Þá eru dúlludagarnir mínir upprunnir. Með langa „to-do“ listanum mínum. Byrjaði í dag á því að skoða hvaða dvd diska ég á með dönskum myndum fyrir væntanlegan kvikmyndaáfanga. Þær eru um það bil 50, ég er ekki viss um að ég muni allar sem eru í láni hér og þar. Enn hlakka ég til að fara að kenna danskar myndir en það verður auðvitað að ráðast hversu áhugasamir nemendurnir verða. Sögurnar úr franska kvikmyndaáfanganum voru ekki fagrar og það dró aðeins úr gleði minni. En ég reyni að halda í bjartsýnina…
Ég átti góða helgi. Fór tvær ferðir í Hólabrautinni áfallalaust. Meira varð ekki úr því þar sem unginn var athyglisþurfi. Sú stutta bíður í ofvæni eftir að teljast stólalyftuhæf svo maður verður að herða sig í að fara meira með hana og jafnvel skrá hana á annað námskeið. Hún varð reyndar fyrir því óláni að klemma sig á bílhurðinni á laugardag. Gráðugi grísinn var að fara í Supermarket til að kaupa nammi og var lögð af stað inn í búð en mundi þá að hún átt líka nammi í bílnum sem var auðvitað upplagt at taka með. Og náði þá að loka hurðinni á vísifingurinn svo að það þurfti að opna til að losa. Það varð náttúrulega allt vitlaust og brunað heim til að huga að fingrinum. Nöglin brotnaði alveg þvert mjög neðarlega og mun detta af. Puttinn nánast svartur af mari og frekar ljótur. Enda hefur maður óspart nýtt sér meiðslin og fær fulla þjónustu við hitt og þetta. Hún heimtaði samt að fara á skíði á sunnudag en entist ekki alveg í tvo tíma. Kalla hana samt góða.
Við hjónin fórum svo í leikhús á laugardagskvöld. Ég er þekkt fyrir að klúðra einhverju í hvert sinn en marg skoðaði tímasetningar og miða til að sannreyna að allt væri rétt. Það runnu hins vegar á okkur tvær grímur þegar við komum að Samkomuhúsinu og þar var ekki hræða. Fórum hikandi inn og þá hafði ég ruglast á húsum. Það var hins vegar auðleyst og við löbbuðum í hitt húsið … þetta er svo einfalt þegar maður býr á Ak. Við sáum „Falið fylgi“, það var þokkalegt, mun meira drama en ég bjóst við. Guðmundur Ólafsson var ansi hreint góður.
Annars var Strumpan í heimsókn í Brekkuskóla á föstudaginn. Svo ég vitni í hennar eigin orð, þá var það „alveg geðveikt“. Ég held að það hafi ekki verið síst vistunin og fullt af spennandi dóti sem höfðaði til hennar en hún sagði að það væri gott að hún væri ekki byrjuð, því það var sko pasta í hádegismatinn!