Mánaðarskipt færslusafn fyrir: janúar 2004

Bóndadagur hinn síðari

Jæja, þá héldum við loks upp á Bóndadag, sem var frestað í síðustu viku þegar unglingurinn var í pössun hér. Ég keypti framandi steik, rándýra, í tilefni dagsins. Ætlaði að kaupa fasana en hann var búinn svo ég keypti dådyrskølle í staðinn. Áttum rómantíska stund eftir að Strumpan fór í rúmið.
Dádýrslærið fór vel í bóndann en síður í mig. Eitthvað bragð sem átti ekki alveg við mig. „Bakaði“ svo köku að hætti Cadbury’s, mæli ekkert sérstaklega með henni, alveg eins gott að kaupa súkkulaði og maula það (með karamellufyllingu, þá er maður kominn í sama pakkann, bara betri með minni fyrirhöfn). Bóndagjöfin í ár var The Pythons Autobiography by The Pythons. Mummi kom nefnilega með nett hint á laugardaginn var þegar ég var að segja honum frá Bókvalsferðinni (eða nett…sagði hreint út bókartitilinn og að hann langaði í hana… þetta var nú gefið). Hann var að vísu búinn að fá „forgjöf“, ég keypti nefnilega blóm (Benna sem þarfnast engrar umhirðu) handa honum í síðustu viku.

Skemmtum okkur yfir Ídolinu og Svínasúpunni. William nokkur var maður dagsins í Ídolinu. Ójá, she bangs she bangs 🙂
Súpan var góð, eins og venjulega, en eitt merki þess að aldurinn sé að færast yfir mig að ég hlæ ekki óskaplega að bröndurunum sem eru á dökkgráa svæðinu. Mér finnst eiginlega þeim takast best upp í hversdagsbröndurunum, eins og bíóferðinni eða RúnnaJúl senunni.

Pósturinn kom með tvær óvæntar sendingar í dag. Annars vegar fyrirframgreiddar barnabætur sem skiptust bróðurlega á milli okkar Mumma, hins vegar fékk ég Politiken Weekly, sem ég hafði pantað ókeypis sýnishorn af. Politiken Weekly er sérstaklega fyrir Dani í útlandinu til að fylgjast með, það er einmitt ég.

Þessar kisur

Áður en ég byrja á kisusögunni vil ég biðja lesendur afsökunnar á letinni. Sérstaklega þegar er veið að linka á mann af fyrrverandi heimsfrægum bloggara. Hjörvar, þú verður að fara að senda út aðra pistla sem hljóta landsathygli svo maður njóti þess að vera LOKSINS kominn á linkaskrá!
Annars ætlaði ég að segja að ég væri að verða jafn slæm og Eygló…en það er kannski ljótt 🙂

En sem sagt, það voru kisurnar. Það er ekki flóafriður á heimilinu núna því þeir eru búnir að læra að opna skúffur og skápa. Skúffur til að sofa í þeim, ég er ekkert voðalega lukkuleg að láta kettina sofa í handklæðaskúffunni (sem þeir nota núna í hallæri af því að það voru gerðar sérráðstafanir með fyrstu skúffuna) eða í fötunum hennar Sóleyjar, en það virðist vera allra best að vera þar. Núna er bleyjurusladallurinn kíttaður þétt upp við skúffurnar í kommóðunni hennar svo á meðan þeir geta ekki fært rusladalla líka þá er friður. EN nota bene, um leið og gleymist að setja rusladallinn upp við eru þeir mættir (aðallega Skessa en líka Úlfur).

Prins er skápamaðurinn. Ég veit svo sem ekki hvort hann er farinn að opna skápa, en hann er að minnsta kosti farinn að gramsa inn í þeim til að næla sér í harðfisk. Við keyptum okkur harðfisk í ægilega sætum umbúðum, svona þorrasnakk, og sem ég kem fram á sunnudagsmorguninn var pokinn undan harðfisknum á gólfinu. Þarf auðvitað ekki að taka fram að hann var tómur.
Í fyrrakvöld laumaðist Prins svo aftur inn í skáp og fann seinni harðfiskpokann en þá greip ég hann glóðvolgan.

