Ég velti fyrir mér hvort það séu margir sem lenda í því að fá spurninguna hvort það sé ekki leiðinlegt í vinnunni þegar þeir segja hvað þeir gera. Þetta kemur iðulega fyrir mig þegar ég segist kenna dönsku. Rosalega getur fólk verið mikið fífl. Væri ég ekki mögulega að gera eitthvað annað ef mér þætti leiðinlegt í vinnunni? Ég veit ekki hvort aðrir kennarar fá þessa spurningu mikið en af samanburðarrannsóknum þá virðast allir kennarar eiga við sama vandamál að etja. Nemendurnir eru svo óskaplega svipaðir á milli faga – sumir eru góðir alls staðar, aðrir leiðinlegir alls staðar og svo eru það þeir sem njóta sín í sínum greinum. Þeir finnast líka í dönsku. Ég veit um nemendur sem þjást fyrir að geta ekkert í ensku. Ég veit um nemendur sem velja spænsku þó þeir kunni ekkert í neinu tungumáli. Ég hef það ekkert betra eða verra en næsti kennari. Þetta er allt sama tóbakið.
Mánaðarskipt færslusafn fyrir: september 2005
Klukkstund
Eftir langa og erfiða fæðingu
-Ég hef drukkið kaffi frá sex ára aldri. Ömmu fannst það ekki það versta sem krakkar gætu fengið sér (og reyndar ekki sykur oná allt – slátur, rúgbrauð, gúrku etc.)
-Ég er með bilaðan líkamstermóstat. Venjulega er ég föst á frosti og þá elska ég lopapeysuna mína og lopateppi og álíka hjálpartæki. En þegar ég er í gálulega gírnum, get ég klætt mig mjög lítillega og verið funheitt eftir sem áður.
-Ég er með dásamlega svefnnáðargáfu. Ég sofna um leið og ég leggst út af, svo gott sem að minnsta kosti, og skiptir þá einu hvort ég hef lagt mig um daginn. Afar fá frávik frá þessu.
-Ég ætlaði aaaaldrei að verða mamma en alltaf að verða amma.
-Ég skæli iðulega yfir sjónvarpi og bíó.
Ég ætla ekki að klukka neinn. Mér telst svo til að það séu um það bil tveir sem ég les sem hafa ekki verið klukkaðir eða amk ekkert gert í því. Þá móðgast enginn.
Ferðasagan
Ég mæli með
-að sofa út í þrjá daga
-að fara í gamla bæinn í Varsjá og kaupa málverk af götulistamanni
-að hafa kómísku gleraugun á
Ég mæli ekki með
-fólki sem talar bara pólsku
-mat í Póllandi
-austur-evrópsku þjónustustigi (allt hæææægt)
Á hvorki né listanum lendir svo
-Radisson SAS (það var hægt að fá firna gott nudd í klukkustund fyrir 1800 krónur – 90 slotky- en þeir brugðust mér algjörlega á morgunverðarhlaðborðinu með því að bjóða EKKI upp á amerískar pönnukökur.)
-Að versla í Varsjá – sumt var á fínu verði, annað ekki. Ég fann til dæmis enga góða dragt (og þær voru basically á sama verði og í Svíþjóð), enga fína peysu, skoðaði ekki gleraugu og farsíma en keypti mér íþróttaskó. Það var eyðsluafrek ferðarinnar.
Bloggletin skýrist af veikindum Strumpu. Hún náði sér í eyrnabólgu í fjarveru okkar.
Talið niður í Pólland
Í gær átti ég eftir að kenna 10 tíma áður en ég færi til Póllands, í dag fjóra. Júhú. Ég er komin með lista yfir það sem ég ætla að athuga með verð á:
-gleraugu (efast um að ég kaupi, en samt)
-farsíma (6 er að verða ónothæfur hnappur)
-peysur, hlýjar, til vetrarins
-dragt (alltaf hægt að bæta við sig)
-nærföt (sama)
-Strumpudót (eitt og annað, meðal annars þarf að kaupa tvo pakka).
Ég er farin að óttast að ég komist ekki í Filippu K kjólinn minn á árshátíðinni því þrátt fyrir mjög góða hreyfidaga (í gær gekk ég í vinnuna, fór í leikfimi og göngutúr í gærkvöld) þá er eins og súkkulaðið elti mig og bætist utan á mig – ég neyddist til dæmis til að borða smá súkkulaði eftir gönguferðina í gær, til að ná upp þreki!
Og svo er það afmælisbarn dagsins – Strumpan er tveggja og hálfs í dag.
Afmælismánuður
September er mikill afmælismánuður. Þannig er í dag afmælisdagur afa, hann hefði orðið 92 ára í dag. Kannski maður ætti að gera eitthvað í tilefni dagsins? Opna rauðvín?
