Mánaðarskipt færslusafn fyrir: júlí 2011

Lífið við ströndina

Vorum að koma heim af ströndinni eftir sýnitúr með tengdó. Sennilega heitasti dagurinn okkar hingað til núna, einar 27° eða svo. Það blés reyndar á okkur en var frekar frískandi. Mummi óféti lhrekkti okkur tengdamömmu, við stóðum úti í sjó og snérum að ströndinni, þá kom stóreflis alda sem hann sá vel og hún skall á okkur þannig að við rennblotnuðum. Hann líka, en honum fannst það þess virði því okkur brá svo mikið. Við stórmæðgur fórum líka í gær og vorum þá lengur, Strumpan nýtur sín til fullst og ekki spillir fyrir þegar eru hundar á hlaupum eins og í gær.Sunna hefur ekki farið aftur fyrr en í dag, hún var aðeins meira lík sjálfri sér núna en fyrsta daginn því það sullaðist framan í hana í dag og þá fékk hún nóg.

Komst þó að því í dag að mig vantar enn upp á danskheden, var að spjalla við nágrannakonu mína sem við hittum á leið í Kiwi og hún benti mér á að kaupa frekar ís í Aldi en í Kiwi, það væri hagstæðara. Hingað til hef ég látið nægja í hagsýninni að kaupa á tilboði en ég sé að ég þarf að herða mig. Hins vegar er einn galli á búðarferðum, hvað þá þegar maður er alltaf í nýrri og nýrri búð. Skipulagið danska er ekki alltaf auðskilið og stundum ráfar maður um búðina í leit að einhverju og skilur engan veginn hvernig er raðað.

Annars sit ég akkúrat núna og hlusta á Sigga Hlö. Maður er ekkert að hætta góðum siðum í útlandinu 🙂

 

Aðlögun gengur vel

Við fengum fyrstu alvöru heimsóknina okkar í fyrrakvöld þegar Anne og Mads komu til okkar með tvo fylgigrísi. Fylgigrísirnir vöktu mikla lukku hjá báðum yngstu meðlimum fjölskyldunnar sem kættust mjög að sjá framan í aðra en foreldrana og var með ólíkindum stuð og fjör hér á köflum. Gamla settið naut þess auðvitað líka að fá selskab og að sannra Dana hætti komu þau auðvitað færandi hendi með desert. Anne kom með GM miðana sem hún keypti fyrir mig. Ég bauð henni að koma með mér ef ég fengi engan tónleikafélaga en þá voru þau að fara á föstudagstónleikana.

Í gær áttum  við alveg hreint ágætan dag, þrátt fyrir að allur kvenpeningurinn næði að brenna sig á brenninetlu og sumar oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Við fórum fyrst þrjár mæðgurnar í búðarferð og þaðan á minigolfvöllinn sem tilheyrir húsunum hér. Hann reyndist í hinni mestu órækt og eftir að báðar dæturnar höfðu brennt sig á brenninetlu á annarri braut þá hættum við við frekara golf og snerum heim. Þegar Skottan fékk sér síðdegisblund fórum við Strumpan í hjólreiðatúr sem endaði á ströndinni. Strumpan óð auðvitað langt út í sjó, þetta er afskaplega grunnt og þægilegt en móðirn var pempía og kærði sig ekkert um sullustand. Eftir heimkomu var ákveðið að fara í Marselisborg Skov, þar höfðum við heyrt af dádýrum á lausu. Sú heimsókn var vellukkuð í alla staði, öll fjölskyldan er nú heillaðri af dádýrum en nokkru sinni fyrr og ætlar að snúa aftur hið fyrsta og þá með nest, að minnsta kosti handa dýrunum.

Á heimleiðinni ákvað fullorðna fólkið að æfa sig að rata um Árósa og fór það svo að heimferðin tafðist um ríflega 20 mínútur. En það er aukaatriði, það er alltaf ljómandi að keyra nýjar slóðir. Við enduðum þessa góðu ferð í algjörri sælu á McDonald.

Í dag er enn og aftur sólskin og sumar. Við eldri mæðgur erum aftur búnar að leggja land undir hjól og könnuðum nýjar slóðir. Það varð til þess að ég fann hjólastíginn sem liggur niður ímiðbæ. Ég held að hann sé árennilegri en árans brekkan fyrir ofan Ris skóg svo það verður væntanlega ofan á að reyna hann fyrst. Sóley var alveg á því að hjóla niður í bæ en eftir smá spöl (kannski 1/6 af leiðinni) þá spurði hún hvort við værum ekki að verða komnar. Þá snerum við fljótlega við. Hjólauppeldið gengur líka þokkalega. Það er nokkurn veginn búið að innprenta í Strumpuna að hjóla lengst til hægri á hjólastígunum svo aðrir hraðari komist auðveldlega fram úr. Nú er bara að venja hana af því að sveigja og beygja. Henni finnst líka einkennilegt að þurfa að fara yfir götuna þegar maður snýr við og hjólar til baka. En þetta á væntanlega eftir að skila sér að lokum 🙂 .

