Mánaðarskipt færslusafn fyrir: janúar 2008

FÁDÆMA

Í gærkvöld var stofnaður nýr klúbbur innan kennarahóps MA og heitir félagið FÁDÆMA, sem stendur fyrir „Félags áhugafólks um dönskuæði í MA“. Getiði hver var upphafsmaðurinn 😉 . Nema hvað, við hófum starfið á því að horfa á nýjustu myndina í safninu mínu, Vikaren. Kvöldið var afar vel lukkað, fyrir utan smá tæknilega örðugleika í upphafi, eini karlmaðurinn sem var mættur reyndi allt hvað hann gat og konurnar voru allar með eiginmennina á línunni, sá sem kom sterkastur inn var Árni Sveinn, hann kom bara með sinn eigin prívat spilara á svæðið og tengdi hann…. Nú, myndin er frekar sérstök svo ekki sé vægar sagt, fjallar um afleysingakennara sem er í raun geimvera. Hún hentar líklegast vel í kennslu, þar sem þetta er eitthvað sem allir nemendur gætu kannast við 😉 .

Af listamálum, ég er að hugsa um að halda mig við ungu kynslóðina, sá sem ég hef augastað á er 30 ára, ég man að minnsta kosti ekki eftir neinum yngri sem er girnilegur…

Bóndadagsblíðan

Það stóð ekki á mér að dekra við manninn á Bóndadaginn. Hann fékk alls kyns gjafir, matreiðslubók og svuntu… ásamt einhverju fatakyns svona til þess að þetta yrði ekki allt skilaboð í sömu áttina. Og beauty-ið við þessi árans próf í janúar er að það er hægt að vera býsna laus við á þessum degi. Föstudagurinn var meira að segja laflaus því ég var búin að öllu sem bráðlá á. En nei, ekki dugði það til. Bóndinn nældi sér í magapest og var svo veikur að ég flúði úr rúmi svo aðfaranótt Bóndadags eyddum við sundur og eðli málsins vegna var engin bakarísferð að morgni, hvað þá kaffihúsaferð seinni partinn eða Halastjarnan að kvöldi. Þegar maturinn bregst þá fer allur ljóminn af deginum. Ég neyddist til að hrista eitthvað gómsætt en auðmeltanlegt fram úr erminni á föstudagskvöldið og var reyndar óvenju hjúkkuleg allan daginn því þetta element hefur alveg misfarist þegar ég var sköpuð. En sem sagt – frekar mikill flopp dagur. Okkur til huggunar frestaði ég Halastjörnunni um eina viku, ég vona að bóndinn verði farinn að bera barr sitt almennilega þá.

En listinn góði já. Ég sé að ég þarf að gera svona ársskýrslu, náði ég einhverjum markmiðum, eru markmið nýs árs óbreytt og svo framvegis… Ég þarf aðeins að velta mér upp úr þessu áður en ég birti skýrsluna.

Sorgardagur

Las í Mogganum fréttir af andláti vinar míns Heath Ledger. Er enn í sjokki, maðurinn var jú practically elskhugi minn, eða þannig sko. Hann var nefnilega fulltrúi ungu kynslóðarinnar á hjásvæfulistanum mínum góða frá 2004.

„Jæja, dagurinn í dag er aldeilis merkisdagur. Nú er karlalistinn minn nefnilega líka fullbúinn. Ég lá í gærkvöldi, áður en ég fór að sofa og hugsaði málin vel og vandlega (þetta er áhrifaríkara en að telja kindur). Þá mundi ég skyndilega eftir einum sem á svo innilega heima á listanum. Hann er sá yngsti sem fær inn á hann að þessu sinni (þó ég eigi að heita að vera fyrir yngri karlmenn.) Heath Ledger heitir þessi góði piltur. Hann er 25 ára og ekkert smá heitur. Úhh. Verðskuldað pláss á listanum.“

Það er ljóst að listinn verður ekki samur eftir að Heath er farinn. Það er ekki hlaupið að því að finna nýjan og verðskuldaðan wannabe elskhuga.

Elsku Heath. Leiðir okkar lágu ekki saman að þessu sinni. Vonandi rætist úr því síðar. Þín wannabe ástkona, Hafdís

Litið til sólar

Þá er aðeins farið að hægjast um aftur eða frá og með fimmtudegi. Það var fyrsti dagurinn í tvær vikur þar sem ég sló aðeins af og vann ekki eins og móðerfokker. Ekki það að ég á enn eftir að fara yfir helling en ég sé samt fyrir endann á vinnunni þar sem fyrsti bekkur er svo gott sem afgreiddur. Sé jafnvel fram á náðuga helgi þar sem ekkert bíður 🙂 . Það verður ljúft.

