Engin bloggleti

Mummi er eitthvað að kvarta um að ég sé löt að blogga en svo er alls ekki. Ég blogga sjaldan á föstudögum, nema mikið liggi við af því að ég er að kenna allan daginn. Ég er lítið fyrir að blogga hér heima, hvað þá þegar maður er einstæð móðir og uppgefin eftir daginn 🙂

Við höfum reynt okkar besta að vera á fullu í heimsóknum alla helgina. Fengum reyndar heimsókn í morgun, Kristín sá aumur á okkur og þau Sveinn Áki áttu hér góða stund. Sóley og hann léku sér eins og aldavinir, lásu, fóru í eltingarleik og eitt og annað og það lýsti langar leiðir af minni hvað henni fannst hann óskaplega merkilegur.

Annars dundi enn eitt hégómaáfallið yfir í dag. Ég er komin með frunsu. Það er ofarlega á topp tíu yfir það sem veldur mér mestu hugarangri á hégómaskalanum og því þungt yfir mér núna. Ef ég væri samviskulaus, þá myndi ég tilkynna mig veika þangað til hún er farin (þetta er jú vírus!) En ég verð víst að láta þetta yfir mig ganga. Hmprf!