Annars er lífið hjá þeim óvenju erfitt núna. Sóley er farin að keyra bíl! Við freistuðumst til að kaupa pæjubíl á útsölu hjá Kalla frænda í gær og þetta líst þeim frekar illa á. Þetta heitir afmælisgjöf, enda styttist óðum í árs afmælið. Ég sem ætlaði aldrei að kaupa svona bíl handa barninu mínu. Ég held að það sé vegna þess að ég fékk nett ógeð hér um árið þegar Óli bróðir geystist um á gula bílnum sínum sem var með einhverjum ótætis bjöllum í dekkjunum. En svo heyri ég að þetta sé bara ljómandi sniðugt því þau geta gengið með honum á meðan þau eru að æfa sig að ganga. Svo þar braut ég enn eina prinsippregluna. Sóley er altént mjög lukkuleg með hann. Enn sem komið er situr hún bara, það er ógurleg stuðningsstöng allan hringinn svo hún dettur ekki af, og við ýtum. Það er nefnilega ýtistöng aftan á honum fyrir foreldrana, svo þeir verði örugglega ekki atvinnulausir.

Sundtími dagsins var með besta móti. Sóley greinilega búin að rifja upp að hún kunni ýmislegt fyrir sér fyrir jólin, en því var ekki að heilsa á fimmtudaginn var. Hún fór í allar æfingar með bros á vör, meira að segja þegar mamma hennar reyndi að handleggsbrjóta hana í kollhnísæfingu. Sumt fólk á ekki að handleika börn!

Fyndið barn

Eins og ég sagði fyrir nokkrum dögum þá er ekkert smá fyndið að fylgjast með Sóleyju þessa dagana. Nýjar kúnstir daglega.

Í gær fór hún að hneggja fyrir pabba sinn. Ég átti alltaf von á að fyrsta dýrahljóðið yrði mjálm en nei, hestur var það heillin. Hún hneggjar svo sem ekki eftir pöntun en við náðum að kreista nokkur út svo að ég gæti heyrt líka.

Annars má vart á milli sjá núna hvort er meira sport að flauta eða kyssa. Hún er ný búin að finna flaut hæfileikana aftur eftir að hafa flautað um jólin og nú skríður hún um og flautar og flautar.
Svo kyssir hún eins og Hollywood leikkona þess á milli. Gerir ógurlegan stút og enn meira kossahljóð. Finnst sjálfri að hún sé ljómandi fyndin, kannski ekki skrýtið miðað við undirtektirnar sem hún fær.

Það er hægt að tína fleira til. Kannski fleiri sögur fljóti næstu daga.

Ævintýri í sveitinni

Já við lentum í gríðarlegum hrakningum í dag þegar við fórum í heimsókn í sveitina. Það var viðbjóðslega hált og ekki hægt að komast með eigin vélarafli upp brekkuna við Munkaþverá. Siggi svili bjargaði deginum og dró okkur upp á þjóðveg. Þetta var ægilegra en það hljómar (að minnsta kosti ægilega meira pirrandi en það hljómar).

Freistaðist í bókakaup í dag. Fór í Bókval að kaupa afmælisgjöf og endaði á því að kaupa eitthvað handa öllum í fjölskyldunni að auki. Handa Sóleyju fann ég „Fyrsta orðabókin mín“ eða mig minnir að hún heiti það. Gríðarlega fín bók sem Anna systir átti sem krakki (kannski á hún hana enn?) og ég öfundaði hana mikið af. Hún er hins vegar aukin og endurbætt því hún er líka á ensku og dönsku. Lofar góðu. Handa mér keypti ég Öxina og jörðina og ætti að vera að lesa hana núna í staðinn fyrir að skrifa hér, enda eru kvöldin eini tíminn til lesturs. Handa Mumma (eða þannig, það hljómar alla vega betur) keypti ég „Við“, akureyrskt tímarit af því að þar er viðtal við akureyrska vændiskonu. Og í afmælisgjöf keypti ég Þrautabók Gralla gorms (ekki handa Óla bróður). Það var útsala á ýmsum bókum og ég átti afar bágt með mig. En þar sem öll kaupin nema afmælisgjöfin voru græðgiskaup hafði ég að lokum smávegis stjórn á mér. Huff.

Annars erum við í unglingapössun. Ögmundur frændi hans Mumma er hér í fóstri fram yfir helgi. Hann er ánægður ef við fleygjum nammi til hans og leyfum honum að horfa á sjónvarpið. Liggur við að við fáum ekki að stjórna fjarstýringunni. Bóndadagurinn fór þar af leiðandi fyrir lítið í gær og er frestað um viku. Ekki fer maður að elda eitthvað gourmet og eiga rómantíska stund saman með hann hér.

