Mánaðarskipt færslusafn fyrir: október 2005

Blindur fær sýn

Ég fór í sjónmælingu á föstudag, í tilefni af opnun nýrrar gleraugnaverslunar og frírrar mælingar ef maður keypti gleraugu. Þar sem það hefur verið á todo listanum í nokkurn tíma ákvað ég að kíkja á þetta og sjónmælingin var meira hugsuð sem bónus. Nema hvað, kemur ekki í ljós að ég er á hraðri niðurleið og varla hægt að segja tölurnar upphátt (eða skrifa opinberlega þeas). Og sjónskekkja að auki. Stefnir í óefni. Nýjustu tölur segja mínus sjö og sjö og hálfur. Maður verður nú ekki öllu sjóndapurri en það!! Stefnan er að fá sér ný gleraugu í tilefni vaxandi sjóndepurðar en verandi með svona sérlega lélega sjón þarf að sérpanta glerin og verðið eftir því.

Annars hefur helgin verið góð. Hefðbundið ídól með tengdamömmu á föstudag, spilakvöld með stærstu fjölskyldu sem við þekkjum – Kötu og Jóa (dæturnar allar að mestu leyti sofandi) – á laugardag og svo fengum við Elísu og Sunnevu í mat í gær í dýrindis önd og tertu. Ekkert nema gott um það að segja.

Einhver dóni reyndi síðan að keyra mig niður í morgun. Svínaði vandlega út úr Skólastíg eins og það væri einhver hægri réttur þar. Aðeins snör viðbrögð mín forðuðu árekstri. Ég skalf í langan tíma á eftir. Ef þið þekkið dónabílstjórann á NN 260 megið þið skamma hann.

Enn einhver veikindi að hrjá Strumpu og fer að líða að því að þurfi að láta einhverja meiri sérfræðinga líta á hana. Vel á þriðju viku sem hún hefur haft hita og heldur meiri í kvöld en áður. Alltaf þegar ég held að það sé að lagast, þá klikkar það 🙁

Kvikmyndahátíð Hafdísar og Kristínar

Eftir langt hlé héldum við Kristín danska kvikmyndahátíð í gær (veitir ekki af að bæta sér upp að komast aldrei á neinar myndir fyrir sunnan). Horfðum á mynd sem hefur beðið lengi í hillunni – Brødre. Það er skemmst frá því að segja að myndin er afar góð, með fantafínum leik og skemmtilegri kvikmyndatöku, en boy oh boy, þvílíkt drama. Ég var bara úrvinda þegar myndinni lauk og við sátum langa stund við léttara hjal til að ná okkur út úr sjokkinu. Best að segja sem minnst samt, svona just in case að einhver lesanda minna ætti eftir að sjá hana. Full meðmæli af minni hálfu (velkomið að fá hana lánaða) – en verið í dramagírnum.

Fyrsta foreldraviðtalið

Jamm, það var sem sagt foreldraviðtal í leikskólanum hjá Strumpu í gær. Það kom betur út en maður þorði að vona. Eftir nokkrar klaganir um bit hér og þar, var ég viss um að það yrði þema fundarins „bitvargurinn Strumpa“ (ég hefði þá bara reynt að snúa mig út úr því og segja að móðursystir hennar hefði átt þetta til líka en væri líklega hætt því núna). En neinei. Þetta var allt á góðan veg, nema hvað hún hefur greinilega njálg í rassinum (ætli það sé ekki frá móðurinni komið?) því hún getur ómögulega slakað á (nei, bíddu, ég kann það svo vel) og er oft mjög snögg að ljúka sér af. Svo þykir hún sjálfstæð svo um munar. Amk ekkert sem ég kannast ekki við á mínu heimili.

Leikfimi í gær – vigtin reyndi að koma einhverjum skilaboðum á framfæri að leikfimi einu sinni í viku og svívirðilegt súkkulaði- og kökuát þess á milli væri ekki ásættanlegt. Árans. Ég þarf sennilega að fjölga ferðunum í tvær á viku. En tíminn var skemmtilegur. Enduðum upphitun á stórskemmtilegri marseringu.

