Helstu húsafréttir

Jæja, það er aldeilis búið að vera nóg að gera um helgina. Við fengum húsið okkar klukkan sex á föstudag. Ég sleppti haustferð VMA til að geta tekið við húsinu (og það var víst ógeðslega gaman, aber ja!). Það varð reyndar ekki mikið úr verki þann daginn, en við náðum alla vega að kaupa svefnsófa svo Óli og Eygló gætu vígt húsið fyrir okkur. Annað var lítið gert (nema auðvitað að ganga um og ná almennilega áttum.)

Á laugardaginn hófst vinnan fyrir alvöru. Stubba sett í pössun til afa og ömmu og við fórum að mála. Það er skemmst frá að segja að það gerðist lítið á laugardag, svo ég var farin að spá í hverju væri best að sleppa á efri hæðinni (og löngu búin að gefa neðri hæðina upp á bátinn.) Það var straumur af fólki að koma að skoða og hitt og þetta sem þurfti að erindast. Við tókum niður eldhúsviftuna og skápinn utan um hana og stefnum að því að kaupa háf (sem er ekki einfalt mál þegar maður er með eldavél úti í horni.)

Nema hvað, í gær fór þetta loks að ganga. Við fengum elskulegan svila minn til aðstoðar og hann málaði einn og sér svefnherbergið, tvær umferðir. Við náðum að klára stofuna og eina umferð á rest (eina og hálfa á Sóleyjar herbergi, það kláraðist liturinn. Málið aldrei gult yfir dökkblátt.)

Það verður haldið áfram af kappi í dag. Ég má ekkert vera að því að vinna, helst vildi ég taka mér frí, en ég undirbý mig bara að lágmarki í staðinn. Eins gott að maður er að verða gamall í hettunni.

Við misstum af Sóleyju í réttum á laugardaginn. Hún skemmti sér víst konunglega, vildi helst fá að draga í dilka held ég.

Ég er enn með málningu í hárinu, ef vel er að gáð. Ég nota pensla og eigið hár nokkuð jafnhendis við málningarstörfin.