Jógamamman

Jæja, mætti loks í jóga eftir langt hlé. Fyrst á mánudag og svo aftur í kvöld. Strengirnir eftir mánudagsjógað svona passlega farnir að dofna þegar ég mætti aftur. Þetta form er alveg voðalegt með að hrapa niður eftir ekki lengri tíma en mánuð. Ég var alveg miður mín báða þessa tíma eftir svona hálftíma jóg, lá við að ég legðist grátandi á mottuna. En það er bara harkan sex sem blívur. Verst að Helga hefur gríðarlegt uppáhald á Stólnum og Engisprettunni þessa dagana. Ekki mínar bestu stöður.

Sóley átti erfiðan dag á mánudag. Ég ákvað nefnilega að rölta með hana á nýju snjóþotunni í heimsókn til ömmu sinnar. Ferðin var ljómandi skemmtileg framan af. Misgóð færð á leiðinni. Henni fannst til að mynda ógurlega fyndið þegar ég óð snjó upp að hnjám af því að ég ákvað að taka stuttu útgáfuna af leiðinni. Heldur kárnaði gamanið þegar hún fór fram af smá snjóbing og lenti á hvolfi. Þá gólaði mín. Ég skóf snjóinn framan úr henni og eftir smá stund var hún búin að ná sér.
Tók þá ekki bara verra við. Mamman vitlausa var ekki með hugann við verkið og litla fröken lenti á hlið og var dregin þannig áfram þangað til mamman tók eftir bældum kvörtunum! (Jæja, kannski ekki svo slæmt, en sagan er næstum alveg rétt.) Sem betur fer var þetta rétt áður en við komum til tengdamömmu þannig að hún komst í hús og fékk knús og samúð hjá ömmu sinni þegar hún kvartaði hástöfum yfir meðferðinni. Sóley fór svo með pabba sínum aftur í dag í sama ferðalag og gekk það heldur betur.

Litla frökenin var annars sérlega kát í morgun. Hún vaknaði til að drekka rúmlega fimm og var sett aftur upp í rúm að sofa. Það lá hins vegar svo vel á henni að hún spjallaði við sjálfa sig góða stund. Um sex vakti hún svo foreldra sína með mótmælaópum. Þá stóð í rúminu og var líklega í sjálfheldu, ekki viss hvernig væri best að setjast aftur og hrópaði þess vegna á aðstoð (eða á athygli og klapp eins og á sunnudag…) Ég lagði hana aftur og þá sofnaði hún um leið. Og eins og stundum áður, þegar það er pabbi sem má lúra með henni, svaf hún vært til hálf níu.

Þessir dagar eru í raun algjört bíó. Það er varla hægt að horfa á hana öðru vísi en í krampakasti. Nú er hún að uppgötva tunguna og togar í hana í tíma og ótíma. Svo þegar maður hlær að vitleysunni í henni spanast hún öll upp, hlær þessi ósköp og er að rifna af monti yfir að vera svona fyndin.

Montið barn og foreldrar

Stór dagur í gær. Litla strumpan, sem hefur síðustu vikur verið að bisa við að læra að standa á fætur, stóð ægilega sperrt upp í rúminu sínu í gær. Sem betur fer var búið að lækka botninn og þetta ekki mikið glæfraspil hjá henni. Hún var reyndar búin að hálf standa upp í sófanum en þarna var hún sem sagt ógurlega kát og montin og hélt sér í rúmbríkina. Við urðum auðvitað alveg lifandis montin líka og hrópuðum og klöppuðum og þá jókst nú heldur montið hjá henni og hún vildi líka klappa fyrir sjálfri sér og datt þá á bossann.
Ekki nóg með það, hún reisti sig líka upp úr liggjandi stöðu. Týpískt samt að þetta gerist allt þremur dögum eftir 10 mánaða skoðun þar sem er sérstaklega spurt hvort hún sé farin að standa upp.

Aðrar merkilega fréttir, en auðvitað í öðru sæti á eftir þessum tíðindum, eru þær að hér er búið að festa niður sumarleyfisferð. Við, litla fjölskyldan, ætlum ásamt Árnýju og stórfjölskyldu til Danmerkur. Erum búin að bóka gistingu í sveitinni á Jótlandi og verðum þar í viku. Okkar ferð er síðan heitið til Svíþjóðar, í bústað fjölskyldunnar. Sem sagt algjör slökun framundan. Og gististaðurinn lofar mjög góðu.

