Það fór ekki svo að það næðust tvær færslur í mars, þrátt fyrir að ég hafi margoft hugsað um að blogga 🙂 . Enn er það vandamálið hvar á að byrja og hvað á að skrifa þegar svona langur tími er liðinn. Jæja, tökum Skottufréttir fyrstar. Sú stutta fór í sex mánaða skoðun á mánudaginn og hægist enn á vexti. Var 68,4 sentimetrar og 6,6 kíló. Fór í svínaflensusprautu og bólusetningu og stóð sig eins og hetja, það var eiginlega erfiðara fyrir stóru systur að endurupplifa sína svínaflensusprautu. Skottan gargaði auðvitað framan í Pétur, hann hlaut ekki náð fyrir augum hennar frekar en aðrir.
Við byrjuðum að gefa henni mat um síðustu helgi. Það gengur ágætlega, rísmjölsgrauturinn er greinilega ætur en varla hægt að segja það sama um fína sætukartöflumaukið sem undirrituð gerði. Það voru grettur og hrollur sem blöstu við móðurinni, hins vegar var í dag reynt að blanda saman graut og sætum kartöflum og það var greinilegra strax betra og rann nokkuð ljúft niður. Það eru komnar tvær tennur í neðri góm og stöðugar kannanir í efri góm enda orðinn mjög hvítur gómurinn hægra megin. Í samanburði við systurina er hún aðeins seinni að fá fyrstu tennur en ef þær í efri góm koma fljótlega hefur hún vinninginn þar. Það gengur yfirleitt mjög vel með dömuna nema hvað það er erfitt að hafa góða rútínu á svefni, til þess er móðirin of mikið á flandri, meðal annars auðvitað sem hobbýskutlmamma. Svo má auðvitað ekki gleyma að félagsfælnin er enn á háu stigi, það stendur ekkert á því að brosa sínu blíðasta til allra úr öruggu fangi mömmu eða pabba en það snarversnar í því ef einhver gerist svo djarfur að halda á manni. Þá telst viðkomandi góður ef það líða um 10 sekúndur áður en skelfingarsvipurinn brestur á. Þetta er þó í lagi ef fólk gætir þess að halda henni frá sér svo hún geti lifað í blekkingu að hún sé í sömu góðu höndunum og venjulega. Þannig reyndum við litla fjölskyldan að bregða okkur á skíði um síðustu helgi. Það var sögulegur dagur, við Mummi að fara í fyrsta sinn saman á skíði og við öll þrjú fórum í fyrsta skipti í Fjarkann. Sú stutta var sett í vagn og síðan í geymslu hjá ömmu en vaknaði að sjálfsögðu fljótlega og var ekki par hrifin af því partýi. Á endanum var hringt neyðarsímtal í fjallið og móðirin (reyndar köld inn að beini) brunaði heim. Þá hafði amma, sem auðvitað er eldri en tvævetur í svona málum, kveikt á sjónvarpinu og rétt dömunni fjarstýringu svo það voru að minnsta kosti ekki skerandi óp sem mættu mér. En fegin var hún að sjá móður sína og kreisti hana fast þegar í fangið var komið. Að öðru leyti lukkaðist skíðaferðin vel og var öll fjölskyldan sæl, þó ekki væri ferðin löng. Hins vegar er auðvelt að passa fröken eftir að hún sofnar á kvöldin því þá má nokkurn veginn ganga út frá því að hún sofi sæmilega fast. Við brugðum okkur til að mynda af bæ í gærkvöld og fórum að spila við okkar góðu spilavini Kötu og Jóa og á meðan voru traustu barnapíurnar mínar með þær systur. Við skiluðum okkur heim um hálf tólf, þá hafði Skottan reyndar vaknað og starði í forundran á Auði sem sat við rúmið. Ég leyfði henni að koma á fætur og kveðja þær systur og þær fengu blíð bros að launum.
Strumpan er nú orðin árinu eldri, varð sjö ára 13. mars. Dugði ekkert minna en Fjósið til að halda upp á afmæli fyrir vinkonur. Það tókst reyndar gríðarvel, burtséð frá því að það reyndi mikið á foreldrana að bera borð og stóla neðan úr Gamla skóla. Annars hægt að mæla með þessu, þær gátu skottast um í eltingarleikjum, dansað, hlaupið með blöðrur og svo framvegis. Foreldrarnir voru samt ósköp sælir þegar þessir dagar voru liðnir. Hrærivélin dó í bakstrinum fyrir fjölskylduafmælið (já það eru svo veglegar veislur að hrærivélar lifa það varla af) og þegar var farið með hana í viðgerð kom í ljós að það höfðu liðið 8 dagar frá því að ábyrgðinni lauk þar til hún bilaði. Sem betur fer og þetta er nú ótrúlegt, þurftum við samt ekki að borga fyrir viðgerðina.
Það líður að páskaeggjaáti og af því tilefni fórum við mægður af stað fyrir allnokkru og keyptum okkur egg. Strumpuna langaði allra mest í Draumaegg (líklega var það fígúran á toppnum sem heillaði mest) og móðirin hafði fulla samúð með því og splæsti í það. Var sjálf á báðum áttum hvort hún ætti að kaupa sér egg númer 6 eða7, í henni blundar alltaf draumur um að fá egg af STÆRSTU gerð, en hún lét ekki undan freistingunni að þessu sinni og lét sér nægja egg númer 6. Mæðgurnar keyptu líka egg handa húsbóndanum, hann er lítill súkkulaðikarl og hefur yfirleitt gefið frúnni páskaeggið sem vinnan gefur honum. Vinnan klikkaði reyndar í fyrra, þess vegna splæsti frúin í þetta egg handa sér núna. En það fékkst sem sagt egg með núggati og það vorum við vissar um að myndi hitta beint í mark. Földum það vandlega þegar heim var komið. En síðan fór húsbóndinn að ræða það í gær að hann langaði svolítið í svona núggategg, svo þá var ekki annað hægt en að sækja leynieggið og sýna það … kom nokkuð vel á vondan sem kvartar ævinlega yfir sjálfsbjargarviðleitni frúarinnar, því þá hefur alltaf staðið svoleiðis á að hann hefur ætlað að kaupa handa henni vænt egg. Reyndar má segja honum það til hróss að hann gaf henni óvænt Draumaegg í fyrra, og það tókst af því að hún vissi ekki betur en að þau væru uppseld (að minnsta kosti á því verði sem hún kærði sig um). Endanlega páskaeggja“surpriseið“ kom svo í gærkvöld við spilaborðið. Þá uppljóstraði Jói um egg númer 6 sem biði Mumma í vinnunni. Mummi hótar að borða það sjálfur en ég veit ekki annað en hjón eigi að deila öllu svo ég hlýt að eiga minnst helminginn í því líka. Ég get lengi á mig blómum bætt.