Jólaball

Þá er búið að fara með Strumpuna á fyrsta alvöru jólaballið. Það vakti heilmikla lukku. Eina sem ég sá eftir var að druslast ekki með myndavél en ég er bara afskaplega löt við það. Framan af var hún róleg og reyndar fyrst og fremst með hugann við smákökurnar sem hún sá, en svo smá hresstist hún. Við dönsuðum kringum jólatré og hún gerði ekkert fyrstu tvö lögin (jafnvel þó það væru megahittararnir Adam átti syni sjö og Í skóginum stóð kofi einn) en þegar hún fékk að leiða Evu og Kára fór hún að dansa af kappi. Hreyfingarnar voða krúttlegar, sérstaklega í Göngum við í kringum.

Svo kom jólasveinn, sá hinn sami og við erum alltaf að hitta, sáum hann í bænum fyrir jólin og þá var hún með svolítinn fyrirvara á hann, en hún var öll að koma til í gær. Hann gaf henni til að mynda nammi og var þá up close and personal en hún kippti sér ekkert upp við það. Dró reyndar mörkin við að kyssa hann takk.

Í gærkvöld byrjaði ég á jólabókinni í ár, Sakleysingjarnir sem voru útaf eina bókalistanum sem ég las (mér sýndist smekkur minn og Pezkarlsins frekar sundur en saman). Mér finnst hún fara vel af stað. Það sem ég kann sérlega vel við þegar ég les Ólaf Jóhann er að hann er laus við alla háfleygni. Mér leiðist alltaf að lesa það sem er á óeðlilegu tungumáli, eða það á að minnsta kosti misvel við. Ég sé fyrir mér að þessi bók hefði hitt ömmu í hjartastað, enda verið að lýsa staðarháttum fyrir austan í byrjun bókarinnar. Ólafur Jóhann var líka í sérlegu uppáhaldi hjá ömmu (má jafnvel leiða að því líkum að hann hafi örlítið komið í staðinn fyrir Davíð Stefánsson 🙂