106937297753850056

Ég var ekkert að ræða það í gær hvað við Palli höfum átt samleið lengi. Við fögnum nefnilega tíu ára afmæli um þessar mundir. Ég keypti „Ljúfa líf“ á útgáfudegi fyrir réttum tíu árum og síðan hef ég ekki skilið við hann. Vissulega fer hann ýmsar leiðir sem ég er ekki sammála. Ég var til dæmis aldrei hrifin af Paul Oscar – nema auðvitað í útlandinu að heilla Evrópu. En flest annað hefur náð til mín. Ég á alla diska með honum og hann og Monika eru toppurinn hingað til, þó svo „Palli“ hafi verið eins og sending frá himnum á sínum tíma. Nú þarf ég bara að ala dóttur mína upp í góðum siðum

Ég fann mikið fyrir því í gærkvöldi hvað ég hlakka til að geta farið á svona viðburði með hana. Kannski endar þetta með að hún verður á eilífu mótþróaskeiði og vill ekkert fara. Ég fer meira að segja reglulega á kaffihús með hana, bara við tvær í svona mother/daugther stemmingu.
Ehemm, kannski bara afsökun hjá móðurinn til að fá sér væna tertusneið…

Annars lykta ég af kleinum. Búin að snúa þeim nokkrum í dag og steikja þær flestar líka. Fékk kleinupoka með heim í laun. Verst að þarna fer planið mitt um að fara í bað og snemma að sofa, því ég þarf að bíða eftir að Mummi komi heim úr stærðfræðikennslunni þannig að við getum fengið okkur kaffi og kleinur.

Ungbarnasundið var ljómandi. Þau feðgin skemmtu sér sérdeilis vel. Ég held að Sóley hafi verið í montstuði að sýna pabba gamla allt sem hún hefur lært síðan hann kom síðast með. Og hún slapp við öll samskipti við sundkennarann, snéri sér bara að pabba sínum þegar hún ætlaði að tala við hana.
Áhættuatriðin eru farin að ganga betur. Þau eru til dæmis að hoppa á kaf í fanginu á mömmu og kafa á bakinu á mömmu. Hingað til ekki vakið mikla lukku, en þetta er allt að koma.

Og enginn leshringur. Það var svona sambland af pössunarvöntun og bílaskorti sem varð til þess að ég sleppti því að mæta, þetta var stofnfundur og ég vona að það hafi ekki verið einhver dularfull vígsluathöfn, sem er nauðsynleg til að fá að vera með. Mig hefur alltaf langað til að vera í leshring. Þarna á reyndar að takmarka sig við glæpasögur en ég held að ég lifi það af. Maður las nú líklega Stephen King og Agöthu Cristie hér í denn.

Að lokum. 18. des reddað. Búið að fá miða í forsölu. Gleði, gleði.