107118370313981088

Ég gleymdi óvart að blogga í gær. Þannig var mál með vexti að ég sat við til klukkan hálf tvö að fara yfir spóluverkefni í fjarkennslunni. Já já, það er jafn spennandi og það hljómar. Gott að það er búið og gert, nú eru það bara prófin og svo huggulegheitin.

Þessi vika með annasamasta móti. Það var Bónusmálið allt saman á mánudaginn, reyndar heimadagur á þriðjudaginn en í gær fór ég svo á fyrirlestur niður í MA um stöðu tungumálakennslu. Mest til að sýna lit. Ansi margir af gömlu kennurunum á fundinum. Magga, Gisela, Örn, Sverrir Páll, Tryggvi (sem ég hélt að væri fluttur suður, en er alltaf að sjá hann) og svo Jónas og Jón Már. Alltaf doldið skondið að vera innan um þetta gamla kennaralið sitt. Annað hvort er ég fallin í gleymskunnar dá hjá þeim flestum eða þeir ekki spenntir að heilsa. Nema Magga.

Í dag hófst fegurðaraðgerð númer 1 – klipping. Tímasetningin valin sérstaklega með tilliti til jólahlaðborðs á laugardag. Fegurðaraðgerð númer 2 er svo á morgun, þá verður plokkað og litað. Algjört Extreme makeover. Strumpan er alltaf í pössun hjá ömmu sinni. Sem betur fer má vart sjá hvor er lukkulegri með það.

Ég sá auglýsingu í Dagskránni að það eiga að vera jólasveinar á svölunum á laugardaginn. Spurning hvort maður verði ekki að kíkja á það svona upp á gamla tíma. Verst að þetta eru ekki KEA sveinar. Getur ekki verið jafn gott.