Læt fylgja með eina sögu af Strumpu. Þegar ég var að setja hana í bælið í fyrrakvöld, lét ég hana „lesa“ og syngja fyrir mig. Hún tók hlutverk sitt mjög alvarlega. Lauk sér af með því að strjúka á mér kinnina, segja mér að hún elskaði mig og ætlaði að fara fram. Ég mátti sofa í hennar rúmi því hún ætlaði að sofa í mínu. Ég hló mig vel máttlausa.
Leslistinn
Er rétt búin að ljúka bók sem ég keypti fyrir ári eða svo, á Kastrup. Sú heitir Diary of a mad mother-to-be eða eitthvað álíka (ég er annars eitthvað voða slæm með titla þessa dagana, svo sennilega er ekkert að marka þetta). Hún er ágæt, svona nettur Bridget Jones fílingur, og gaman að lesa hana af því að það er eitt og annað sem maður kannast við á sjálfum sér.
Fór þá að lesa þriðju Kvenspæjarastofuna – var búin að setja hana á bannlista þangað til ég væri búin með hina. Verst að þær endast svo stutt, meira að segja ég sem les orðið frekar lítið miðað við áður geysist í gegnum þessar. Mér finnst þær yndislegar, aðallega vegna þess að það er svo allt öðru vísi hugsunarháttur en maður á að venjast og takturinn líka.
Annars er það af Strumpunni að frétta að það er að hefjast ógurlegur íþróttavetur hjá henni. Við erum búin að skrá hana aftur í sund og nú síðast var ég að skrá hana á íþróttanámskeið. Maður verður að gera íþróttaálf úr henni (ætli tvö mínus-gen geri ekki plús annars?) Vona bara að henni þyki sport að fara í leikfimi eins og mamma. Verst að þetta byrjar auðvitað allt helgina sem við förum til Póllands. Typisch.
Lausnin fundin
Jæja, þá er úlpukrísunni lokið í bili og allir geta dregið andann léttar („hún hættir þá amk að blogga um það, bölvuð“). Ég hef fundið lausn sem allir geta verið sáttir við. Málið er saltað fram yfir Pólland. Ef ég eyði ekki fullt af pening í Póllandi er mér frjálst að kaupa úlpuna en annars er það bara skammskamm neinei.
Að öðru leyti er mest tíðindalítið í Hafdísarlandi, nema hvað ég afrekaði að fara í leikfimi í gær og uppsker lærastrengi í dag. En mikil asskoti var gott að drullast af stað.
Póllandspælingar
Ég er búin að skoða heimasíðu hótelsins í Póllandi til að skoða hvað er mikill lúxus í boði. Við skulum átta okkur á að ég hef ekki verið á fimm stjörnu hóteli áður, svo það er óvíst hvað ég næ að skoða Varsjá vel 🙂 Ég er alla vega ákveðin í að nýta mér öll fríðindi og þægindi hótelsins. Skoðaði líka HogM búðaúrvalið, þær eru allnokkrar. Ég er nefnilega búin að skera utanlandsferðir niður um eina þetta haustið svo það veitir mér pínu leyfi til að kaupa ögn. Það verður sem sagt engin Dublinarferð að þessu sinni. Búin að lofa dóttur minni tveimur pökkum (hún er öll í samningum þessa dagana af því að hún er reglulega minnt á að hún verði í gistingu hjá Gylfa afa og Öddu ömmu og eigi að vera voða góð.)
Úlpukrísan stendur annars enn yfir. Ég mátaði hana aftur áðan til að kvelja mig óstjórnlega meira. Ég var sæt sem aldrei fyrr í henni. Kannski er þetta aldurinn og ég er bara að gera mistök með því að tengja sætleikann við úlpuna. Ég er í raun bara seinþroska í fegurð og 32 er einhver lykiltala í fegurðarþroska mínum 🙂
Úlpukrísa
Álpaðist inn í Sportver í fyrradag og mátaði þar af einhverri rælni úlpu sem ég sá. Hún var í svo voða sætum litum, ólívugrænum meðal annars og mér fannst hún virka fín. Það versnaði heldur betur í því þegar ég mátaði hana, því ekki nóg með að úlpuskömmin væri fín – ég var líka fín í henni. ARGh. Hún kostar 19000 og það var ekki inni á ráðstöfun mánaðarins að splæsa í úlpu, hvað þá á þessu verði (ok þetta er vissulega „lítið“ verð fyrir góða úlpu eeen…) Nú get ég ekki hætt að hugsa um hana og ég finn á mér að þetta verður ein af þessum flíkum sem maður man alltaf eftir að hafa ekki keypt.