Mánaðarskipt færslusafn fyrir: ágúst 2006

Forrest í fínu formi

Ég má til með að monta mig af hlaupaafrekum dagsins, þar sem ég náði nýjum hæðum – og lengdum reyndar. Hljóp – ath. hljóp – 7 kílómetra! Ég sé að þessir 10 væntanlegu verða bara ekkert mál. Var nefnilega svolítið nervös af því að ég var raddlaus, hélt kannski að það væri einhver slæmska almenn, en raddleysið háði mér sem sagt ekkert, nema síður sé. Nú er bara að vona að það sé ekki siestan sem ég tók í dag sem hafði þessi afgerandi áhrif. Næst verður hlaupið á laugardagsmorgun og rekst það á íþróttaæfingar dóttur minnar. Búin að útvega árvissan staðgengil í það – Adda amma sem sá um grísinn í Póllandsreisunni í fyrra þurfti einmitt líka að taka fyrstu íþróttaæfinguna þá.

Dagurinn bara að öllu leyti góður. Borðuðum á Greifanum, náðum þessum eina degi ársins þar sem Gunnlaugur Starri var ekki að vinna, en ég fékk reyndar símtal frá honum í staðinn. Eini gallinn so far er að það komu í raun of margir gestir í kaffi svo ég náði bara að borða litla sneið af kökunni minni sjálf, hins vegar er Mummi as I write, að ganga í málið og kemur að vörmu færandi hendi með armour ice cream af bestu sort.

Tómlegt eldhús

Í augnablikinu erum við tímabundið án eldhússborðs og stóla. Eins og glöggir lesendur muna uppfærðum við húsgögnin í stofunni og ákváðum að flytja agnarlitla borðstofuborðið inn í eldhús. Þurftum þar af leiðandi að losa okkur við gömlu eldhús-húsgögnin. Eins og ævinlega var það einhver af systkinum Mumma sem kom okkur til bjargar – að þessu sinni Siggi og Sigrún sem eru einmitt að fá nýju íbúðina í Hraunbænum afhenta í vikunni. Húsgögnin okkar fengu far suður í gær og afaborð er ekki alveg búið í uppfærslunni svo eldhúsið er tómt. Á meðan er borðað á eldhúsbekkjunum eða frammi í stofu.
Er í þessum töluðu orðum að fara að sækja Strumpu á leikskólann. Nefnilega búin að kaupa afmælisgjöf og ætla að leyfa fröken að fara með og setja pakkann í póst.

Hér er ég

Fyrst af öllu, afmælisbarn dagsins er Anna systir. Til hamingju með afmælið góða mín. Engin afmælisgjöf í pósti frekar en venjulega. Mér virðist vera fyrirmunað að geta keypt pakka með það í huga að hann eigi eftir að vera í pósti í nokkra daga. Sem sagt, hann kemur, seint koma sumir en koma þó.

Fréttir af heimilinu litlar. Nóg við að vera, er svona til skiptis í MA og VMA við einhverja vinnu til að koma mér í gírinn. Fjarkennslan mín í VMA leið svo mikið í fyrra fyrir mikla kennslu hjá mér að hún sat algjörlega á hakanum. Nú er búið að breyta námsefninu svo ég hafði enga undankomuleið. MA vinna síðustu viku fólst hins vegar í því að semja próf og halda próf! Það er engu logið að þjónustunni hafi farið fram síðan ég var í skólanum.

Menningarlífið stefnir í blóma. Búin að kaupa árskort í leikhúsið og fór í bíó í gær, á Lady in the Water. Doldið spes, eins og M. Night Shyalamalan er von og vísa (held að þetta sé rétt skrifað).

Hlaupin ganga vel og illa. Vel í skilningnum að ég er almennt að bæta tímann og stefnir svo sem í að markmiðinu verði náð en illa af því að ég á svoooo erfitt með að skokka allan tímann. Öllu heldur, ég hef ekki enn náð því að skokka allan hringinn og fer heldur aftur í því ef eitthvað er. Arrghh.

