Selurinn

Það bregst nánast ekki að þegar ég sit í eldhúsinu og fer yfir verkefni þá kemur Selurinn, leggst yfir pappírana mína og vill fá athygli og knús. (Fyrir þá sem ekki vita þá er Selurinn yngsti köttur heimilisins, gengur stundum undir nafninu Úlfur). Sem ég sat á þriðjudagskvöld og fór yfir ritgerðir þá kom hann og var í þvílíku gæðaskapi. Ég veitti honum talsverða athygli og við náðum svo samkomulagi um að hann fengi að liggja ofan á yfirförðu ritgerðunum og þvo sér en ég fengi að halda áfram í óunna bunkanum. Þetta gekk vel þangað til Selurinn flutti sig til og ég sá torkennilegan blett á efstu ritgerðinni. Við lyktarskönnun kom í ljós frekar úldin fýla sem hlýtur að hafa komið frá drengnum í þvotti. Ég skilaði ritgerðinni í dag en sem betur fer gekk úldna ritgerðin ekki út, eigandinn var ekki mættur. Enda – hvað á maður að segja? Kötturinn minn missti út sér á ritgerðina þína, sorrý?

Sem við Úlfur Selur áttum þessa góðu stund okkar, áður en ég fór í fýlu – bókstaflega – varð mér hugsað til þess að það eru ákveðin líkindi milli katta og eigenda. Þannig erum við Úlfur par. Erum vel í holdum, þrátt fyrir að borða nokkuð reglulega og oft eitthvað hollt, og stundum þó nokkra útivist. Mummi og Prinsi eru par, þeir hafa smá auka hold en ekkert ótæpilegt. Þeir borða hins vegar meira heldur en sest utan á þá, þrátt fyrir að stunda frekar takmarkaða hreyfingu og alls ekki markvissa. Strumpa og Skessa eru síðan þær penu. Borða mikið þegar vel liggur á þeim og eru reglulega í útivist en eru frekar of penar en hitt.