106876799460456985

Í gærkvöldi fór ég allt í einu að spá í hvað Óli bróðir myndi segja um þessa tilraun mína. Ég hef víst tjáð mig ansi hreint út um blogg og bloggara…og það ekkert á jákvæðu nótunum. En hey – þetta er að vísu drengurinn sem þykist ekki vera bloggari – hann er bara að skrifa dagbók!

En vissulega, hvað er ég að spá, eftir að hafa verið ótæpilega á móti þessu? Réttlætingin mín er að einhverju leyti sú að ég þykist ekki vera í leit að athygli (!) eða að vonast til þess að komast að í einhverri útvalinni blogg-klíku. Ég ætla sem sagt ekki að fara að vísa í hina og þessa bloggara sem ég les og vonast til þess að þeir geri það líka við mig. Enda les ég frekar fá blogg. Eiginlega bara fólk sem ég þekki eða kannast við (nú þegar), nema þegar forvitnin um fræga fólkið kitlar mig og ég les Dr Gunna, Jón Ólafs. eða Brian May. Með öðrum orðum, ef ég fer skyndilega að vitna í Stefán Pálsson eða álíka fígúrur, þá má reka allt þetta gamla nöldur ofan í mig. Ekki fyrr.