Árið 2009 var að mestu leyti helgað Sunnu Bríeti. Það var í janúarlok sem ljóst varð að það væri að fjölga í fjölskyldunni. Verðandi foreldrar héldu því fyrir sig í nokkra daga en eftir snemmsónar var ákveðið að stóra systir yrði fyrst allra annarra til að fá fréttirnar. Sama dag birtist einmitt í Fréttablaðinu að fjölgun væri hjá bróður, það hafði ég reyndar vitað í all langan tíma en Sóley frétti það þegar hún las blaðið.
Mars var tíðindalítill, nema hvað við héldum upp á sex ára stórafmæli heimasætunnar við mikla gleði. Í apríl bar það til tíðinda að ég tók við sem formaður LC klúbbsins míns og verð það fram í apríl þessa árs. Það er ágætt að takast á við eitthvað nýtt og þó að þetta sé ekki flókið eða erfitt þá þarf maður aðeins að koma fram og hefur gott af æfingunni.
Í maí fórum við í langþráðan sónar, það var mikið búið að spá og spekúlera í kyni barnsins og því löngu ákveðið að grennslast fyrir um það. En við fengum ekkert afgerandi svar, læknirinn sagðist ekki sjá neitt viðhengi, svo það væri líklegra að stelpa væri væntanleg. Það gladdi bæði móður og systur, stóra systir vildi endilega eignast systur, sagði að það vildu allar stelpur, móðirin vildi hins vegar halda áfram að æfa sig í dramaköstum.
Í júní lauk vinnu, Prinsi hvarf okkur til hrellingar og var í burtu í 12 daga. Heldur var tómlegt í kotinu og hans meira að segja saknað við eldhúsborðið á kvöldin svo miklir voru fagnaðarfundirnir þegar hann sneri aftur og gerði enga grein fyrir ferðum sínum. Varla var hann kominn í hús fyrr en litla fjölskyldan lagði land undir fót. Fyrst eyddum við nokkrum dögum í Svíþjóð, í bústaðnum góða og fengum meira að segja Önnu Steinu og Martin í heimsókn. Síðan héldum við til góðvina okkar í Danmörku, heimsóttum þau Kim og Bente í Skagen og létum fara með okkur eins og kóngafólk í nokkra daga. Þau feðgin fengu reyndar einhverja magapest en risu nokkuð fljótt úr henni.
Í júlí fengum við þær leiðu fréttir frá Svíþjóð að Anna Steina hefði misst fóstur eftir 19 vikna meðgöngu. Það var skrýtið að takast á við það um leið og beðið var eftir fjölgun hjá Óla. Nýr frændi leit svo dagsins ljós 17. júlí, við fengum boð um það þegar hann gerði vart við sig og lögðum í hann suður og sáum hann sama dag. Hann fékk nafnið Gunnsteinn Þór.
Í ágúst hófst nýr kafli í lífi einkadótturinnar þegar skólagangan byrjaði. Hún er í 1. bekk í Brekkuskóla og líkar að jafnaði vel, leiðist þó stundum og foreldrarnir eru ekki alltaf sáttir við það hvað reynir lítið á hana … það er einkennilegt að barn sem er fluglæst komi heim og tilkynni að hún hafi lært m þennan daginn. Hún var látin taka lestrarpróf í upphafi og las þá 180 atkvæði. Sóley ákvað að halda áfram að æfa sund og fimleika og að læra á fiðlu og er meira að segja farin að mæta tvisvar í viku í fiðlu af því að kennarinn er svo ánægður með hana. Sem betur fer rúmast það innan skóladagsins, það er nóg að gera við að keyra á hinar æfingarnar sem allar eru í Glerárskóla. Í ágúst var líka tekin ákvörðun um að fæða heima og ég komst í samband við ljósmóður sem er gömul skólasystir mín úr MA (og reyndar kennslufræðinni í HA líka) svo ég kannaðist aðeins við hana.
Í september kom í ljós að ég færi ekkert til vinnu (hefði annars átt að vinna tvær – þrjár vikur) en þá var blóðþrýstingurinn farinn að hækka, kunnuglegt frá síðustu meðgöngu. Í lok mánaðarins, á settum degi, þann 29. september mætti viðbótin og fékk nafnið Sunna Bríet. Nafnið var út í bláinn, Bríetarnafnið birtist mér í baði í maímánuði og var samþykkt af nefndinni en síðan leituðum við að nafni sem okkur fannst passa vel við. Það var ánægjuleg reynsla að fæða heima, Sóley Anna var viðstödd en fannst þetta allt frekar ógeðslegt … svo held ég að sú minning sé aðeins að dofna svo það virðist ekki vera varanlegt mein.
Mummi var í orlofi megnið af október og það var ósköp þægilegt en fór svo smám saman í fulla vinnu í nóvember. Sunna dafnar vel, en ætlar að verða eins nett og stóra systir. Ekki eru þær mjög líkar, hvorki í útliti né háttum, sú stutta sefur til að mynda mun betur en Sóley gerði. Það er gott, móðirin er þakklát fyrir að fá að lúra á morgnana og tíminn líður ansi hratt, flýgur eiginlega áfram. Sunna tók reyndar svona fjögurra vikna tímabil í magakveisu en það virðist alveg liðin tíð og skapið að jafnaði gott ef hún nær að sofa nóg.
Síðustu þrír mánuðir ársins hafa því snúist um Sunnu og svo auðvitað að aðlaga gömlu einkadótturina að breyttum tímum. Hún hefur tekið þessu nokkuð vel og stendur sig vel sem stóra systir, er afar hjálpsöm, stundum jafnvel einum of. Og það stefnir allt í kunnuglega átt, eldra systkinið sem hamast og pínir það yngra. Sóley kvartar samt af og til yfir hvað lífið sé erfitt núna og það hafi allt breyst svo mikið. Samt bíður hún óþreyjufull eftir fleiri framfaraskrefum, hlakkar mjög til þegar litla systir fer að skríða, labba og tala… en þá fyrst verður nú friðurinn líklega úti.
Við kvöddum gamla árið í gær í rólegheitum, borðuðum þrjú saman (hörpuskel, kalkún og heimagerðan ís, tvær sortir 🙂 ). Ég brá mér út rétt eftir miðnættið til að sjá flugelda, þá var Sunna sofnuð en þau feðgin aðeins búin að vera úti með blys. Sakna ártalsins, skil ekkert í skátunum að klikka á þessu, frekar vildi ég borga smá pening í þetta en flugelda …
Það er svo viðbúið að árið 2010 verði ár einhverra breytinga. Ég verð heima fram í maí en fer þá í vinnu í einn og hálfan mánuð en Mummi heima á meðan. Ég er búin að tryggja sömu góðu dagmömmuna fyrir Sunnu þegar ég fer að vinna, enn er óljóst hvernig vinnan verður því það standa til miklar breytingar í skólanum. Lífið mun líklega snúast að mestu leyti um þær systur og ekkert tilhlökkun á bænum að fylgjast með frekar framförum hjá þeim báðum.