Markmið sumarsins

Markmiðin fyrir sumarin voru tvö. Annars vegar að fara í fjallgöngu – eftir að Vindheimajökli var náð, var þetta markmið útvíkkað í að taka einnig Súlur og Bryðjuskál (sem er í fjallinu ofan Munkaþverár) og það er skemmst frá því að segja að þessu góða markmiði var náð í dag, því sú góða ferð var farin í góðum félagsskap. Hanna og Ármann eru nokkurs konar „veterans“ í Bryðjuskál, þeirra 3. (?) skipti og ekki ónýtt að hafa svona góða leiðsögn. Veðurblíðan með eindæmum þó ekki hafi hún slegið Súlnablíðunni við.

Hitt markmiðið var að fara og skoða svæðið sem fer undir Hálslón. Því miður stefnir ekki í að það hafist. Ég hefði líka vilja komast barnlaus í þá ferð en það er ekki alveg hlaupið að því.

Brúðkaup gærdagsins hið besta. Brúðhjónin hrepptu besta veður sumarsins og það var allt fallegt, þau, athöfnin og veislan, sem og við veislugestirnir. Mjög skemmtilegt og við hjónin dönsuðum heilmikið – ekki svo oft sem það gerist.

Hlaup gærdagsins líka góð – vúhú. Ég sem hafði haft áhyggjur af því að Súluferðin myndi draga úr sperringnum. En nei, fór 6 kílómetra á  þremur korterum. Náði að hlaupa álíka lengi í trekk og skiptið þar á undan og hélt ég væri við dauðans dyr, þið skuluð ekki halda að þetta sé farið án þess að blása úr nös. Neinei. Ég er móð eins og, uhh, umm, ja, eins og laf – allir sem mæta mér eru örugglega skelkaðir að þeirra bíði fyrstuhjálparæfing. Setti líka markmið fyrir Akureyrarhlaupið. Það á að taka 10 kílómetrana á 1.15. Jamm.