Markmið sumarsins

Markmiðin fyrir sumarin voru tvö. Annars vegar að fara í fjallgöngu – eftir að Vindheimajökli var náð, var þetta markmið útvíkkað í að taka einnig Súlur og Bryðjuskál (sem er í fjallinu ofan Munkaþverár) og það er skemmst frá því að segja að þessu góða markmiði var náð í dag, því sú góða ferð var farin í góðum félagsskap. Hanna og Ármann eru nokkurs konar „veterans“ í Bryðjuskál, þeirra 3. (?) skipti og ekki ónýtt að hafa svona góða leiðsögn. Veðurblíðan með eindæmum þó ekki hafi hún slegið Súlnablíðunni við.

Hitt markmiðið var að fara og skoða svæðið sem fer undir Hálslón. Því miður stefnir ekki í að það hafist. Ég hefði líka vilja komast barnlaus í þá ferð en það er ekki alveg hlaupið að því.

Brúðkaup gærdagsins hið besta. Brúðhjónin hrepptu besta veður sumarsins og það var allt fallegt, þau, athöfnin og veislan, sem og við veislugestirnir. Mjög skemmtilegt og við hjónin dönsuðum heilmikið – ekki svo oft sem það gerist.

Hlaup gærdagsins líka góð – vúhú. Ég sem hafði haft áhyggjur af því að Súluferðin myndi draga úr sperringnum. En nei, fór 6 kílómetra á  þremur korterum. Náði að hlaupa álíka lengi í trekk og skiptið þar á undan og hélt ég væri við dauðans dyr, þið skuluð ekki halda að þetta sé farið án þess að blása úr nös. Neinei. Ég er móð eins og, uhh, umm, ja, eins og laf – allir sem mæta mér eru örugglega skelkaðir að þeirra bíði fyrstuhjálparæfing. Setti líka markmið fyrir Akureyrarhlaupið. Það á að taka 10 kílómetrana á 1.15. Jamm.

Hetjusögur

Hefjast þá fyrst hetjusögur af hlaupum. Mælanlegur árangur hefur þegar náðst, hljóp í fjórða sinn í gær og þá sama hring og fyrsta daginn. Það er skemmst frá því að segja að ég hafði nánast allan hringinn af, skokkandi 🙂 Sennilega er þetta algjört einkamet, það er kosturinn við að hafa alltaf verið í voooondu formi, maður getur bara orðið skárri.

Hitt afrekið sem fer í grobbblogg dagsins er SÚLUGANGA! Jamm, við hjónin létum okkur ekki muna um að ganga á Súlur í dag í hvílíku blíðskaparveðri að það lá við að yrði snúið við vegna hita. En ekkert fékk á okkur, hvorki hælsæri né hitabylgja og nú hafa Súlur bæst á afrekalista ársins. Engir millitímar birtir.

Síðasta brúðkaup sumarsins á dagskrá á morgun. Fróðlegt að sjá hvernig það fer fram og hvernig ég verð til heilsunnar því ég verð jú að hlaupa í fyrramálið og kemur þá í ljós hvernig fjallgöngur og hlaup fara saman í nánu samhengi. Svona til fróðleiks þá eru það Arnar Friðriksson og Linda Aðalsteinsdóttir sem ganga í hnapphelduna.

Forrest Gump mætir á svæðið

Jæja. Það fór þá aldrei þannig að ég færi ekki að æfa hlaup. Eða þannig. Ég skráði mig amk í hlaupahóp á Bjargi og er búin að mæta tvisvar. Hélt í sakleysi mínu að þar sem þetta hét fyrir „byrjendur“ yrði byrjað rólega. Jújú. Í dag hlaupum við fjóra kílómetra. AAAArrrgghhh. Hvað er ég búin að koma mér út í? Eina uppskeran só far eru strengir dauðans – vægast sagt – ég þarf aðstoð við að setjast á klósett! Lét mig samt hafa það að mæta í morgun og hlaupa í takt við strengina. Afar fínt. Stay tuned for more news.

Fiskihátíðin mikla tekin með trompi. Fórum í súpu í gærkvöld í boði frænku Elísu. Ljúf súpa. Gengum um Dalvík og upplifðum þessa mögnuðu stemmingu. Hvað er þetta fínt að gera svona? Síðan aftur í dag og það var ljómandi gott líka. Hitti slæðing af fólki. Aðallega tengt Unni, Línu frænku hennar og Höllu vinkonu hennar og þar sem þær voru að spjalla talaði ég aðeins lítillega við hvora. Hátíðarskap dótturinnar líka á niðurleið. Hún fékk að vísu frostpinna, sá MattaMatt og Brúðubílinn (sennilega með sama sjów og fyrir 20 árum) og fékk síðan gjafir að lokum og hefði átt að vera í í glimrandi gír. En fiskisúpukvöldið tók sinn toll.

