Litla lestrarnörd

Strumpan er alltaf að sýna meiri og meiri nördatakta, ja, milli þess sem hún sýnir pæjutakta auðvitað 😉 . Núna les hún og les í bók sem hún valdi sjálf á bókasafninu. Bókin heitir Einhyrningurinn, ég myndi skjóta á að hún sé hugsuð fyrir 8 – 10 ára eða þar um bil. Sóley er svo spennt, af því að hún las aftan á bókina að ein sögupersónan (hestur) ætti eftir að lenda í mikilli hættu. Forvitnin er að bera hana ofurliði svo hún stelst til að lesa aftar í bókinni, við tökum einn kafla á kvöldi fyrir hana en hún laumast áfram. Það er fyndið. Hún stefnir í að verða meira lestrarnörd en ég … þarna koma tvö plúsgen mjög sterk inn greinilega, því Mummi var auðvitað líka svona, vandspáð um hvort okkar var verra.

Ég er búin að ná mér af strengjunum. Hljóp í gærkvöld af því tilefni.  (Sem minnir mig á það, helv. fíflin flýttu Akureyrarhlaupinu, nú verður það 21. júní, einmitt þegar ég er í DK að spísa og snakka – aaarghhh!!!!) En hlaupið í gær altso afar stutt og mjöööög hægt. Þetta heitir örugglega ekki að hlaupa, kannski frekar að jogga. Hvað kallast svona röskur gönguhraði? Reyndi að teygja vel og vandlega á svo ég gæti amk setið næstu daga. Það eru jú prófayfirferðir út í eitt. Nú les ég til dæmis skemmtilegar játningar. Börnin í 1. bekk áttu nefnilega að skrifa um „din families spisevaner“ og þar kennir ýmissa grasa. Nú veit ég til dæmis að einn nemandi minn borðar morgunmatinn fyrir framan tölvuna til að geta horft á „One tree hill“…. og þetta er ekki stelpa 😮 .

Eftir tvær vikur verð ég í Danmörku, det er bare dejligt 🙂 .