Hitti Óla bróður í mýflugumynd á Þjóðminjasafninu. Síðan lögðum við í hann upp í Borgarnes. Það var líka skrýtið að koma þangað. Það er búið að byggja svo mikið niðrí bæ, maður hefur jú séð öll nýju húsin í hinum enda bæjarins en ekki þarna í gamla hlutanum. Og svo eru hin og þessi hús að drabbast niður, eins og gamli sparisjóðurinn og fleiri. Við borðuðum í Landnámssetrinu og það var mjög gaman, skemmtilegt umhverfi og fínasti matur.
Að síðustu litum við inn í Menntaskóla Borgarfjarðar, fengum að spjalla við skólameistara og skoða húsið sem enn er reyndar í vinnslu. Samt gaman að sjá hvernig það er að verða til og hvaða pælingar eru í gangi. Og staðsetningin er frábær, hvað sem verður svo um tjaldstæðið.
Síðan var rúntað í rútu norður, einn ágætur samkennari minn fór hamförum með krossgátur í beinni, las upp vísbendingarnar úr rugl-gátu Moggans og hún var leyst í sameiningu. Þó var engin aðstoð frá mér, ég sem er glötuð í venjulegum krossgátum á mér ekki viðreisnar von í þessari… ég næ bara ekki að hugsa á svona undarlegum nótum.
Við Selma erum svo orðnar glóðvolgar að fara á námskeið í DK í sumar, það kom nefnilega dönskukennari svífandi á Selmu í Borgó og hvatti hana til að koma á námskeið. Það skýrist fljótlega hvort af verður. Egilsstaðir bíða svo á föstudag, þá fara tungumálakennarar úr MA og VMA austur í síðustu lotuna okkar í vetur. Maður er bara ekki heima hjá sér frekar en ráðamenn þjóðarinnar 🙂 .