Lítið eitt af letilífi

Það sem á dagana hefur drifið síðan síðast er að á laugardaginn lögðumst við í hættuför í gettóið Gellerup Park til að fara á Bazar Vest. Því miður voru nokkrir fordómar staðfestir í ferðinni, nokkrir jólasveinar sem voru frekar hálfvitalegir og andrúmsloftið frekar skrýtið. Markaðurinn var auðvitað eins og hið versta Kolaport, vöruúrvalið einstaklega furðulegt, nema hvað grænmetis- og ávaxtadeildin var ansi fín. Við drifum okkur í þekktara andrúmsloft og fórum í Bilku. Sú verslunarferð tók reyndar óratíma, þvílíkur ofurmarkaður sem það var. Keypti mér reiðhjólahjálm og get nú hjólað örugg um borgina. Þaðan rúntuðum við heim og skemmtum okkur við að rata sjálf.

Í gær ákváðum við að taka smá skoðunartúr um nágrennið. Röltum niður að smábátahöfn og svo upp að verðandi skólanum hennar Sóleyjar og þaðan heim. Þó að leiðin hennar í skólann sé drjúg þá er hún afskaplega einföld og ekki mikil umferð á leiðinni. Sáum nokkur vel-í-lögð hús á göngunni, það er ekkert smálið sem býr hér í kringum okkur. En umhverfið er afskaplega skemmtilegt og þetta var fínasta ferð þó veðrið hefði mátt vera betra.

Í gærkvöld fórum við í hjólaleiðangur fyrir Sóleyju. Fundum þetta fínasta hjól á skikkanlegu verði. Við mæðgur fórum svo í samfloti heim, Sóleyjan alsæl á „nýja“ hjólinu, enda er það vel útbúið með standara og alles, ég hins vegar á tveimur jafnfljótum og skokkaði hluta leiðarinnar, þó svo ég væri ömurlega klædd til skokks á vondum skóm og í regnstakk. Enda mátti vart á milli sjá hvort hann væri blautari ytra eða innra og hlauparinn frekar stirður við heimkomu eftir 50 mínútna ferð.

Við eigum svo von á gestum í kvöld, okkar sérlegu húsaskoðarar ætla að kíkja í mat. Þá reynir á Strumpuna að hlusta á dönskuna og hún fær loks að sjá framan í börn, þó þau séu reyndar yngri en hún, þá er það langþráð að fá smá samskipti við aðra en foreldrana.

Kennitölubisness

Í gær fórum við í mikla reisu niður í miðbæ. Leituðum lengi að réttu húsi sem átti að hýsa international citizens service bara til að komast að því að það væri ekki verið að skrá fólk sökum sumarleyfa. Okkur var bent á ráðhúsið í staðinn og þangað fórum við og gekk allt hnökralaust þar. Hins vegar hefðum við eflaust getað farið hvaða dag vikunnar sem var þangað, svo þessi síða sem ég var að lesa mér til á innihélt bara einhverja dellu. Við röltum síðan um miðbæinn, fórum á kaffihús og fengum okkur líka ís. Miðbærinn er ósköp indæll. Þaðan fórum við í Elgiganten í Tilst og splæstum í kaffivél og já, ég er komin með síma í gagnið 🙂 Danska númerið mitt er 1) aldurinn á Kittý 2) árið sem Mummi fæddist 3) árið sem Kristín fæddist 4) aldurinn á Kristínu ….

Það var þokkalegt veður í gær og enn betra í fyrradag, þá tókum við meira að segja garðslönguna fram og sprautuðum yfir dæturnar. Sú stutta var alveg sátt og vildi alltaf meira. Hin þjáist til skiptis af hita- og kuldaköstum, erfitt að hitta alveg á rétt hitastig. Í dag er hins vegar rigning og við erum algjörir innipúkar, ætlum þó að gera okkur glaðan dag og fá okkur gott með kaffinu í tilefni afmæla Kristínar og Hönnu.

Það er gaman að keyra um og skoða og reyna að ná áttum. Í gær keyrðum við til að mynda fram hjá ghettóinu, Gellerup Park og í leiðinni fram hjá markaði sem margir hafa mælt með að fara á. Svo finnst okkur endalaust gaman í matvörubúðum en Strumpan hefur engan skilning á þeirri ástríðu.

