Það sem á dagana hefur drifið síðan síðast er að á laugardaginn lögðumst við í hættuför í gettóið Gellerup Park til að fara á Bazar Vest. Því miður voru nokkrir fordómar staðfestir í ferðinni, nokkrir jólasveinar sem voru frekar hálfvitalegir og andrúmsloftið frekar skrýtið. Markaðurinn var auðvitað eins og hið versta Kolaport, vöruúrvalið einstaklega furðulegt, nema hvað grænmetis- og ávaxtadeildin var ansi fín. Við drifum okkur í þekktara andrúmsloft og fórum í Bilku. Sú verslunarferð tók reyndar óratíma, þvílíkur ofurmarkaður sem það var. Keypti mér reiðhjólahjálm og get nú hjólað örugg um borgina. Þaðan rúntuðum við heim og skemmtum okkur við að rata sjálf.
Í gær ákváðum við að taka smá skoðunartúr um nágrennið. Röltum niður að smábátahöfn og svo upp að verðandi skólanum hennar Sóleyjar og þaðan heim. Þó að leiðin hennar í skólann sé drjúg þá er hún afskaplega einföld og ekki mikil umferð á leiðinni. Sáum nokkur vel-í-lögð hús á göngunni, það er ekkert smálið sem býr hér í kringum okkur. En umhverfið er afskaplega skemmtilegt og þetta var fínasta ferð þó veðrið hefði mátt vera betra.
Í gærkvöld fórum við í hjólaleiðangur fyrir Sóleyju. Fundum þetta fínasta hjól á skikkanlegu verði. Við mæðgur fórum svo í samfloti heim, Sóleyjan alsæl á „nýja“ hjólinu, enda er það vel útbúið með standara og alles, ég hins vegar á tveimur jafnfljótum og skokkaði hluta leiðarinnar, þó svo ég væri ömurlega klædd til skokks á vondum skóm og í regnstakk. Enda mátti vart á milli sjá hvort hann væri blautari ytra eða innra og hlauparinn frekar stirður við heimkomu eftir 50 mínútna ferð.
Við eigum svo von á gestum í kvöld, okkar sérlegu húsaskoðarar ætla að kíkja í mat. Þá reynir á Strumpuna að hlusta á dönskuna og hún fær loks að sjá framan í börn, þó þau séu reyndar yngri en hún, þá er það langþráð að fá smá samskipti við aðra en foreldrana.