Ammæli
Jæja, enn einn helvítis afmælisdagurinn. Núna er maður orðinn 27 ára sem er náttúrlega alveg djöfulegt.
Einu sinni fannst mér gaman að eiga afmæli og fannst bara fínt að eldast um eitt ár í viðbót. Það breyttist fyrir tveimur árum. – Það er alveg passlegt að vera 25. Þá er maður augljóslega ekki neinn smágríslingur lengur – en heldur ekki miðaldra kótilettukarl. Allt umfram 25 er hins vegar fullkominn óþarfi og því álíka tilgangslaust að fagna því og gráum hárum.
Annars var ég í þessum skrifuðum orðum að fá sent fréttabréf „Véfréttarinnar“ – sem Stefán Hrafn Hagalín ritstýrir. (Ekki spyrja mig hvers vegna í ósköpunum ég er á þeim útsendingarlista…) Fréttabréf þetta inniheldur að mestu útdrætti úr nýjustu greinum vefritsins, en í lokamálsgreininni bætir Stefán Hrafn við frá eigin brjósti:
ES: Smávegis sjálfhverfa í lokin. Ég uppgötvaði á http://www.pressan.is í morgun að ég á afmæli sama dag og Geir Haarde, 8. apríl. Mér finnst nú heldur slappt hjá ísgeiri Friðgeirssyni Pressuritstjóra að gleyma minnast á mig… Það er geymt en ekki gleymt. 😉
Ekki dettur mér í hug að svekkja mig á því að ísgeir sleppi því að upplýsa alþjóð um afmælið mitt. Hitt þykir mér merkilegra að nafni minn Hagalín sjái ástæðu til að hreykja sér af því að eiga afmæli sama dag og Geir Haarde, en geta þess í engu að Izzy Stradin – gítarleikari Guns´n´Roses sé fertugur í dag. Nú er G. Haarde bara venjulegt möppudýr, en Izzy einhver mesta rokkhetja síðari tíma. – Hvílíkt gildismat!
* * *
Á enska boltanum eru leikar heldur betur farnir að æsast. Luton er komið í efsta sætið í 3.deildinni í stað Plymouth sem hefur trónað á toppnum frá því í lok október. Bæði liðin eru með 93 stig, en Luton á tvo leiki eftir og Plymouth þrjá.
Hvers vegna held ég með Luton Town? Tja, þetta er í raun arfleið frá níunda áratugnum, en þá var Luton spútniklið í efstu deild og rómað fyrir að leika skemmtilegan bolta. Hver man ekki eftir mönnum eins og Brian Stein, Mick Harford og Paul Walsh?
Ég valdi Luton sem mitt uppáhaldslið fyrir lokaumferðina vorið 1983, þegar Luton þurfti að sigra Manchester City á útivelli til að halda sér uppi en senda andstæðingana niður um deild. Fimm mínútum fyrir leikslok skoraið Raddy Antic, Júgóslavinn snjalli sem síðar hefur þjálfað með góðum árangri á Spáni, sigurmarkið – 0:1. Eftir slíka dramatík var ekki aftur snúið.
Þessa tæpu tvo áratugi mína sem Luton-manns hafa skipst á skin og skúrir. Hápunkturinn var vitaskuld sigurinn í deildarbikarnum 1988, þegar Arsenal var lagt af velli í úrslitaleiknum 3:2. Þá var skemmtilegt að sjá Luton spila á gervigrasinu í Laugardal eitthvert vorið.
Fyrir tveimur árum varð ég loks svo lánsamur að komast á leik með Luton á Kenilworth Road. Þá fyrst skildi ég hvernig pílagrímum hlýtur að líða í Mekka.
Jamm.