Enn nær því að verða Dani

Ég keypti mér notað Hagkaupshjól í gær. Og bloggaði um það. En bloggfærslan týndist. Súrt. Anyways, það er bleikt og er ágætt sem slíkt, virðist heldur skárra en Hagkaupshjólið mitt heima. Það var skondið að fara að skoða það, seljandinn býr nefnilega í „gamla“ hverfinu okkar. Við gátum sem sagt séð hverfið sem við hefðum átt að búa í og Sóley sá skólann sem hún fer í til að byrja með. Ég hjólaði svo heim, alla 11 kílómetrana, hjálmlaus að hætti Dana. Í indælu kvöldveðri. Þetta var ansi langt og því miður ekki bara sléttan ein. Ég sé að það verður púl að hjóla í háskólann, þangað eru 8 kílómetrar og ekkert sérlega hagstæð brekkuhlutföll á leiðinni þangað, heldur skárri til baka. Við erum á útkíkki eftir fleiri hjólum handa öðrum fjölskyldumeðlimum. Förum líklega á morgun að skoða ömmuhjól handa Mumma.

Annars bar það hæst að ég fór í Storcenter Nord án þess að líta inn í H&M og án þess að kaupa neitt nema frelsiskort (fyrir síma sem ég finn ekki / get ekki hlaðið nema að kaupa nýtt hleðslutæki). Það er þokkalegasta verslunarmiðstöð, maður getur þó ekki lagt algjört mat á það fyrr en maður hefur skoðað H&M. Síðan vakti það mikla lukku hjá sumum í fjölskyldunni að versla í ísbílnum, við náðum að birgja okkur rækilega upp og keyptum fimm sortir af íspinnum, líklega eina 32 íspinna í allt svo það verður ekki skortur í bráð.

Í dag átti svo að skella í pönnukökur en eitt af því sem fór ekki með á milli landa var pönnukökuspaðinn. Við fórum því í búðarleiðangur en án árangurs. Þær bíða því betri tíma og stærri búðarferðar.

Byrjunarörðugleikar

Í dag ætluðum við að gerast Danir og sækja um kennitölur en komumst að því að það er bara opið á skrifstofunni á fimmtudögum og föstudögum svo það þarf að bíða enn um sinn. Við eigum líka eftir að græja símamál (og sumir gleymdu líka hleðslutækinu sínu á Íslandi eins og áður hefur komið fram) en okkur tekst líklega að gera svolítinn höfuðverk úr því. Ákváðum að fara í búðarleiðangur í dag. Fórum í Føtex en gleymdum að taka klinkið okkar með og áttum því ekki pening til að taka kerru. Þurftum að finna hraðbanka og með aðstoð frú GPS tókst það. Hraðbankinn var hjá annarri stórverslun en við föttuðum ekki að fara í hana og keyrðum aftur í Føtex. Vorum lengi lengi lengi í búðinni. Vissum ekki hvort kortin okkar væru gild og keyptum því frekar lítið en þurftum mikið að spá og spekúlera. En nú er að minnsta kosti komið hvítvín og appelsínujógúrt í hús og þá er í raun það nauðsynlegasta komið. Mummi fann líka limpu, sér og Strumpu til mikillar gleði. Dætrunum hefur svo verið sinnt lítillega. Það eru margir smá leikvellir hér í kring, einn er með mikilli þrautabraut sem Sóley fékk að fara á. Sunnu nægir róla og sandur til að vera glöð. Við Sóley tókum líka smá bocciakeppni. Þetta finnst henni samt frekar lítil dagskrá. Hún hefur séð sirkusauglýsingar og vill gjarnan komast á hann en nefndin hefur ekki komist að niðurstöðu. Svo er beðið í ofvæni eftir Tivoli Friheden. Eins og hún spurði í dag – til hvers vorum við eiginlega að flytja? Annars er bara gripið í smá upppökkun, við sjáum að við höfum tekið allt of mikið með okkur því hér er allt til alls. Stelpurnar gleðjast yfir gjöfum náttúrunnar, hér eru jarðarberjaplöntur og rifsberjarunnar innan seilingar, auk kirsuberjatrjánna en berin mega bíða sér örlítið til batnaðar. Við fengum okkur síðdegiskaffið úti í garði en það gjólaði reyndar full mikið og í daga hafa skipst á skin og skúrir. Ekkert frábært veður framundan í kortunum en alveg viðunandi samt.