Við hjónin horfðum svo á Popppunkt endursýndan í gær. Höfðum það extra huggulegt með kaffi og köku (heyrt þennan áður?) Sigurður Kári kom mér á óvart, það var svolítið líf í honum (nema í poppglímunni…) en aumingjans Jónína Bjartmars. Hún var bara fyrir, gat ekki einu sinni sungið með í „Ég er á leiðinni“!

Afmæli ársins

Já, afmælisbörn dagsins (17. jan) eru tvö. Annars vegar er það alvöru afmælisbarnið sem er Anna Lilja hin þrítuga (velkomin í hópinn) og hins vegar Skúli frændi minn úr Svarfaðardal sem varð fertugur á aðfangadag en ákvað að halda upp á það í dag. Sem frænku og konu vinnufélaga var mér boðið og þvílíkt afmæli. Maginn á mér er glaður, raddböndin eru volg og ættrækniþráðurinn er sperrtur.

Það er ekkert hálfkák hjá Skúla. Það var hlaðborð með alls kyns góðgæti. Að öðru ólöstuðu kom nauta carpaccio skemmtilegt inn. Aðal bragðlaukatryllir kvöldsins var samt eftirrétturinn, mjúk súkkulaðiterta með hindberjasultumauki. Þetta tvennt á samleið.

Skúli býr síðan svo vel að eiga vinahóp sem hefur gaman að því að syngja. Af einhverjum óljósum ástæðum var sönghefti með eins og einu og einu Stuðmannalagi dreift og sungið við undirleik Friðfinns Hermannssonar. Flottustu innlegg kvöldsins, má vart á milli sjá hvort var betra, voru básúnueinleikur Skúla við Í bláum skugga og bongótrommusóló í nokkrum lögum. Já, kappinn lumar á ýmsu.

Ég náði pabba hans glóðvolgum í ættfræðiumræður, enda vorum við fyrstu gestirnir. Það vildi reyndar svo vel til að hann ræddi fyrst og fremst ættingja sem ég er vel að mér í svo ég kom sterk inn.

Að auki minnti ég Skúla reglulega á heimboðið í Skeggstaði, svo það ætti að komast á dagsskrá einhvern tímann í sumar.

Get ekki hætt að blogga nema minnast ögn á Ídólið í gær. Ég er bæði sátt og ekki við úrslitin. Sátt að því leytinu að hin tvö áttu ekki skilið að vinna. Jón hefur að vísu verið á uppleið og er greinilega að toppa á réttum tíma og Anna Katrín er klárlega meira efni en þeir báðir til samans en var því miður að botna á versta tíma.
Ég var hins vegar ósátt af því að Kalli er ekkert sérstakur. Hvað gerði hann til dæmis sérstakt við Mustang Sally? Það var varla að maður heyrði að þetta væri ekki órigínal lagið. Ég sé hann voða vel fyrir mér sem sveitaballasöngvara en ekkert meira. Óska honum samt alls hins besta en kannski fer þetta eins og með Clay Aiken. Það er ekki sigurvegarinn sem á eftir að slá í gegn.

Að lokum. Ég vildi að ég væri á NASA. Ball með Nýdönsk. Hefði pottþétt farið ef ég hefði verið í borginni. Those were the days.

Menning og fitumæling

Fyrsti leshringurinn minn var í kvöld. Við hittumst á Sigurhæðum, þetta voru mestmegnis kennarar úr VMA, að auki María sem einu sinni var húsbóndi á Vistinni og maður hennar. Umræðuefnið var, eins og ég nefndi hér um daginn, færeyskur krimmi, Ljúf er sumarnótt í Færeyjum. Það var nánast ófært í Sigurhæðir, ég fór leiðina út frá kirkjutröppum og hrundi einu sinni glæsilega, þó ekki alla leið niður brekkuna, þökk sé grindverkinu sem lafir þarna. Gaman að koma inn í þetta hús, þar hef ég ekki komið áður. Því miður sá ég samt bara efri hæðina, ég labbaði aðeins niðri líka en gat ekki kveikt ljós svo það var varla að ég sæi neitt.