Ég hef svolítið náð að lesa á milli þess sem ég vinn. Kláraði Davíð (fann mér til mikillar gleði ljóð um langalangafa minn, bónda á Hillum á Áskógsströnd, enn meiri tenging við Davíð vin minn.) Fór í framhaldi á Davíðskvöld á fimmtudaginn var. Á Möðruvöllum þar sem prestshjónin lásu upp úr ævisögunni en það stóð reyndar meira upp úr að ættingjar og vinir skáldsins sögðu frá honum. Svo var endað á söng og ég endaði á enn meiri söng þar sem ég tók „Í dag skein sól“ eiginlega alla leiðina heim 😉 . Þetta var allt mjög rósrautt og yndislegt.

Nú, svo er alltaf hálfur hugur í London. Nú er búið að festa miða á Mamma Mia OG We will rock you en hápunktur ferðarinnar verður líklega (má vona amk) að borða á The Fat Duck sem er mjög frægur og virtur veitingastaður með 3 Michelin stjörnur. Þá hefur maður alla vega upplifað eitthvað sem ekki allir aðrir hafa gert.

Annars barst mér í gær andlátsfregn frá Danmörku. Børge, fósturpabbi minn frá því ’91 lést rétt fyrir jól eftir mjög skamma legu. Ég er mjög fegin að ég náði að hitta fjölskylduna í sumar þó ekki væri það langt.

Ástvinur minn Davíð

Ég er á kafi í ævisögu Davíðs Stefánssonar þessa dagana og gengur býsna hratt, þetta er jú algjör doðrantur og fer illa á kodda. Ég fékk hana nú ekki í jólagjöf heldur keypti ég mér hana fyrir jólin, því þetta var auðvitað must read. Ást mín á honum nær kannski ekki jafn langt aftur og sú á George Michael (sem er einmitt hin ævisagan sem ég las um jólin) en svona alveg síðan í MA. Þetta er hinn skemmtilegasti lestur og ég held ég verði að fara að tylla heildarverkunum á náttborðið og fara að rifja upp gömul kynni. Ég er handviss um að amma les með mér í anda, við hefðum heldur betur getað sameinast yfir þessu. Komst að því að Davíð gekk undir dulnefninu Gneisti, í félagsskap sem hann var í …. 😉

Annars er ég nánast búin að hafa það of gott um jólin. Sem betur fer voru fáir tímar að kenna eftir jól, 16 stykki eða svo, og nú eru próf að hefjast á morgun. Mikil törn vissulega, en maður getur leyft sér að vera aðeins myglaðri en í kennslunni, að því ógleymdu að mæta ekki fyrr en um hálf níu eða svo sem er algjör munaður. Ég eyddi jólafríinu talsvert í lestur, spil og át, hina heilögu þrenningu jólanna. Las Love over Scotland – í 44 Scotland Street seríunni, las fyrstu í Shopaholic seríunni, sem lofar svo sem ágætu, nú svo las ég þá nýjustu í Erlends-seríunni og líkaði ljómandi vel. Spilaði nýja Partý og co., og gamla, góða Catan og hið nýja Cluedo sem við fengum í gjöf frá Gneistanum og frú, það lofar bara býsna góðu. Við spiluðum einnig við Strumpu, Sequence for kids, gömul jólagjöf til hennar frá sömu spilafíklum.

Átti unaðsleg þriggja manna áramót með eindæma góðum mat – ég sá meira að segja um hluta matarins sem telst til tíðinda – gerði bæði forrétt og eftirrétt og hvoru tveggja að sjálfsögðu unaðslegt. Gerði meira að segja tvo eftirrétti – þar af gamla, klassíska vanilluísinn, nema með vanillukornum (við systkinin eitthvað svo samtaka) og svei mér ef hann nálgaðist ekki ísa þeirra Óla frænda og Arnheiðar að gæðum.

Annars er það helst í fréttum að það stefnir í annað brúðkaups(f)ár, ef af öllu verður. Nú og við hjónin líklega á leið í rómantíska London-ferð um páska 🙂 .