Ég deildi því með ykkur hér fyrir stuttu að ég hefði látið verða af því að panta mér Grand Prix diskinn frá Danmörku svo ég gæti hlustað á hann Tómas og leyft litlu nemendunum mínum líka að njóta. Nema hvað, það bólar ekkert á honum. Ég fékk tölvupóst frá bookland.dk í síðustu viku þar sem þeir sögðu að það væru svona tveir virkir dagar í hann. Ég bíð enn og veit ekki hvert ég á að beina gremju minni. Hallast helst að Íslandspósti, það er sívinsæll óvinur.
Átti annars undarlegan dag í vinnunni í dag. Ég veit reyndar ekki hversu djúpt ég má ræða málin en læt þetta flakka. Ég var sem sagt að henda nemanda úr áfanga hjá mér. Hann var kominn yfir á mætingum og átti þá, samkvæmt reglunum, að fara til kennslustjóra og gera grein fyrir sínum málum. Ég nefndi það við hann fyrir 2 – 3 vikum en hann var ekki búinn að fara enn. Það sem meira og verra er, að hann sýnir enga viðleitni að vera að taka sig á, mætir seint (meira að segja inn úr frímínútum), gerir ekki baun í tímum og svo framvegis, svo ég tók af skarið í dag og tilkynnti honum að hann þyrfti ekki að mæta meira. Viðbrögðin hjá viðkomandi dreng voru þau að benda með fingri á hausinn á sér, ég veit ekki hvort hann var að meina að ég ætti að skjóta mig eða ég væri heimsk (eða það sem ólíklegra er að hann ætti að skjóta sig / væri heimskur). Það sem böggar mig mest í þessu samhengi er að ég hafði vott af samviskubiti. Samt var þetta borðleggjandi dæmi um gæja sem þurfti að draga mörkin.
Ég er nefnilega mikið að spá í þessu með skólagjöld. Ok, nú var ég ekki heimsins besti nemandi á sínum tíma, en algjör hátíð miðað við það sem viðgengst núna. Reynsluboltarnir í kennaraliðinu tala um mikla breytingu á svona tíu árum (kannski eru þeir svona kalkaðir að þeir muna ekki lengra aftur…) Ég er alla vega á því að það þarf eitthvað mikið að gerast í kerfinu. Erum við ekki komin út í öfgar, þegar „menntun fyrir alla“ þýðir að þú mátt vera jafn latur og óábyrgur og þig lystir í náminu?