Eldfimur dagur

Það var svolítið fróðlegur þessi baráttudagur hér í skólanum í gær. Bæði meðal nemenda og kennara. Meðal annars kom upp ágæt umræða hjá kennurum (sem sýnir hvað sumir geta verið naív) um jafnrétti í launum karl- og kvenkennara. Vissulega erum við með launatöflu sem á að ganga jafnt yfir lýðinn en síðan höfum við dæmi um aukastörf innan skólans sem voru betur borguð eftir að karlmaður tók við. Það er reyndar týpískt dæmi a la auglýsingarnar frá VR, sem sýna konur selja sig ódýrar en menn og fyrst og fremst upp á okkur kvenfólkið að klaga. En meira en að segja það að brjótast út úr því munstri.
Hins vegar voru umræður hjá nemendunum (þeim karlkyns) á sínu venjulega óþroskaða plani og ekki hjá því komist að maður velti fyrir sér hvort það sé ljós í myrkrinu þar.
Við mæðgur sóttum svo baráttufund í Sjallanum. Ég er einhvern veginn orðin enn kvenmeðvitaðri, eigandi dóttur, svo það var öndvegis frábært að draga hana með. Strumpan reyndar eins og ljós, klappaði af öllum kröftum þegar við átti.

Menningarpistillinn lofaði

Leikhúsferðin í gær var hin skemmtilegasta. Mikið hlegið og skemmtilegur leikur hjá þeim flestum þarna, að öðrum ólöstuðum stóðu tvö upp úr – hann Guðjón sem lék aðalhlutverkið og svo einhver stelpa sem ég kann engin deili á, lék þjónustustúlku. Vísa í Moggann á laugardaginn til frekari glöggvunar. Fullkomið brúðkaup verður seint talið mikið menningarstykki en mikið assgoti er gaman að fara í leikhús til að skemmta sér og skilja menningargleraugun sín eftir heima.
Mig vantar að vísu álit frá frænda litla sem var líka í leikhúsi í gær. Hann sá nefnilega Belgíska Kongó um daginn og fannst það ekkert skemmtilegt (þrátt fyrir að hafa hlegið heilmikið).

Æðislegir sjónvarpsdagar :)

Ég er meira og minna búin að glápa á sjónvarp öll kvöld núna. Bachelor kvöld hjá mér og Elísu á fimmtudag, Idol kvöld hjá mér og tengdamömmu á föstudag (þrír fyrr- og núverandi nemendur – meðal annars sá sem færði Páli Óskari blóm og sú sem ætlaði ekki að fara fyrr en henni væri gefinn séns á að halda áfram) og svo í gærkvöld æææðisleg Eurovísjón hátíð (sem ég vann því miður ekki miða á, þrátt fyrir heiðarlega tilraun). Þvílík unaðslög og ekkert smá gaman að sjá gömul klipp og fyndið hvað rifjast upp hjá manni. Best af öllu að syngja með og næst best að stynja yfir öllum sætu og krúttlegu gæjunum (hann Jakob minn er nú sætur þrátt fyrir að vera dvergvaxinn – hann er ekta svona dansk-sætur). Besta lagið náttúrulega það eina sem kom til greina en algjört svindl að setja ekki Ólsen bræðurna mína svona næst efst. Þeir eru amk betri heldur en leiðindagæsin hún Helena.
Annars hefst menningardagskrá vetrarins formlega í kvöld með fyrstu leikhúsferð þessa leikhúsárs. Gaman að því og frekari fréttir af ferðinni koma rjúkandi í fyrramálið.

Fyndin Strumpa

Litla skaðræðinu (sem tók ótal ofvirkniköst um helgina) fer óðum fram í húmornum. Aðal skemmtiatriðið þessa dagana er að bulla tákn. Hún er sem sagt að læra smá tákn með tali á leikskólanum og ef hún er í sérlega fyndnu skapi þegar hún er spurð hvernig hún segir eitthvað, þá bullar hún einhver tákn og er við það að tapa sér af gleði.
Svo átti hún gott atriði í gær – var að fara að horfa á Stóru stundina okkar og sá myndirnar á disknum og var að telja upp Sveppa og Selmu og svo framvegis. Nema hvað, hún segir svo eitthvað sem hljómar eins og eddu-ve og ég sperrti eyrun, þar sem þetta kemur reglulega sem óskalag og ég hef enn ekki áttað mig á beiðninni. Þannig að þegar aðal-valmyndin kom upp bað ég hana að sýna mér eddu-ve. Strumpan horfði á mig skilningsvana, sagði svo að ég talaði vitlaust og að hún skildi mig ekki. Þannig fór sú tilraun.
Hún er síðan loks flutt á „efri hæðina“, sem sagt farin að sofa í rúminu sínu, en var áður undir rúmi 🙂 Gengur ágætlega að komast niður af sjálfsdáðum, engin slys enn sem komið er. En heldur ekki heil nótt 🙁

