Ég klaufaðist til að gleyma einum hápunkti Reykjavíkurferðarinnar. Þannig er, að ég á mér eitt gríðaruppáhalds kaffihús/bakarí í borginni. Það er hið góða Café (Konditori) Copenhagen (veit aldrei hvort þessi miðhluti á að vera með) á Suðurlandsbrautinni. Oft hef ég þakkað mínu sæla fyrir að búa ekki í nágrenni þess því þá væri fyrst komið í óefni með línurnar og það allt. Alltaf slær dönskuhjartað örar þegar ég kem þar inn. Nema hvað, við fórum sem sagt þangað í morgunkaffi á sunnudagsmorgun. Það er alltaf hægt að finna sér ný og ljúffeng stykki. Að þessu sinni ætlaði ég líka að kaupa brúðkaupstertu Maríu og Friðriks, í ljósi þess að enn bólar ekki á boðskorti í brúðkaupið og ég er farin að óttast að ég hafi gleymst. Því miður var tertan ekki komin í hús svo í staðinn splæsti ég í þrjú extra fín súkkulaðistykki frá Valrhona og nú eru þau með kaffinu á kvöldin. Það er unaður bara að lykta af þeim, hvað þá að smakka.
Öðruvísi átfréttir eru til að mynda þær að við vorum stödd í mat hjá tengdamömmu í gær, hele familien. Þeir svilar mínir, Siggi og Ármann voru að pukrast með hákarl og ég ákvað að gefa Sóleyju að smakka. Nota tækifærið sem aldrei mun gefast hér heima. Þetta rann líka svona ljúflega niður, eftir að hún hafði áður borðað eins og meðal hross af svínasteikinni. Ég vona bara að hún haldi áfram á þessum efnilegu brautum.
Að lokum, aðeins að Survivor. Þáttur kvöldsins skúffelsi á skúffelsi ofan. Sannarlega á ég eftir að sakna nakta mannsins. Hann setti hressilegan svip á þáttinn. Ég held með vitlausu fólki. Ekki það að það eru margir sem ég væri sátt við að ynnu þáttinn. Þeir sem ég yrði ósátt við eru Rob Mariano (gamall fjandskapur), Sue (bara pain in the…), Jerri (gamall fjandskapur), Amber (of mikil klappstýra), og Jenna (voða glær eitthvað). Held að það sé upptalið. Kann til dæmis vel við Shi Ann alveg síðan hún át kjúklinginn.