Jæja, þá héldum við loks upp á Bóndadag, sem var frestað í síðustu viku þegar unglingurinn var í pössun hér. Ég keypti framandi steik, rándýra, í tilefni dagsins. Ætlaði að kaupa fasana en hann var búinn svo ég keypti dådyrskølle í staðinn. Áttum rómantíska stund eftir að Strumpan fór í rúmið.
Dádýrslærið fór vel í bóndann en síður í mig. Eitthvað bragð sem átti ekki alveg við mig. „Bakaði“ svo köku að hætti Cadbury’s, mæli ekkert sérstaklega með henni, alveg eins gott að kaupa súkkulaði og maula það (með karamellufyllingu, þá er maður kominn í sama pakkann, bara betri með minni fyrirhöfn). Bóndagjöfin í ár var The Pythons Autobiography by The Pythons. Mummi kom nefnilega með nett hint á laugardaginn var þegar ég var að segja honum frá Bókvalsferðinni (eða nett…sagði hreint út bókartitilinn og að hann langaði í hana… þetta var nú gefið). Hann var að vísu búinn að fá „forgjöf“, ég keypti nefnilega blóm (Benna sem þarfnast engrar umhirðu) handa honum í síðustu viku.
Skemmtum okkur yfir Ídolinu og Svínasúpunni. William nokkur var maður dagsins í Ídolinu. Ójá, she bangs she bangs 🙂
Súpan var góð, eins og venjulega, en eitt merki þess að aldurinn sé að færast yfir mig að ég hlæ ekki óskaplega að bröndurunum sem eru á dökkgráa svæðinu. Mér finnst eiginlega þeim takast best upp í hversdagsbröndurunum, eins og bíóferðinni eða RúnnaJúl senunni.
Pósturinn kom með tvær óvæntar sendingar í dag. Annars vegar fyrirframgreiddar barnabætur sem skiptust bróðurlega á milli okkar Mumma, hins vegar fékk ég Politiken Weekly, sem ég hafði pantað ókeypis sýnishorn af. Politiken Weekly er sérstaklega fyrir Dani í útlandinu til að fylgjast með, það er einmitt ég.