Brúskvöld

Ég náði að svindla mér á árlegt brúskvöld Síðuskóla á föstudagskvöld. Það vildi þannig til að ég las óvart bloggið hennar Hildu, míns gamla samkennara og þar var hún að skrifa um að það stæði til, svo ég bauð mér bara sjálf. Eins og alltaf var það ógurlega gaman, þetta er eiginlega með skemmtilegri spilum. Ég var greidd vel og vandlega þrátt fyrir hetjulega tilraun til að flýja um allan Galtalæk.

Helgin hefur samt verið með rólegasta móti. Gærdagurinn fór í alls kyns verslunarleiðangra – þar sem ég íhugaði meðal annars alvarlega að kaupa best of Robbie Williams en lét ekki undan freistingunni í það skiptið, enda hlusta ég hvort eð er bara á Nýdönsk núna í óendanlegri gleði og ánægju með nýja diskinn. Hann batnar svooo við hverja hlustun. Við fórum svo í yndislega gönguferð í dag í fallegu vetrarveðri -sem endaði á Bláu – ekki slæmt það.

Við mæðgur áttum svo dansmóment uppi í prinsessurúmi – hún dansaði og ég hélt í hendurnar á henni, það var mitt eina hlutverk sem dansfélagi. Þær eru góðar, þessar rólegu helgar. Afmælisbarn dagsins er amma – hún er 84 ára – og í gær átti elskulegur mágur minn 25 ára afmæli – til hamingju með það Heli minn. Synd að vera ekki í sætindunum hjá þér.