Ef ég kemst að efninu þá er skemmst frá því að segja að þetta var alveg frábær kvöldstund. Eiginlega skil ég ekkert í mér að hafa ekki látið verða af því að reyna að hóa í svona hóp, nógu oft hef ég hugsað um það. Við vorum tíu, mér finnst það nokkuð hæfilegur fjöldi, það er eiginlega hvorki gott að vera mjög fáir né margir. Bókin var rædd óformlega, höfðum nokkra punkta á blaði til að styðjast við. Allir voru sammála um að aðall bókarinnar væri færeyska stemmingin.

Næst á dagskrá er Svíinn Henning Mankell. Wallander hinn frægi. Ekki nóg með að við lesum bók eftir hann, við ætlum líka að horfa á þætti gerða eftir bókinni sem Sjónvarpið er að sýna um þessar mundir. Ég hlakka mikið til næsta fundar. Þetta er líka hæfilega oft, einu sinni í mánuði.

Það eina sem mér fannst skrýtið var að allir hinir virtust algjörir krimmafræðingar. Ég sem les bara einstaka krimma og er í raun í klúbbnum á fölskum forsendum (til að vera í leshring, ekki til að lesa krimma) var alveg eins og bjáni þegar þau komu inn á hina og þessa höfunda. Einn af fáum sem ég þekkti með nafni var Alistair MacLean og ekki hef ég lesið hann.

Annars var fitumælingin langþráða í dag. Okkur til gríðarlegra spælinga virðast fitubúðirnar fyrst og fremst hafa virkað á foreldrana. Sóley hefur þyngst um svo sem eins og hálft kíló, ég býst við að mín kíló séu fleiri!! Betur má ef duga skal. Nú eigum við að bjóða upp á smjör og rjóma í öll mál, liggur mér við að segja. Það skiptir greinilega engu máli ef maður á kátt barn sem borðar vel, ef það er ekki eftir línunni þá er eitthvað að.

Við erum að hugsa um að svindla samt á þessu með bílstólinn. Huggum okkur við það að eins og hún er dúðuð þessa dagana slagar hún upp í níu kílóin. Það er að minnsta kosti varla forsvaranlegt að hafa hana í hnipri í ungbarnabílstólnum sínum.

Það kom líka upp að hún er með exem. Ég sem hef fagnað hverjum degi án eyrnabólgu og asma. Gleymdi alveg að spá í þetta. Tók svo sem eftir blettum á handleggjunum á henni, hélt að þetta væru bara einhverjir þurrkblettir. Nú eigum við að eitra fyrir henni með því að bera á hana sterakrem. Ég er bara passlega lukkuleg með það.

Skoðunin gekk samt vel, þrátt fyrir þessa Stórudóma. Hún var ósköp ljúf að láta pota í sig og dundaði sér kát með leikföngin á meðan við biðum (sem var um klukkutími allt í allt.)
Við slaufuðum líka sundinu, fyrsti tíminn eftir jól átti að vera í dag, en af því að hún er enn með hornös og hósta ætlum við að bíða aðeins lengur.

107404154541312116

Þá er loks búið að stofna danska kvikmyndaklúbbinn sem stóð alltaf til á síðustu önn.
Í kvöld mættum við þrjár úr aðal klíkunni, ég, Kristín og Þóra og horfðum á dramamynd sem heitir Arven. Það er skemmst frá að segja að myndin var góð eeeen (og ég vona að ég skemmi ekki fyrir neinum) endirinn var frekar sorglegur. Og þó að það sé hollt að ná sér niður af hamingjuskýinu af og til þá finnst mér samt vont að horfa á svona myndir.

Kvöldið var hins vegar ljómandi skemmtun og stefnan tekin á Gamle mænd i nye biler eftir mánuð. Fyrir þá sem ekki vita þá er það forsaga hinnar frægu og sívinsælu I Kina spiser de hunde. Ég bíð spennt eftir henni.

Gleymdi að minnast á það hér síðast að Sóley fékk loksins sína áttundu tönn (hér á laugardag). Ég óttast að það verði lítil pása, hún er að minnsta kosti nógu óróleg og slefin. Svo förum við með hana í fitumælingu á fimmtudaginn. Þá kemur í ljós hvernig fitubúðirnar reyndust. Spennandi tölur framundan. Fylgist með á „kisumamma.blogspot.com“.