Mánaðarskipt færslusafn fyrir: nóvember 2009

Minning um mann

Síðustu daga, frá því að ég frétti af andláti Róberts samkennara og fyrrverandi ensku- og sögukennara míns hafa leitað ýmsar minningar á hugann. Hann kenndi mér ensku fyrsta veturinn minn í MA. Eitt af því fyrsta sem hann þurfti að leiðrétta hjá mér var óhófleg notkun á „gonna“. Enskunámið mitt hafði nefnilega farið að talsverðu leyti í gegnum dægurlagatexta og þar kom þetta víða fram … I’m gonna love you eða hvað var nú sungið um … amk var mér afar tamt að nota þessa styttingu. Þetta þótti Róberti ekki boðleg enska og gerði strangar athugasemdir í stílunum mínum. Síðan hafði ég hann sem sögukennara í þriðja bekk. Þá var framan af sögukennslunni búið að mata okkur all svakalega á glósum á töflu en þannig vann Róbert ekki. Hann talaði. Og ef við vildum eiga glósur urðum við að gjöra svo vel að hlusta og skrifa niður eftir honum. Það var afar gagnlegt og góður undirbúningur fyrir háskólann, svo ekki sé minnst á að kennslan var meira lifandi fyrir vikið. Ekki má gleyma að öll mín skólaár var Róbert leikinn á árshátíð skólans. Ég var í leikfélaginu fyrsta árið mitt og það var mikil lukka að endurtaka atriðið með Róbert frá fyrra ári, þá lék Árni Friðriks hann og fór með söguna af Maríu Antoinette. Þetta atriði lék Árni öll sín ár í skólanum og mætti að auki eftir að hann útskrifaðist og tók það. Ekki held ég að Róbert hafi tekið það nærri sér, hefur eflaust haft húmor fyrir þessu.  Síðan kynntist ég auðvitað annarri hlið á honum, eins og gefur að skilja, þegar ég fór sjálf að kenna við skólann. Þá varð maður fljótt var við að hann var mikill áhugamaður um skólastarf og kennslu og mikill prinsippmaður. Hann vildi hafa hlutina í föstum skorðum og var ófeiminn að láta skoðanir sínar í ljós. Ég sá líka aðra hlið á honum þegar hann leiðsagði fyrir okkur kennara um Skaga, en þangað fór hann iðulega í veiðiferðir á sumrin. Það var gaman að hlusta á frásagnir hans. Einhverju sinni ræddum við líka kattauppeldi. Hann komst að því að ég ætti ketti og við ræddum þá góða stund. Meðal annars spurði hann hvort kettirnir mínir fengju að sofa uppi í rúmi og ég sagði svo vera. Þá játaði hann, ekki laust við að vera skömmustulegur, að það fengi kötturinn hans líka, en alls ekki á koddanum. Þar dró hann mörkin í uppeldinu.

Það er eftirsjá að Róbert. Hann var sérstakur karakter og litaði sitt umhverfi. Kennarar harma ótímabært brotthvarf hans. Gamlir nemendur minnast hans með hlýju og mikil sorg ríkir í skólanum. En minning hans lifir.

Menning og listir

Þá er loks komið að færslunni um allar bækurnar sem ég hef lesið undanfarið og svo bíó- og leikhúsfréttir. Það varð til félagslíf aftur í mánuðinum, fyrst fórum við að sjá Stúlkuna sem lék sér að eldinum í bíó og geymdum Skottu hjá ömmu á meðan. Fannst myndin góð, enn er hægt að dást að því hvað er hægt að laga bókina vel að kvikmyndaforminu án þess að maður sakni einhvers stórvægilegs, sem er vandaverk þegar maður er nýbúinn að lesa bókina. (Nú horfðum við til að mynda nýlega á Harry Potter 4 eftir að við Sóley Anna kláruðum að lesa hana og ég reytti hár mitt og skegg af ergelsi yfir því sem var breytt og sleppt þar). Skottan stóð sig vel hjá afa og ömmu – eða þau kvörtuðu að minnsta kosti ekki hástöfum …

Næsta félagslíf var leikhúsferð, enn erum við með árskort og fyrsta sýningin þar var Lilja, leikrit byggt á Lilya 4ever. Mumma kveið fyrir sýningunni enda efnið frekar niðurdrepandi, en ótrúlega „aktuelt“ um þessar mundir hér heima. Mér fannst sýningin góð en leið fyrir samanburðinn við myndina, þó hún sé svo sannarlega ekki í fersku minni. Ég man bara enn tilfinninguna sem sat í mér eftir að horfa. Skottunni var komið fyrir hjá Öddu ömmu og Gylfa afa með pela og græjur. Þegar við komum að sækja hana bárust orgin út á götu … en sem betur fer, ef afi og amma eru ekki að fegra neitt, þá hafði það ekki staðið mjög lengi og hún hafði meira að segja dottað svolítið.

