Mikið er ég búin að hafa það gott í dag.
Í fyrsta lagi var Mummi á morgunvaktinni, þannig að klukkan hálf níu í morgun þegar Sóley neitaði að sofa lengur, fór hann með hana fram og ég fékk að sofa. Svaf til hálf ellefu. Þá reyndum við að bæla fröken niður aftur en hún var aldeilis ekki á því að fegra sig með blundi.
Í öðru lagi vorum við boðin í mat til Kittýjar og Sigga. Greiði gegn greiða að sjálfsögðu en það lenti á Mumma að sinna okkar greiða svo ég naut þess bara að borða. Gríðarlega góð purusteik að hætti húsbóndans.
Í þriðja lagi var það afmælið hans Ármanns. Eins og vitað var, fengum við gott með kaffinu. Einkar ljúft.
Í fjórða lagi var stelpukvöld hjá tengdamömmu, meðan það var strákakvöld hér heima. Ég og Anna fórum og spiluðum Skrafl við tengdamömmu og Sigrúnu. Ég átti að vísu mistök ársins, klikkaði á að setja niður eitt m sem hefði fært mér 45 stig að minnsta kosti. En mistök eru til að læra af þeim. Þetta var skemmtilegt, þrátt fyrir að ég tapaði í báðum spilum. Enda er ég ekki farin að gera ráð fyrir að vinna tengdamömmu enn. Kannski tekst það ef ég fer í strangar æfingabúðir.
Morgundagurinn verður skrýtinn. Fyrsti alvöru vinnudagurinn í tíu mánuði (tel ekki fjarkennsluna með). Ég er kát að byrja að vinna en kannski verður þetta bara vesen. Við hjónin ætlum jú að reyna að vera til skiptis heima hjá dótturinni. Það er mikið undir stundaskránni komið, svo það er mikil eftirvænting að sjá hana.