107013547212792311

Það fór lítið fyrir bloggi í gær. Einhvern veginn er það svo að ég nenni sjaldan að blogga þegar Sóley er vakandi enda finnst henni afskaplega sinnulaust af móður sinni að fara lengi í tölvuna í einu og lætur hana óhikað vita.

Í gærkvöldi var svo hið árlega baksturskvöld Sörusystra. Eins og nafnið gefur til kynna er verið að baka Sörur og félagsskapurinn samanstendur af nokkrum núverandi og tveimur fyrrverandi kennurum Síðuskóla. Þetta er alltaf mikil gleði. Í gærkvöldi fékk einn Sörubróðir að fylgjast með bakstrinum, til að læra af „meisturunum“ og dáðist hann mikið að þeirri þýsku nákvæmni sem einkenndi alla vinnu. Hver maður gekk að sínum stað og sínu starfi og svo var bakað af miklum móð. Sökum græðgi (í ár var ákveðið að baka tvöfalda uppskrift) tók þetta nokkuð langan tíma og ég var ekki komin heim fyrr en hálf þrjú, þá orðin býsna framlág. Hafði þurft að þola háðsglósur allt kvöldið vegna þess að ég skartaði nýju útliti. Eitthvað á milli fílamannsins og konunnar sem fór í of mikla sílikonvaraupplyftingu. Kvefið sem hafði plagað mig síðustu daga náði nefnilega hámarki þegar ég fékk svo mikið sem fimm frunsur. Það var rétt svo að ég hefði mig í að mæta, svo marið var sjálfstraustið.

Ekki lít ég betur út í dag. Ég fór að sækja afraksturinn klukkan tólf og núna eru þær orðnar frunsur dauðans (eða svona meira eins og formæður allra frunsa…) En í Pollýönnuleiknum gladdist ég yfir ýmsu. Í fyrsta lagi lít ég ekki svona út dagsdaglega. Allt í einu fannst mér sem hin hversdagslega Hafdís væri gullfalleg og mjög aðlaðandi. Reyni að muna það nokkra daga fram yfir frunsurnar. Í öðru lagi gladdist ég yfir öllu sem ég var ekki að gera. Ég var ekki að gifta mig, ég var ekki að kenna 30 manna bekk og fleira og fleira. Samt langaði mig mest til að fara huldu höfði. Ég hafði hins vegar hugsað mér að fara með Sóleyju niður í bæ til að sjá jólasveinana og ákvað að herða upp í mér og koma mér upp skýluklæðnaði. Þannig að við fórum niður í bæ, ég með trefil upp að nefi og dugði varla til, en kom sér reyndar líka vel með tilliti til heilsunnar að öðru leyti. Nema hvað, dóttirin, sem átti að njóta jólastundarinnar, sofnaði í bílnum á leiðinni í bæinn og vaknaði ekki þó hún væri tekin út úr bílnum og gengið með hana inn á torg. Hún sá því engan jólasveininn að þessu sinni. Ég huggaði mig við það að það kemur væntanlega jólasveinn eftir þennan!

Framundan er svo sælkerastund (það er jú nammidagur 🙂 ) með nýmöluðu kaffi og gæðaSörum. Ekki fallegum, en ákaflega ljúffengum.