Hrakfarir dagsins

Sem ég las vegabréfspistilinn hans Óla rifjaðist upp fyrir mér að vegabréfið mitt er einmitt að renna út um mánaðarmótin, og tímabært að huga að endurnýjun fyrir Edinborgarferðina. Svo ég gróf það gamla upp og sparslaði í stærstu hrukkurnar (þó ekki rassinn því hann er ekki með á passamynd). Síðan fór allt í óefni og skrifast alfarið á Sóleyju. Sem ég var nýbúin að skipta á henni fyrir brottför, skellur á önnur sending sem var ekki hægt að ignora og ég skipti á henni aftur. Settist á rúmið (hvar ég hafði einmitt sett mitt nýfundna vegabréf) og kláraði að klæða hana í. Setti hana í annan skóinn, fann ekki hinn akkúrat þá stundina og þegar ég gríp til að sækja vegabréfið, gríp ég bókstaflega í tómt. Til að gera langa sögu stutta fór fram æðisgengin leit (þetta var svona korter yfir tvö, munið að Sýslumaðurinn hefur ekki opið nema yfir hádaginn), meðal annars færði ég til rúmið, tók utan af sænginni, gekk um alla íbúð, leitaði innanklæða á Sóleyju og bara allt það sem mér gat dottið í hug. Seint og síðar meir kemur vegabréfið í ljós á góðum stað, innan klæða á mér. Þá hafði það smokrast inn fyrir buxnastrenginn og sat þar sem fastast.

Jæja, klukkan var margt og mikið en ég dreif mig af stað til að fara að minnsta kosti nýspörsluð í myndatöku (og ef ske kynni að Sýslumaðurinn hefði rýmt opnunartímann sinn). Fékk þessar dýrindis passamyndir hjá Ása vini mínum (sem spurði í miðri myndatöku hvort hann hefði ekki myndað mig áður – sem betur fer rifjaðist þetta allt upp fyrir honum áður en ég þurfti að minna hann á opnu buxnaklaufina – enda ekki að ástæðulausu sem hann man mig, því ég er enn uppi á vegg hjá honum – sem betur fer þó ekki stækkaða vonda fermingarmyndin sem hann hafði uppivið á sínum tíma og rústaði þar með endanlega unglingsárunum).

Síðan labbaði ég til Sýsló og komst að því að hann var ekki rúmur, svo vegabréfið (og ökuskírteinið – ég hugsa að ég fái ekki leyfi til að keyra bíl í Danmörku ef ég sýni bleika ferlíkið, svo ég brýt odd af oflæti mínu og fæ mér nýtt) bíður til morguns.
Fór að gamni í Bókval á meðan ég beið eftir að vinnudegi Mumma lyki og sá þar skólatösku sem mér leist ansi vel á að öllu leyti, nema lítill miði sem hékk á henni með tölunni 29.900. Það er ekki ódýrt að vera kennari.

Aðrar fréttir eru þær helstar að það stefnir í að ég taki að mér stundakennslu í HA næsta vetur. Bætist þar með í hóp allra hinna stundakennaranna fjölskyldunnar við Háskólastofnanir landsins.

Og kílópósturinn í dag er bæði hagstæður og óhagstæður. Það voru farin 900 grömm en bara 100 fitugrömm. Mjög dularfullar tölur allt saman.