Danmerkurpósturinn

Það er íhugunarefni að fara að blogga um lífið í fyrirheitna landinu. Nú er liðinn tæpur, sólarhringur frá því að ég steig fæti á danska jörð. Express var að vanda mjög express, en hvað er einn og hálfur tími í seinkun á milli vina… svona á þessum síðustu og verstu. Það kom sér eiginlega vel þar sem undirrituð var sjálf sein fyrir og stressuð svo um munaði og fattaði til að mynda á flugvellinum að hún hefði gleymt pústinu hennar Sunnu og fékk riddaraliðið til að sækja það. Mundi stuttu síðar að hún hefði gleymt hleðslutækinu fyrir símann en kunni ekki við að ræsa riddaraliðið í það – er þetta ekki gott tilefni til að fá sér IPhone? Við eignuðumst strax danska vini á Akureyrarflugvelli og Sóley byrjaði strax að blaka dönskueyrunum. Ungur Dani fékk matarást á Sunnu þegar hún bauð upp á cheerios og rúsínur. Baldvin nágranni tíndi danskt klink úr kassanum sínum og gaf Sóleyju. Við áttum reyndar ótrúlega þægilega flugferð þar sem Skottan sýndi sínar bestu hliðar. Hún geystist reyndar um flugvélina á smá tímabili en það er lítill fórnarkostnaður. Við lentum um hálf tólf og fyrir utan smá heilabilun í undirritaðri (sem gleymdi flíspeysu Skottunnar í vélinni og þurfti að snúa við til að sækja hana) þá gekk allt ljúflega og eiginmaðurinn beið eins og hver önnur hetja með hvíta hestinn Prius skammt undan. Við tók þriggja tíma akstur til Egå, þar sem ferðalangarnir misstu smátt og smátt meðvitund, fyrst fór Skottan, þá malandi Strumpan og svo var farið að síga á seinni hlutann hjá frúnni þegar leið að lokum sem átti sinn þátt í því að við brunuðum fram hjá réttu útleiðinni af hraðbrautinni. Komumst að lokum á leiðarenda og drifum okkur inn og í bæl. Hraðskoðun á húsinu vakti lukku en nánari skoðun beið næsta dags. Allir sváfu vel á nýjum stað og síðan voru nýju heimkynnin rannsökuð. Einu sinni hafði hugsunin verið að trappa sig aðeins niður í húsnæði en svo kom þetta hús til okkar og það er óhætt að segja að það sé frekar verið að bæta við sig. Húsið virkar risastórt og er afskaplega vistlegt og mjög danskt, sem er auðvitað algjör bónus. Svefnherbergin eru þrjú en sennilega munu systur deila herbergi því það er risastórt. Hitt verður svo nýtt undir tölvu og lærdóm, auk gesta 🙂 . Hér fylgir allt til alls, bókasafn heimilisins hefur nú þegar fengið sess í hjarta mér. Það eru bækur fyrir stelpurnar líka. Kötturinn Mille er ljúf en ekki hrifin af atganginum í Sunnu. Garðurinn er frekar lítill á okkar mælikvarða en afar gróðursæll, við erum til að mynda með þetta fína eplatré í garðinum og uppskeran lítur vel út. Við urðum okkur svo út um lágmarks vistir, héldum í heiðri sunnudagslokanir búða og fengum svo eigendurna í heimsókn sem sögðu okkur frá því helsta með húsið og við fengum líka lista með hjálplegum nágrönnum sem við megum leita til ef eitthvað er. Tókum svo gönguferð um hverfið og það er ótrúlega sjarmerandi. Göngustígar um allt, mikið af leiksvæðum, stutt í búðina (með sunnudagsopnun fyrir Íslendinga sem geta ekki hugsað um máltíðir til tveggja daga) og allt mjög hlýlegt. Síðan löbbuðum við á ströndina og systurnar skemmtu sér við að sulla í sjónum, þrátt fyrir að það væri aðeins um 20° hiti og engin sól. Eftir þetta höfum við tekið því rólega og fengum okkur sunnudagssteik á M. Sóley var ekki lengi að sjá að það hékk miði á ísskápnum sem fjallaði um hópferð nágrannanna í Djurs Sommerland og stefnir auðvitað í að við mætum þangað. Sóleyju finnst þó dagskráin hafi verið frekar þunn í dag og á von á miklu aksjóni daglega. Það verður að koma í ljós hvernig það gengur. Á morgun bíða okkar kennitöluumsóknir og að reyna að koma skipulagi á okkar dót hér innan um hitt. Það verður svolítið púsl. En eftir daginn í dag er bara tóm gleði. Eina sorgin er að ég er ekki enn búin að kaupa hvítvín. Alvarleg yfirsjón það náttúrulega.