Síðan tók ég mitt eigið prívat félagslíf, fór á tónleika á laugardagskvöldið með Nýdönsk. Mummi fékk ekki brottfararleyfi svo að við þyrftum ekki að leita enn að pössun, enda nóg framundan af öðru, en það þýddi að ég fór ein. Það var svo sem í lagi, ég kom mér bara fyrir undir vegg og lét lítið fyrir mér fara. Hringdi reyndar í Óla bróður til að hafa smá félagsskap 🙂 en hefði auðvitað viljað hafa Mumma, Önnu Steinu eða Árnýju með líka, svona upp á gamla tíma. Tónleikarnir voru auðvitað frábærir, mínir menn klikka ekki á neinu nema stöku texta 🙂 . Skottan var ekki sátt, þó voru mjólkurbirgðir heimilisins allnokkrar en ekkert dugði og mótmæladeildin hefði þurft að hafa auka manneskju á vakt.

Af lestri er það helst að ég ligg í norrænum bókmenntum og þá allra helst sænskum krimmum. Wallander er reglulega á náttborðinu núna, ég kann vel að meta hann og við hjónin erum í þessu saman sem er ósköp gaman. Höfum tekið upp á þeim sið að fara á Amtið fyrir helgar og taka einn Wallander, tókum reyndar óvart Wallander seríu síðast, sem tók fjórar klukkustundir að horfa á, en það bjargaðist. Serían var einmitt eftir bók sem við lásum nýlega, Fimmta konan, og stóð ekki undir væntingum því þar voru mjög undarlegar og óþarfa breytingar. Hins vegar var leikarinn sá, Rolf eitthvað, miklu líkari okkar hugmyndum um Wallander, hann Krister eða hvað hann nú heitir, er full mikill gæi.

Aðrir sænskir krimmar eru auðvitað Stieg Larsson, bíð eftir þriðju, Lisa Marklund sem ég tók mjög skarpt í sumar, sem og Camillu Läckberg en aðrir minna þekktir eru Håkan Nessar, sem ég var að enda við að lesa á dönsku (Menneske uden hund), Björn Hellberg sem ég las á sænsku! og Mari Jungstedt sem ég hef keypt á dönsku og skrifar sögur sem gerast á Gotlandi. Mér finnst þetta voða skemmtileg lesning allt.

Svo las ég loks Berlínaraspirnar, Kuðungakrabba og Á grænum grundum, sem eru norskar bækur eftir Anne B. Ragde. Þær heilluðu mig alveg, og Arnheiður benti mér svo á að Amtið ætti þætti sem hefðu verið gerðir fyrir norska sjónvarpið. Ég tók þá og æfði mig svolítið í norsku í leiðinni. Þeir verða víst sýndir á RÚV í vor en ég mæli frekar með bókunum, þó að þeir hafi verið fínir.

Í sumar tók ég líka svolítið vælutímabil í bókum. Las Á ég að gæta systur minnar, Kona fer til læknis, Viltu vinna milljarð, 19 mínútur og álíka bækur. Grét út í eitt – en ég kann prýðilega við það svo það kom ekki að sök. Þetta var svona uppsafnaður listi af bókum sem ég hafði ætlað að lesa og tók mig loks til og pantaði þær á bókasafninu til að þetta kæmist í verk.Af þessu má sjá að ég og Amtsbókasafnið erum prýðilegir vinir.

Héðan af heimilinu er allt gott. Skottan fór í sex vikna skoðun fyrir 10 dögum, kom ágætlega út nema hvað þyngdaraukningin lét sig eitthvað vanta. Man ekki alveg töluna (og hún var ekki skrifuð í bókina) en það voru tæplega 200 grömm sem höfðu bæst við. Ekki sérstaklega mikið. Hins vegar var hún búin að lengjast um 5 sentimetra frá fæðingu og var 58 sentimetra. Samanburðurinn við systur var ekki jákvæður, Skotta var álíka þung og Strumpan fjögurra vikna. Svo taldi hjúkrunarfræðingurinn að hún væri með magakveisu miðað við lýsingar okkar, hún byrjaði tveimur dögum eftir fjögurra vikna skoðun. Við erum að gefa henni Minifom dropa og þeir virðast eitthvað hjálpa, að minnsta kosti tekur þessi ljóti púki Skottuna ekki alveg yfir. En það þarf oft að hafa fyrir henni á kvöldin, henni er ekki sama hvernig á henni er haldið og verst af öllu virðist vera að sitja í fanginu á þeim sem horfir á sjónvarpið! Það er þó lítil fórn á meðan daman sefur að öðru leyti vel. Hún ætlar að vísu að fara að venja sig á að sofa uppí – kvartar þannig þegar hún er lögð í vöggu að móðirin sér aumur á henni (reyndi að vísu þrjóskukeppni í klukkutíma í fyrrakvöld en tapaði). Hún splæsir ekki brosum svo það er sérstakur heiður að fá þau og hlær alls ekki að endurteknum bröndurum nema í einstaka tilfelli. Það á að halda nafnaveislu fyrir hana á laugardaginn. Opið hús 🙂 .