Aðlögun gengur vel

Við fengum fyrstu alvöru heimsóknina okkar í fyrrakvöld þegar Anne og Mads komu til okkar með tvo fylgigrísi. Fylgigrísirnir vöktu mikla lukku hjá báðum yngstu meðlimum fjölskyldunnar sem kættust mjög að sjá framan í aðra en foreldrana og var með ólíkindum stuð og fjör hér á köflum. Gamla settið naut þess auðvitað líka að fá selskab og að sannra Dana hætti komu þau auðvitað færandi hendi með desert. Anne kom með GM miðana sem hún keypti fyrir mig. Ég bauð henni að koma með mér ef ég fengi engan tónleikafélaga en þá voru þau að fara á föstudagstónleikana.

Í gær áttum  við alveg hreint ágætan dag, þrátt fyrir að allur kvenpeningurinn næði að brenna sig á brenninetlu og sumar oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Við fórum fyrst þrjár mæðgurnar í búðarferð og þaðan á minigolfvöllinn sem tilheyrir húsunum hér. Hann reyndist í hinni mestu órækt og eftir að báðar dæturnar höfðu brennt sig á brenninetlu á annarri braut þá hættum við við frekara golf og snerum heim. Þegar Skottan fékk sér síðdegisblund fórum við Strumpan í hjólreiðatúr sem endaði á ströndinni. Strumpan óð auðvitað langt út í sjó, þetta er afskaplega grunnt og þægilegt en móðirn var pempía og kærði sig ekkert um sullustand. Eftir heimkomu var ákveðið að fara í Marselisborg Skov, þar höfðum við heyrt af dádýrum á lausu. Sú heimsókn var vellukkuð í alla staði, öll fjölskyldan er nú heillaðri af dádýrum en nokkru sinni fyrr og ætlar að snúa aftur hið fyrsta og þá með nest, að minnsta kosti handa dýrunum.

Á heimleiðinni ákvað fullorðna fólkið að æfa sig að rata um Árósa og fór það svo að heimferðin tafðist um ríflega 20 mínútur. En það er aukaatriði, það er alltaf ljómandi að keyra nýjar slóðir. Við enduðum þessa góðu ferð í algjörri sælu á McDonald.

Í dag er enn og aftur sólskin og sumar. Við eldri mæðgur erum aftur búnar að leggja land undir hjól og könnuðum nýjar slóðir. Það varð til þess að ég fann hjólastíginn sem liggur niður ímiðbæ. Ég held að hann sé árennilegri en árans brekkan fyrir ofan Ris skóg svo það verður væntanlega ofan á að reyna hann fyrst. Sóley var alveg á því að hjóla niður í bæ en eftir smá spöl (kannski 1/6 af leiðinni) þá spurði hún hvort við værum ekki að verða komnar. Þá snerum við fljótlega við. Hjólauppeldið gengur líka þokkalega. Það er nokkurn veginn búið að innprenta í Strumpuna að hjóla lengst til hægri á hjólastígunum svo aðrir hraðari komist auðveldlega fram úr. Nú er bara að venja hana af því að sveigja og beygja. Henni finnst líka einkennilegt að þurfa að fara yfir götuna þegar maður snýr við og hjólar til baka. En þetta á væntanlega eftir að skila sér að lokum 🙂 .