Sunnanvindur

Fórum til Reykjavíkur seint og síðar meir á föstudag eftir kennaraþing – sem var aaafar leiðinlegt, amk á köflum, þökk sé ákveðnum skólameistara í hópnum (ekki þó mínum). Sóley ofurdugleg í sundi, kafar eins og mofo og mjög kát yfirhöfuð. Keyrðum í friði og ró suður þar sem unginn sofnaði eftir 45 mínútna akstur. Ekki gerst í manna minnum. Fórum til Óla bróður að kanna „gistiaðstöðu Óla og Eyglóar“ sem reyndist hin besta í hvívetna og ekki laust við að ég taki undir með bróður mínum að Neðra-Breiðholt er nokkuð miðsvæðis. Laugardagur fór í hefðbundnar verslunarferðir (erum einu svefnherbergisljósi ríkari og einni ágætri debetfærslu fátækari) og heimsóknir – áttum góða stund með Árnýju og co þar sem dömurnar undu sér vel. Hittum frk Sacher á Segafredo – gaman að koma þangað.

Aðal tíðindi kvöldsins þau að ég fór á Broadway með Óla bróður – ja, hvort sem annað í undarlegheitum, á The Miracle sem er hollenskt Queen cover band. Þeir voru alveg hreint ljómandi skemmtilegir. Það var dásamlega gaman að dansa og syngja með og það var eiginlega voða fyndið líka að standa alveg upp við sviðið án þess að vera að tapa sér í grúpíustælum eins og ýmsir (af báðum kynjum). Bassaleikarinn lenti meðal annars í því að ein sem var ólm í að ná athygli hans, kastaði ísmolum í hann, þangað til hann brosti til hennar *argh* hvað fólk er heimskt – og svo var hið hefðbundna íslenska lesbíuatriði tekið við hlið mér um stund. Úffúffúff. Mikið af heimsku fólki. Stórkostlega fyndið atriði í Love of my life þar sem voru bara söngvarinn og hljómborðsleikarinn á sviðinu og ég með lokuð augun að syngja með. Verð allt í einu vör við eitthvað fliss og þá standa hinir við hliðina á mér og eru að skrækja á söngvarann og teygja sig í hann og hann að deyja úr hlátri en svaraði svo fyrir sig með nipplufitli. Well, you had to be there. Ferlega gaman líka að fara svona líka bláedrú þó vissulega geti stundum verið auðveldara að hunsa heimskt fólk þegar maður er í sama ástandi og það.

Í gær fórum við í maraþonferð í Smáralind og úr henni komu tvær kaffihúsaferðir (eftir morgunmat dauðans á Gráa kettinum, umm) og sitt hvor græna peysan á okkur mægður úr Söru og að auki alveg krúsuleg mokkakápa – sem þarfnast eiginlega myndskýringar – á Strumpu. Stór dagur því ég hef ekki áður verslað í þessari ofurvinsælu búð. Fórum svo út að borða á TGI Friday í fyrsta sinn og átum alveg á okkur göt. Heli og frú kíktu síðan í Grýtubakkann í spjall. Keyrðum norður í dag – ekki alveg eins róleg ferð og skítaleiðindaveður á köflum. Eins og alltaf gott að koma heim í sína eigin sælu.

Kellingaklúbbur

Fékk upphringingu í síðustu viku þar sem mér var boðið að ganga í Ladies Circle – fyrir þá sem ekkert græða á þessum upplýsingum þá er það kvennaangi af Round Table. Ég var lukkuleg yfir því og fór í gærkvöld á fyrsta fundinn (en þeir eru einu sinni í mánuði). Þema fundarins var menning og eftir að sitja í sal félagsins og ræða menningu, fórum við í heimsókn í leikhúsið, þar sem Magnús Geir leikhússtjóri tók á móti okkur. Það er skemmst frá því að segja að það var afar skemmtileg stund, hann er svo lifandi og geislar af áhuga fyrir því sem hann er að gera og það smitar algjörlega út frá sér. Ef ég væri ekki búin að kaupa árskort í leikhúsið, þá hefði ég pottþétt verið á leiðinni að gera það núna. Hann sagði svo ágæta setningu sem líkist einni sem reglulega er sögð hér innanhús. Í hans útgáfu, hvað það væri gott að vinna í leikhúsi þegar það eru engir leikarar. Þið getið ímyndað ykkur útgáfu kennarans 😉
Svo var endað á Friðrik V. og þar var okkur færður kokteill – alveg óhemjugóður og frískandi. Mér leist bráðvel á þetta og hlakka til næsta fundar. Það er ágætt fyrir mann að víkka sjóndeildarhringinn og kynnast einhverjum sem er ekki kennari eða hjúkka (ok eða bókasafnsfræðingur og svo framvegis), þið vitið hvað ég meina.