Mánaðarskipt færslusafn fyrir: febrúar 2007

Leti

Að þessu sinni er það ekki ég að kvarta hástöfum yfir eigin leti. Neibbs. Ég var á dauðasyndafyrirlestri í dag, fluttum af Þorvaldi Þorsteinssyni. Þar sem ég þjáist af þeirri veiki að vera yfirleitt sammála síðasta ræðumanni þarf ekki að koma á óvart að ég var yfir mig hrifin af Þorvaldi. Hann er afskaplega líflegur ræðumaður og sköruglegur og virkar bara svo klár. Inntakið hjá honum var að andleg leti væri dauðasynd. Til dæmis að maður eigi að spyrja sig erfiðra spurninga og taka afstöðu. Þetta er bara alveg öldungis rétt en því miður auðveldara að vera sammála því heldur en gera actually eitthvað í því. Ég ætla samt að reyna að muna þetta, og kannski gera eitthvað í því stundum.

Að öðru, eins og sést hér neðar var Strumpan afar sátt við gærdaginn. Tók sig vel út og fékk að launum heilan pakka af Púkanammi. Hann var þó því miður gerður upptækur af móður og fær að bíða nammidags. Jamm, það er gott að hemja sælgætisátið á meðan maður getur.

Eiki rauði

Þarf varla að nefna það hvað ég er ánægð með minn mann. Kaus meira að segja til að sýna stuðning í verki… Ég er svo ánægð með hvað hann er jarðbundinn og virkar voða mikið hann sjálfur. Og lagið er bara dúndur. Það verður bara betra og betra. Ég skil þó vel áhyggjur þeirra sem horfa svartsýnir til norræna spjallsins. En fjandakornið, það hlýtur að finnast einhver spekúlant sem getur snakkað norræna tungu. Þau voru nú ekki öll jafn góð í Kontrapunkti hér um árið, en létu sig hafa það. Þetta hlýtur að reddast.

Verð hins vegar að nefna að þegar ég lagðist til hvílu á laugardagskvöld var ég til skiptis með lagið hans Friðriks Ómars og árans „Þú tryllir mig“ á heilanum. Hefði nú bæði sett Heiðu og Jónsa ofar 🙁

Konudagur

Ójá. Það er búið að dekra við mig. Ég er vel gift. Svo vel að ég er svona 9000 kaloríum feitari eftir daginn í dag en maðurinn minn er samt skotinn í mér 🙂

Ebay æði

Þá er fyrsta varan frá Ebay alveg að koma í hús. Fékk þennan leiðindamiða frá tollinum í dag. Já þið megið skoða póstinn minn. Sendið mér hann bara!!

Ég tók sem sagt smá kaupæði á ebay. Allt fyrir dóttur mína. Ef allt gengur að óskum mun hún eftir þetta eiga prinsessukjóla og hárkollur og Sollu stirðu búning. Þetta verður líklega afmælisgjöfin í ár, ekkert af þessu hugnast mér amk sem öskudagsbúningur, nei, ég er ánægðari með Línu langsokk sem áhrifavald í lífi hennar. Ég klikkaði reyndar á einu smáatriði í kaupunum. Þegar ég keypti prinsessukjólana sem koma í einhverri ógurlegri kistu, láðist mér að athuga flutningskostnað fyrir herlegheitin, og úffpúff, það fór summa í það. Héðan í frá mun ég muna að skoða þann kostnað.

Í öllu búningaæðinu fyrir dóttur mína var ég komin á fremsta hlunn að panta alls kyns búninga handa mér. Haldiði ekki að Mummi hefði orðið glaður ef ég hefði allt í einu skartað fínum Leiu-búningi? (þó ekki sá gull-litaði…) Eða verið allt í einu með sítt ljóst hár? Ég sá það alveg í hendi mér. Hætti þó við, einhvers staðar verður maður víst að draga línurnar.

Helgarblogg

Uhh, föstudagskvöldið var þannig að það er varla hægt að játa það. Horfði á ömurlegt sjónvarp allt kvöldið, var að fá fyrstu merki um pest og ekki í neinu stuði fyrir eitt né neitt (er með svona asnalegt kvef sem nær frá augum niður í nef, en blessunarlega hef ég þokkalegasta bragðskyn og litlar hósta- og hálspestir).

