Takið barnið með í vinnuna

Já, það eru tóm vandræði þessa dagana að vera einstæð móðir. Dagmamman fallin fyrir flensunni og alls kyns próf í gangi hjá mér svo ég má ómögulega vera burtu. Sóley er því til skiptist í VMA og leikskólanum Álfasteini hjá ömmu sinni. Líkar vistin heldur betur þar, er víst orðin heimarík og frek eins og hún hafi verið þar í tíu ár 🙂 Þannig er hún líka í VMA, var með mér í tíma á föstudaginn og vildi helst fá að labba inn og út úr stofunni, svo það var á endanum læst fram. Einhverjir nemendur sluppu samt fram og hún uppástóð þá að fara líka. Ég reyndi að útskýra að þeir væru að fara á klósettið og þá henti hún sér í gólfið og argaði líka tóstið! Ég var alveg eins og bjáni.

Var heldur meira til friðs áðan, fékk seríós og hafði nóg að gera við að borða það. Á eftir að koma með mér í einn tíma í dag, reyni að hafa liti og fleira til að dunda með … Hún er að minnsta kosti ekki feimin, nema svona til málamynda, og á föstudaginn náði hún að bræða flest hjörtu, kríaði út köku hjá einum og annar fór og sótti handa henni mjólk – hún er eins og mamma sín með það, vefur karlmönnunum um fingur sér 🙂