107136135937369229

Dagurinn kallar á langa bloggfærslu. Hann hófst á fimleikasýningu Jóns Óskars. Frekar fyndið að taka daginn snemma til að horfa á fjögurra ára börn sýna fimleika. Þetta er snilldaruppfinning. Þau rusluðust þarna til og frá og ofvirkustu krakkar fengu gríðarlega útrás.

Fórum svo í morgunkaffi til tengamömmu og sinntum ýmsum viðvikum. Heim til að láta fröken sofa og svo í geðbilun Akureyringa og nærsveitunga á Glerártorgi og þaðan í barnaafmæli til Ingunnar Erlu. Stuttlega heim til að gefa barninu að borða og taka sig til.

Aðal mál málanna er kvöldið. Jólahlaðborð með vinnunni hans Mumma. Hófst á forpartýi hjá Óla Pálma, í nýja húsinu hans. Við stoppuðum svo stutt að það var rétt tími fyrir „the grand tour“ um íbúðina. Komst að því, mér til mikillar gleði, að Óli Pálmi er af Hreiðarsstaðakotsættinni. Við erum því mikið skyld – það eru allir í bókinni mikið skyldir mér, þó svo það sé komið í sjötta eða sjöunda lið.
Fengum óléttufréttir frá Óla Pálma kjaftaskjóðu, Ægir og Dagný ætla að fjölga sér.

Fórum heim til að gefa dömunni kvöldsopann og þaðan á Friðrik V. Ég var alveg ljómandi heppin með sessunaut, sat við hliðina á Villa Stebba (það liggur við að ég linki á bloggið hans). Sá drengur er óendanleg uppspretta gleði. Við tókum hlaðborðið með trompi. Fórum tvær ferðir í forréttina, þrjár í aðalréttina og tvær í eftirréttina. Ég held að við höfum staðið uppi sem sigurvegarar kvöldsins.

Nema hvað, maturinn var alveg ógnar góður. Kannski ferðirnar sjö bendi til þess en allt í lagi að ítreka það fyrir hina hægfattandi. Forréttasíldin olli engum vonbrigðum, ég smakkaði líka á reyktum lunda og gæsabringu, fannst ekki eins vont og ég bjóst við. Agnarlítinn bita af skötusel, ljómandi fínn. Sjávarréttapaté og lax, algjört jamm. Tvíreykt hangikjöt, býsna gott. Eina sem ekki stóðst nánari skoðun var villibráðapaté sem Mummi plataði inn á mig og eins sleppti ég að borða grísapaté af því að Mummi mælti ekki með því.

Þetta voru bara forréttirnir. Í aðalrétt smakkaði ég allt nema gæsapottrétt, Mummi sagði að hann væri góður í hófi, ég ákvað að spara frekar pláss. Firnagóð purusteik, góður kalkúnn, ljómandi hangikjöt, síðra lambalæri, enda kláraði ég ekki skammtinn minn af því til að geyma pláss til seinni nota.

Eftirréttahlaðborðið toppaði svo allt. Möndlugrautur, sígildur, vanillubúðingur með ljúffengu karamellukrösti, og svo þrír réttir með nöfnum sem segja lítið, bóndadóttir með blæju var einhver grautur sem var ekki spes, ítalska jólakakan sem ég man ekki hvað heitir, eitthvað með p og að síðustu eitthvað sem kallaðist jóladröngull minnir mig, svona brún rúlluterta með smjörkremi í einhverri fancy útgáfu.

Plús auðvitað kaffi og heimagert konfekt á eftir.

Við útvalin af Hreiðarstaðakotsættinni (vorum fimm þarna í kvöld) hittumst og kættumst yfir frændseminni, ég, Óli Pálmi og Skúli. Ég vann mér inn mörg stig hjá Skúla í kvöld. Fyrst þegar ég sagði honum að hann væri ekki nógu gamall til að hafa áhuga á ættfræði (hann vitnar nefnilega ævinlega í pabba sinn þegar ættfræði berst í tal og ber sig illa hvað kallinn er vel að sér) og svo þegar við dásömuðum gæði og fegurð Svarfaðardals. Ó já, hann er öndvegi íslenskra dala.
Skúli bauð í heimsókn á ættaróðalið sitt á Skeggstöðum næsta sumar, hann verður látinn standa við stóru orðin.

Allir góðir hlutir taka enda og við fórum heim um hálf tólf. Þá var Villi farinn að tala sænsku að mestu, við búin að fá heimboð í mat til Óla Pálma, búin að frétta að Ægir og Dagný eru líka búin að setja upp hringana og allar óléttu konurnar / nýbökuðu mæðurnar farnar heim. Eftir sit ég, afskaplega þægilega mett (greinilegt að æfingabúðirnar eru að skila sér) og ánægð með vellukkað kvöld. Á leiðinni að fletta upp í Uppflettiritinu eina sanna, kenndu við Hreiðarsstaðakot.