Ég er búin að lesa eitt og annað í sumar. Eins og oft áður hef ég náð mér í slatta af bókum á útlensku og lesið þær. Fátt eitt merkilegt þar. Hins vegar er ég búin að lesa þrjár athyglisverðar bækur. Fyrst kom Mummi færandi hendi til Svíþjóðar og gaf mér Strákinn í röndóttu náttfötunum. Sá í hendi sér að það væri eitthvað fyrir mig af því að það stóð eitthvað um að gráta yfir lestrinum aftan á bókakápunni. Hún hitti líka vel í mark. Afar athyglisverð bók en aldrei þessu vant grét ég ekkert.
Síðan fékk ég lánaða Áður en ég dey. Það reyndist grátbók mikil, svona af kalíberinu viskustykki við hendina. Mæli með henni fyrir þá sem elska að gráta yfir bókum. Sú síðasta í sorglega flokknum var Marley og ég. Hundabókin um óþægasta hund í heimi. Hún var meira svona hlegið og grátið bók því hún var mjög fyndin á köflum, byggð á sannri sögu (maður getur meira að segja séð Marley á You tube) og lýsingarnar hreint ótrúlegar. Í lokin var ég hins vegar farin að gráta mikið, enda hundurinn farinn að eiga í manni hvert bein (hmmm kannski ekki heppilegt?).
Núna er ég bara leið af því að ég hef ekkert svona gríðarlega spennandi að lesa, mig vantar svona bók sem maður tætir í sig. Ég er að þræla mér í gegnum Phillip Pullman, bara fyrir Mumma. Northern Lights er svo sem ágæt en hefur ekki hertekið mig og ég er búin að vera svona mánuð með þriðjung bókarinnar. Sá reyndar viðtal í gær við uppáhalds danska rithöfundinn minn á DR og er að spá í að draga upp það sem ég á eftir hana.