Sá ljómandi þátt á SVT1, Minnernas television. Gleði mín náði nýjum hæðum þegar þeir sýndu undanúrslitin úr Melodifestivalen 84 og bræðurnir sætu – Rikard, Per og Louie stigu á svið í gyldna skor og sungu svo fallega um at alla titar på meg. Hver viknar ekki við tilhugsunina? Ég væri til í að dansa við þetta lag (á sænsku) og kunna allan textann!

Kaffi Lísa

Fórum í smá spontanious kaffihúsaferð í gær, til að gera nú eitthvað spes svona síðasta frídaginn. Það er sem sagt kaffihús á Hjalteyri – of all places – sem ég hef alltaf ætlað á og við létum loksins verða af. Það er skemmst frá að segja að þetta er ljómandi heimilislegur staður, með þessu líka dásamlega, hlýlega en um leið kuldalega útsýni og kaffihúsastýru sem setur ansi skemmtilegan svip. Sú er dönsk og talar alveg stórkostlega mikið. Forvitin um hvaðan gestirnir koma og ekkert feimin við að segja af sjálfri sér. Ég forvitnaðist nú sjálf hvaðan hún væri, mér fannst reyndar framan af ekki heyrast sérstaklega mikill hreimur að hún væri útlensk en svo tók ég aðeins eftir honum og spurði þess vegna. Held bara að ég hafi aldrei heyrt Dana tala jafn fína íslensku. Mæli með ferð þangað. Gulrótartertan sérlega ljúffeng.

Síðan er það bara Fiskidagurinn mikli á laugardag. Maður missir ekki af honum. Búin að taka þátt frá upphafi eða þar um bil að minnsta kosti.

Örpistill

Ótrúlegir þessir dagar. Alveg hreint hægt að blogga helling en það er bara ekki í myndinni að setjast niður.

Áttum góða Verslunarmannahelgi – þetta er hægt ef maður passar sig á að koma ekki nálægt miðbænum (grrr). Hvalaskoðun á laugardag sem var góð sem slík. Þær eru sjaldnast gríðarlega fjörugar. Búin loksins – eftir að gæla við það í rúmt ár held ég, að kaupa borðstofusett og skáp og losa okkur við gamla stuffið, þó ekki góða borðið hans afa, nei nei. Það er bara í uppfærslu til að verða fínna og verður svo flutt inn í eldhús. Nú bíður bara að bjóða helling af fólki í mat. Það er gaman.

Fríinu hans Mumma lýkur á morgun. Mitt bara rétt að byrja enn þá 🙂 Fyrir utan ýmis „smáverk“ eins og að upphugsa alla fjarkennslu VMA frá grunni og koma inn í WebCT og endurskoða kennsluheftið sem ég bjó til. Mér fellur sem sagt eitthvað til næsta mánuðinn.

Jey gaman.

Um síðustu færslu

Jæja, með aðstoð frá bróður og Mumma tókst að koma mynd inn. Smá útskýringar þörf. Við sátum aftur í og biðum eftir að Kenneth og Árni lykju sér af í myndatöku og Mummi setti af stað margmyndatöku af okkur – svo þegar við skoðuðum afraksturinn kom í ljós að ég var fallega brosandi á öllum fimmtán myndunum á meðan Mummi hafði farið í sína eigin prívat grettukeppni og náð jafn mörgum afbrigðum og myndirnar voru margar. Hann náði síðan að sannfæra mig um aðra syrpu, þar sem hann væri brosandi sætur en ég í grettukeppni. Við skoðun kom í ljós að ég náði svona þremur afbrigðum af svipum á syrpunni. Síðan tókum við eina syrpu af okkur báðum í grettukeppni og þessi mynd hér að neðan er úr því 😉 Smellið á hana til að njóta hennar frekar. Að lokum tókum við Kristín svo grettukeppnasyrpu og þar voru meiri jafningjar á ferð. En sem sagt – ég skoðaði svona sextíu myndir af fíflum og var við dauðans dyr af hláturkrampa.