Sól og sumaryl

Ég hef verið ægilega lukkuleg með hækkandi hitastig og af því tilefni dregið fram pils við allar hugsanlegar dragtir (og til hvers að eiga þessi pils ef maður notar þau ekki). Viðbrögð vinnufélaganna eru mest hrós um hvað ég sé huggulega klædd en það er ekki að spyrja með karlmennina, þeir geta í mesta lagi sagt „hva, er komið vor hjá þér“ eða eins og einn sagði „ertu að fara að vinna í banka“. En jæja, ég er svo sem ekki að þessu fyrir þá.

Annars var ég hjá tannlækni í hádeginu að endurnýja gamlar fyllingar. Var eiginlega ófær um að tala í tímanum eftir hádegi, öll varahljóð alveg ónýt, p, b og m, þannig að ég talaði eins og fífl og skildist varla. Var búin að gleyma hvernig þetta er, rifjaðist heldur betur upp fyrir mér hvað var alltaf gert ógeðslega mikið grín að manni þegar maður kom deyfður heim (Anna þar fremst í flokki!)
En þetta var nú hálfgerð lýtaaðgerð, því nú hef ég hvíta fyllingu og þarf bara að brosa ögn breiðar svo það sjáist í efri góm 🙂