… er dóttir mín. Sú stutta orðin eins árs og stór dagur hjá fjölskyldunni. Við hófum daginn á afmælissöng uppi í rúmi, reynið að ímynda ykkur okkur sönghjónin að syngja dúett.. ehemm. Það féll að vísu í góðan jarðveg hjá dömunni, hún sat skælbrosandi undir söngnum. Þar sem hún var fyrir lifandis löngu búin að fá afmælisgjöf frá okkur (bleika pæjubílinn) kom sér vel að við vorum búin að fá nokkrar afmælisgjafir í hús, svo við sóttum sænsku afmælisgjöfina og tókum hana upp. Sóley er í mikilli framför frá því um jól og sýndi kortinu mikinn áhuga og tætti svo reyndar í gegnum öll fötin sem leyndust í pakkanum. Við foreldrarnir vorum veikust fyrir sætu mínipilsi (sem er ekki þess eðlis að það eigi betur heima á 18 ára hóru, eins og sumt fyrir þennan stubbamarkhóp). Næsta gjöf var frá Unni og Ágústi (mjög svo óvænt gjöf það) og þar kom glæsileg regnkápa, hefði ekki getað valið hana sætari sjálf.
Við settum strumpu í pass til ömmu um hádegisbil til að fá frið að undirbúa veisluna. Ég er nefnilega ægilega kresin sjálf, vil helst allt nýbakað og þess vegna eru allar veislur undirbúnar á síðustu mínútunum. Við náðum að vísu að undirbúa smurbrauðsterturnar og baka marensinn í gær. Auðvitað fór það svo að síðasta kakan fór ekki inn í ofn fyrr en fyrstu gestirnir voru mættir á svæðið og ein kakan náði ekki að kólna tilhlýðilega til að hægt væri að setja á hana súkkulaðirjómann en að öðru leyti var bakkelsið vel heppnað og kláraðist næstum alveg. Við Mummi erum í eilífri samkeppni í smurbrauðinu, ég með rækjutertuna og hann með hangikjötstertuna, síðast vorum við að hugsa um að hafa samkeppni þar sem gestirnir áttu að kjósa um fegurstu kökuna en féllum frá því (enda vissum við auðvitað bæði að okkar kaka var fallegust).
Það var sungið fyrir Sóleyju, hún var frekar hissa á þessu tilstandi. Ég var nánast með tárin í augunum undir söngnum, ekki að spyrja að vælinu í mér… einhvern veginn var það yfirþyrmandi að litla barnið væri orðið eins árs.
Ég þurfti síðan að taka að mér að blása á kertið – það er meira mál að slökkva á einu kerti en maður heldur – þetta er einhver sérframleiðsla með ofurkveik. Hún fékk ýmsar góðar gjafir, „læknisbrúðu“ frá Bjarna sem hún faðmaði og kyssti, bók frá Kittý og co, peysu og sokka frá Hönnu og co, peysu frá Óla og Eygló, skokk frá Gumma og Helgu sem mættu frekar óvænt og voru einu fulltrúar minnar fjölskyldu á staðnum, ásamt fleiru.
Fékk að taka þátt í leiknum með hinum krökkunum, var meðal annars keyrð um „alla“ íbúð í pæjubílnum og var ekki lítið lukkuleg með það. Enda var hún alveg búin á því þegar veislunni lauk og var komin í háttinn upp úr hálf átta. Í tilefni dagsins dró ég fram gamla svæfilinn minn (og eina koddaverið sem ég á sem passar utan um hann, það er gult af elli – svona er maður gamall) og setti undir höfuðið. Hún hefur bara sofið með bleyju undir höfðinu hingað til en nú er maður orðinn svo þroskaður að það er kominn tími á alvöru kodda. Passing the torch.