Auglýsingar

Þessa dagana eru í gangi auglýsingar með tveimur fyrrum leikbræðrum, annars vegar Jóni Gnarr og hins vegar Þorsteini Guðmunds. Ég er svo að pæla með þær – er Jón Gnarr búinn að drepa niður í manni húmortaugina sem maður hafði til hans áður með þessum ömurlegu pistlum í Fréttablaðinu eða hvað? Hvað sem veldur, lottó-auglýsingarnar eru meira og minna allar svo leiðinlegar að ég verð þunglynd af því að sjá þær (brosti reyndar út í annað þegar hann sagðist ekki vinna af því að hann borgaði miðann en ekki konan – that’s it – og það gerðist einu sinni). Hins vegar eru þessar stórkostlegu auglýsingar með Þorsteini. Þær eru hver annarri betri og fyndnar í hvert skipti sem maður sér þær. Mér finnst amk alltaf jafn fyndin tilhugsunin um að lifa góðu lífi á námslánum. Þetta er furðulegt því að hér áður fyrr hefði ég frekar haft taugar til Jóns sem grínista heldur en Þorsteins. En nú fær maður bara einhvern veginn kjánahroll af Jóni.

Annars er dagurinn búinn að vera fínn. Yndislegur dagur í skólanum (bara fjórir tímar í kennslu og unaðslegir hópar) en svo kom pínu setback af því að Strumpan var ekki í sínu besta formi þegar hún kom heim, með nokkrar kommur, og búin að vaka síðan sex og skapið eftir því. En ég náði að bæla hana niður fyrir átta og hef haft það kósý síðan, með afmælisrauðvín frá Kristínu og hyggelighed. Hélt reyndar að ég ætti eftir að eyða deginum meira í símanum en það hefur sloppið býsna vel. Allir kurteisir og ætla að hringja seinna (I guess, eða ég á ekki eins marga vini og ég hélt).

Ég er enn í importi – allt fyrir i-podinn minn sem kannski fer með til Varsjár. Ég fór að spá í hvort ég væri með sérlega súrrealískan tónlistarsmekk, því að sumu leyti er hann alveg últra konulegur (nú er ég til dæmis að importa Kenny Rogers) og að sumu leyti ekki (ég hata Celine Dion, Whitney Houston – sem er að vísu löngu búin að vera, osfr.) Mér hefur alltaf fundist svolítið erfitt að staðsetja tónlistarsmekkinn, hann er víður en ekki fjölbreyttur, svona beint.