Við hjónin áttum smá barnlausa helgi. Strumpa var sett í pössun á laugardag af því að við stefndum að spilakvöldi við Catan – félaga okkar. Þegar var búið að koma barninu fyrir fengum við síðan afboð vegna veikinda. Hins vegar hafði Sóley verið svo spennt að fara í gistingu að það þótti ekki fallega gert að draga hana heim aftur. Við notuðum því tækifærið og fórum annars vegar í bíó (klukkan 6, án hlés, þvílíkur léttir) og hins vegar buðum við okkur í heimsókn og spil til Kristínar og Árna. Við fórum svo á Little Miss Sunshine og það er skemmst frá því að segja að ég tek undir orð Hela og hvet alla til að sjá þessa mynd, sérstaklega ef þið eruð eins og ég og sjáið fáar á ári. Sem sagt, must see, án þess að hafa fleiri orð um það. Heimsóknin var líka vel lukkuð, bæði horft á Euro, (og omg hvað Eiki og Jónsi voru fínir, Eiki er minn maður alla leið) og spjallað og spilað.
Síðan er það auðvitað að frétta að ég lauk við að lesa Isabel og það er tómarúm í lífi mínu eftir það, nú er ég bara að lesa leiðindabók sem ég píni mig áfram með. Ég bíð eftir næstu bók… verst að það gæti orðið langur tími því þessi er flunkuný.
Og að lokum er það menningin, í kvöld er nefnilega leikhúsferð að sjá Svartan kött (leikritið sem ég íhugaði að setja Prinsa í en hætti við, ekkert smá fegin, ég áttaði mig nefnilega á að það hefði þurft skutling á æfingar! Eins gott að koma sér ekki í svoleiðis á meðan maður sleppur við það.) Alltaf gaman að fara leikhús. Þetta er meira að segja einhver umræðusýning, hósthóst. Veit ekki alveg…