Ýmis afrek unnin í dag

Ég ætla að draga lesendur á nafni númer 2 á kvennalistanum mínum góða og telja fyrst upp ýmislegt sem ég hef gert í dag. Það virðist kannski ekki vera mikið en er það samt sem áður. Fyrst ber að nefna að ég fór með flöskur í endurvinnsluna. Það var sérlega vel af sér vikið og ég fékk nægan pening til að splæsa Brynjuís á okkur mæðgur og systur. Í öðru lagi, og það sem er enn betur af sér vikið, ég fór í heyskap og sló bakgarðinn hjá okkur. Slíkar eru lendurnar sem tilheyra íbúðinni að ég næ ekki að heyja allt á einum og sama deginum en mikið er búið þegar bakgarðurinn er frá. Afgangurinn bíður líklega morguns.
Kvöldinu höfum við systur eytt í félagsskap Mr Darcy og Miss Elizabeth Bennet og við fylgdum þeim til enda. Næst bíður okkar Emma og verður hún sýnd við fyrsta tækifæri.
Enn fengum við okkur fisk frá góðu búðinni, að þessu sinni ýsu í sósu, geysilega góða. Svo það fékk lítið á okkur að finna grillangan berast um nágrennið.
Þá er það listinn. Númer 2 er Charlize Theron. Algjör skutla, sem ég hef dáðst að í mörg ár. Mig minnir að hún hafi verið á plakati sem fylgdi Tidens kvinder fyrir svo sem eins og tíu árum (með einhverjum huggulegum manni reyndar) og þessi mynd fór upp á vegg hjá mér. Mummi þykist hafa séð þetta fyrir, hann heldur að hann þekki smekk minn á konum 🙂 Ég lagði fyrir hann getraun í kvöld, sem þið fáið líka, því þannig er að elsta konan á listanum mínum er 52 ára. Hver haldið þið að það geti verið?