Hins vegar buðum við fólki (Auði og Elísu) í mat á laugardagskvöld í heimagerðar pizzur, Euroforvision og sænskt vídeó. Það var vellukkað, góður matur og félagsskapur. Euro svona frekar dapurt samt. Hefði viljað fá doktorinn sterkari inn, hann bar að vísu höfuð og herðar yfir rest en í ljósi dvergvaxtarins þar, þá er það lítið afrek.  En þetta þýðir það að Eiki minn er ekki með mikla samkeppni, hann er öruggur til Finnlands.

Í gær fórum við fjölskyldan í bíó á Charlotte’s web. Hún var með miklum ágætum, nú langar dóttur mína mest í grís sem gæludýr (sem betur fer ekki köngurló) og ég er ekki frá því að ég skilji hana vel. Strumpan var með þægasta móti í bíó, sat lungann úr myndinni svo þetta er allt á uppleið.

Fer hamförum

Það er frekar langt síðan ég var svona dugleg að blogga. Hvort það er vegna mikilla frétta af samkvæmis- og einkalífinu eða léttis að geta enn á ný hangið í tölvu, ja, já…

Í gær var sumsé gífurleg menning í gangi. Við fórum fyrst hjónin á Amtið og hlustuðum á Úlfhildi Dagsdóttur flytja fyrirlestur um dramb, í röðinni um dauðasyndirnar. Misstum af þeim fyrsta í síðustu viku en drifum barnið í pössun í gær. Gaman að því að gera eitthvað aðeins út fyrir normið. Fyrirlesturinn sem slíkur ekkert spes. Hún tók afar þröngt á efninu, svona til að tengja það einhverju öðru sem hún er að vinna að og fjallaði bara um dramb hins brjálaða vísindamanns. Ég náði engann veginn öllum tengingum hennar við hina og þessa vísindamenn bókmenntanna og bíómyndanna en hafði svo sem gaman af ýmsu. Fyrirlesturinn bauð ekki upp á miklar pælingar enda urðu umræður afar litlar og dræmar, því miður, því það er hægt að velta sér vel upp úr efninu. En við ætlum ekki að gefast upp. Í næstu viku ætlar Sigurður Frændi Minn Ólafsson að tala um óhóf (minnir mig…) og ég hef miklar væntingar.

Það var skammt stórra högga á milli því svo var það leikhúsferðin. Og ég verð að segja að ég er orðin afar þreytt á að fara í leikhús til að hlusta á fólk öskra. Þetta er annað stykkið í röð sem er þannig. Sýningin var reyndar ekki alslæm en svívirðilega subbuleg og blóðug. Ég hrökk oft í kút og aumingjans sérdeild VMA var meira og minna í hnút eða hoppum og oft skemmtilegra að horfa á þau en leikritið. En kettirnir stóðu sig vel og eiga heiður skilinn fyrir leiksigur 😉

Bíó og bækur

Við hjónin áttum smá barnlausa helgi. Strumpa var sett í pössun á laugardag af því að við stefndum að spilakvöldi við Catan – félaga okkar. Þegar var búið að koma barninu fyrir fengum við síðan afboð vegna veikinda. Hins vegar hafði Sóley verið svo spennt að fara í gistingu að það þótti ekki fallega gert að draga hana heim aftur. Við notuðum því tækifærið og fórum annars vegar í bíó (klukkan 6, án hlés, þvílíkur léttir) og hins vegar buðum við okkur í heimsókn og spil til Kristínar og Árna. Við fórum svo á Little Miss Sunshine og það er skemmst frá því að segja að ég tek undir orð Hela og hvet alla til að sjá þessa mynd, sérstaklega ef þið eruð eins og ég og sjáið fáar á ári. Sem sagt, must see, án þess að hafa fleiri orð um það.  Heimsóknin var líka vel lukkuð, bæði horft á Euro, (og omg hvað Eiki og Jónsi voru fínir, Eiki er minn maður alla leið) og spjallað og spilað.

Síðan er það auðvitað að frétta að ég lauk við að lesa Isabel og það er tómarúm í lífi mínu eftir það, nú er ég bara að lesa leiðindabók sem ég píni mig áfram með. Ég bíð eftir næstu bók… verst að það gæti orðið langur tími því þessi er flunkuný.

Og að lokum er það menningin, í kvöld er nefnilega leikhúsferð að sjá Svartan kött (leikritið sem ég íhugaði að setja Prinsa í en hætti við, ekkert smá fegin, ég áttaði mig nefnilega á að það hefði þurft skutling á æfingar! Eins gott að koma sér ekki í svoleiðis á meðan maður sleppur við það.) Alltaf gaman að fara leikhús. Þetta er meira að segja einhver umræðusýning, hósthóst. Veit ekki alveg…