Það sem það er búið að vera gott veður á mann þessa síðustu viku. Algjörlega vonlaust í kennslu reyndar en fínt til að vera úti með unganum. Tókum hjólið hennar fram á sunnudaginn og hjálpardekkin af og nú er hún að ná ágætum tökum á listinni að hjóla. Hún var svo sem ekki sátt á sunnudaginn, fannst þetta ganga hægt og allt vera ómögulegt en svo fórum við á mánudaginn með Ástu vinkonu hennar og þá var Sóley alveg til í að sýna hvað hún gat. Á þriðjudaginn fórum við í sund í Þelamörk en komum áður en það var opnað og Sóley lék sér á leikvellinum við skólann en svo mundi ég að hjólið var í skottinu og hún æfði sig dágóða stund. Sundið var svo yndislegt, ég fór meira að segja á bekk og sólaði mig, í einar fimm mínútur eða svo. Ég hef aldrei haft eirð í mér að liggja í sólbaði, þrátt fyrir að vera heimsins mesti letingi og líður best liggjandi út af…
Í gær fórum við svo og keyptum langþráð trampólín og settum saman í morgun, þrátt fyrir vetrarspá um helgina. Það er ekki hægt að sleppa svona góðum degi eins og í dag. Sóley og Ingunn hafa líka verið úti síðan í morgun, so far stórslysalaust. Ég tók smá hoppusyrpu en fékk hálfgerðan svima. Þar að auki var ég rétt búin að fá mér sænska sumartertu og það passaði ekki við hoppin. Við þurftum reyndar að fórna tré til að koma græjunni á óskastaðinn. Mummi er miður sín en ég hafði alltaf haft horn í síðu þess. Það hefur stækkað ansi mikið síðan við fluttum hingað svo það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að sjá fyrir sér rest. Lóðin okkar þarf víst ekki á einu risatrénu enn… En kannski ég taki upp daglegt trampólínhopp. Þetta er þrusuerfitt og býsna gaman.