Og hvað er þá betra að gera en að skella í eina bloggfærslu? Nú er botninum náð í leti og ómennsku, það gengur hvorki að græja jólin af neinu viti né að skrifa ritgerð af neinu viti. Að auki er tveggja daga frí framundan, við ætlum að fara í smá skrepp til Kaupmannahafnar, leggjum í hann með lest í bítið í fyrramálið og eyðum deginum á Strikinu og í Tívolí, mánudeginum væntanlega í dýragarðinum. Það á m.ö.o. að taka smá fjölskylduhygge á kostnað lærdóms og þrifa. Það hafa auðvitað komið smá jólatilþrif af og til, Strumpan spilaði á jólatónleikum á sunnudaginn var og það var auðvitað ljúft og hún spilaði eins og engill en fannst hálf spælandi að hafa bara foreldra og systur til að hlusta, auk þess sem hún hafði nú ekki náð að læra öll lögin sem voru spiluð og það fannst henni nokkuð glatað. Við gerðum heiðarlega tilraun til að labba í bæinn á eftir en Skottan var ekki í neinu stuði, svo það var snarhætt við. Við tókum Strumpuna í staðinn á smá jólarand í gær, fórum á jólamarkað og röltum í bænum áður en hún fór í tónlistarskólann og spilaði aftur, að þessu sinni einleik og einungis móðirin meðal áhorfenda. Á miðvikudaginn var líka jólastund í vistuninni, þar komum við öll og fengum eplaskífur og smákökur. Strumpan var mynduð í bak og fyrir með dýrunum enda var þetta síðasti dagurinn þarna.
Á fimmtudaginn fórum við í heimsókn í nýja skólann. Þar var vel tekið á móti okkur, bekkurinn afar ákafur að fá hana og hún leyst út með bekkjarmynd svo hún gæti farið að glöggva sig á nýju samnemendunum. Vistunin þarna er líka fín og ágætlega búin þó engin séu dýrin. Það er mikil áhersla á hreyfingu og meðal annars klifurveggur inni. Skólinn er gríðarlega vel settur, með eigin leikfimissali, hátíðarsal og sundlaug. Allar stofur með „smartboard“ og okkur var líka sýnd stofa sem er notuð þegar er verið að nota nýstárlegar kennsluaðferðir. Þar inni var lítið af húsgögnum og þau sem voru til staðar ekki hefðbundin. Á gólfinu var meðal annars motta með tölunum frá einum upp í hundrað til að hjálpa litlum grísum að læra þær. Strumpan byrjar strax eftir jól í nýja skólanum og er mjög spennt en saknar gamla gengisins líka.
Það eru líka breytingar í vændum hjá Skottunni, þó litlar séu. Það hafa verið tvíburasystkin með henni hjá dagmömmunni en nú eru þau að hætta svo það koma tvö ný börn inn í janúar. Þær verða bara tvær í næstu viku, hún og litla stýrið sem er með henni, svo það verður rólegt hjá þeim fram að jólum. Hún verður svo í fríi milli jóla og nýárs, svo hér verður mikið stuð.
Ég fór í leiðsagnarviðtal í gær, fékk stöðumat á litlu ritgerðina minni sem ég er komin langleiðina með. Var dauðkvíðin fyrirfram því mér fannst ég ekki hafa unnið hana nógu vel, sendi hana auk þess án þess að lesa hana almennilega yfir. Sem betur fer voru ekki stórir gallar og ég fékk góðar ábendingar hvernig ég gæti snurfusað hana svolítið. Ég afsakaði mig með því að það væri ansi langt síðan ég hefði skrifað svona verkefni síðast (reyndar hef ég aldrei unnið neitt sem er sambærilegt af neinu viti) en kennarinn hélt að þarna kæmi kennarabakgrunnurinn að góðum notum, miðað við að þetta var skipulega gert. Jamm, það er kannski ekki svo galinn bakgrunnur þó að það skorti á í öðrum fræðum.