Mánaðarskipt færslusafn fyrir: september 2008

Fossaferð MA

Haustferð MA var í gær og þemað að þessu sinni fossar í Bárðardal. Ég bætti tveimur nýjum fossum í safnið mitt. Ekki að það þurfi að keyra mikið og lengi til þess, ég er skammarlega lítið á ferð um landið, helst ef einhverjir útlendingar eru á ferð sem þarf að sýna einhver undur. Við skoðuðum fyrst Goðafoss, sem er reyndar sá foss sem ég hef líklega oftast séð. Ekki að maður verði leiður á því neitt. Fyrir neðan hann er lítill bróðir sem heitir Geitafoss. Hann hef ég væntanlega séð áður en ekki er hann eftirminnilegur. Eftir þessa bræður héldum við að Aldeyjarfossi sem ég sá fyrir margt löngu. Ekki var hann síðri en í minningunni. Svo fékk ég tvo nýja fossa, annars vegar Hrafnabjargafoss og hins vegar Ullarfoss. Báðir flottir og væri gaman að draga túrista að þeim. Við enduðum ferðina á Stöng í Mývatnssveit og borðuðum og skemmtum okkur. Ég fékk smá aldurskomplexa þegar ég komst að því að elsti nemendahópurinn minn er fæddur sama ár og ágæt samstarfskona mín. Ég náði mér þokkalega á strik aftur og söng með unglingunum í rútunni á heimleiðinni. Er þó afleitur rútubílasöngvari því það eru svo mörg lög sem ergja mig ósegjanlega og þá nenni ég alls ekki að syngja með. Rútusöngkona með sérþarfir. Annars tók Sverrir Páll helling af myndum, áhugasömum er bent á bloggið hans.

Tannálfur á leiðinni

Stórtíðindi hjá þeirri minnstu í kvöld. Það hefur legið í loftinu í einn og hálfan mánuð að fyrsta tönnin væri að huga að brottför – þetta voru góðu tíðindin hjá tannlækninum þegar hann sá að það þyrfti að leggjast í meiri lagfæringar. Síðan hefur ferlið verið frekar hægt, foreldrarnir svona tosað og ýtt af og til en lítið hnikast. Á fimmtudag fór svo að sjást alvöru hreyfing á tönnslunni og við tekið aðeins meira á því. Í kvöld brast hins vegar meira en oft áður og þá varð ekkert snúið. Operation tand stóð yfir í klukkutíma með blóði, svita og tárum. Strumpan sveiflaðist á milli ofsahræðslu og mikillar spennu og sá ekki fyrir hvort hefði yfirhöndina. Að lokum voru settir afarkostir, annað hvort svefn eða reynt til þrautar. Það hafðist þegar tungan hætti að ýta á móti og móðirin fékk að ýta tönninni inn. Þá var kvikindið bara allt í einu laust og rosaleg gleði braust út. Nú liggur fröken upp í rúmi, enn í adrenalínrússi og sofnar líklega ekki strax. Enda á eftir að færa pabba tíðindin, hann stakk af í módelstúss og missti fyrir vikið af stórri stund. Nú er að sjá hvað tannálfurinn gerir í nótt.

Dagur óttans

Verð að viðurkenna að ég átti ekki von á að þurfa að horfast í augu við þetta svona snemma en í dag er fyrsti dagurinn þar sem dóttir mín fær símtal frá strák og rýkur með símann inn í herbergi og lokar að sér! Tilvonandi tengdasonurinn heitir Hannes og er af góðum ættum.

Vanagangurinn

Þá er allt að bresta í rétt form. Sóley byrjuð í öllu sínu, vinna að hefjast formlega hjá mér á morgun og allt sósíallíf að fara af stað. Mummi fór í haustferð RT um helgina, við mæðgur vorum einar heima og höfðum það gott. Ákváðum að hafa stelpukvöld á laugardagskvöldið, horfa saman á Grease og gúffa í okkur nammi. Strumpan var illa spennt yfir því, sagði öllum sem heyra vildu af þessu og stundi upp eftir hádegi á laugardag hvenær þetta stelpukvöld byrjaði eiginlega. Dagurinn leið þó fljótt því við fórum í réttir í sveitina til langömmu hennar. Sveitagenið spratt fram og sú stutta var aldeilis óð að draga í dilka, vildi helst enga aðstoð þó að aðfarirnar væru stundum eins og á ródeói, hún á baki að halda í horn og svo bara líf og dauði hvort hún héldist þar og þetta þó að ég væri með. Við skemmtum okkur báðar svona vel, ég hef jú alltaf verið smá sveitakona inn við beinið en það fær helst útrás þegar ég knúsa kettina. Við komum hins vegar seint og síðar meir heim. Fröken fékk að velja kvöldmat og spurði hvort ég kynni að elda hrísgrjónagraut. Ekki von að barnið efist. Hún þekkir auðvitað ekki fortíð mína sem ungfrú Mjólkurgrautur – mörg ár í röð ósigruð. Eftir graut og bað á báðar hendur var klukkan orðin margt en við fórum samt undir sæng með nammi og byrjuðum að horfa. Sóley var býsna hrifin af myndinni (hafði fyrr spurt um hvað hún væri og ég svaraði því til að hún væri um ást og þá spurði hún auðvitað hvort hún myndi læra eitthvað um ást… hmmm. Já, ekki verða skotin í aðaltöffurunum, þeir vilja þig ekki eins og þú ert). Nema hvað, þegar kom að danskeppninni var farið að síga á seinni hlutann hjá minni og hún kvartaði yfir að vera illt í augunum 😉 . Svo myndin var sett á ís og á eftir að klára seinni hlutann.

Annars er ég farin að fíla mig utanveltu. Hvað er málið með Hjaltalín og þetta lag sem allir tala um? Ég ekki skilja!

Sumarlesturinn

Ég er búin að lesa eitt og annað í sumar. Eins og oft áður hef ég náð mér í slatta af bókum á útlensku og lesið þær. Fátt eitt merkilegt þar. Hins vegar er ég búin að lesa þrjár athyglisverðar bækur. Fyrst kom Mummi færandi hendi til Svíþjóðar og gaf mér Strákinn í röndóttu náttfötunum.  Sá í hendi sér að það væri eitthvað fyrir mig af því að það stóð eitthvað um að gráta yfir lestrinum aftan á bókakápunni. Hún hitti líka vel í mark. Afar athyglisverð bók en aldrei þessu vant grét ég ekkert.

Síðan fékk ég lánaða Áður en ég dey. Það reyndist grátbók mikil, svona af kalíberinu viskustykki við hendina. Mæli með henni fyrir þá sem elska að gráta yfir bókum. Sú síðasta í sorglega flokknum var Marley og ég. Hundabókin um óþægasta hund í heimi. Hún var meira svona hlegið og grátið bók því hún var mjög fyndin á köflum, byggð á sannri sögu (maður getur meira að segja séð Marley á You tube) og lýsingarnar hreint ótrúlegar. Í lokin var ég hins vegar farin að gráta mikið, enda hundurinn farinn að eiga í manni hvert bein (hmmm kannski ekki heppilegt?).

Núna er ég bara leið af því að ég hef ekkert svona gríðarlega spennandi að lesa, mig vantar svona bók sem maður tætir í sig. Ég er að þræla mér í gegnum Phillip Pullman, bara fyrir Mumma. Northern Lights er svo sem ágæt en hefur ekki hertekið mig og ég er búin að vera svona mánuð með þriðjung bókarinnar. Sá reyndar viðtal í gær við uppáhalds danska rithöfundinn minn á DR og er að spá í að draga upp það sem ég á eftir hana.