Hann er kominn aftur…

Gormdýrið hefur snúið aftur eftir 46 ára hvíld. Ræsið prentvélarnar!

Áður en lengra er haldið, vil ég taka fram að ég er enginn aðdáandi gormdýrsins. Fígúran er að sönnu skemmtileg, en það hefur alltaf böggað mig að hafa furðuskepnu með ofurkrafta í myndasagnaheimi þar sem enginn annar býr yfir slíku. Gormurinn er deus ex machina.

En hann er sem sagt snúinn aftur í 55. Svals og Valsbókinni: Reiði Gormsins (d. Spirillens vrede, f. La colere de Marsupilami).

Franquin skapaði Gorm eins og raunar velflestar persónur Svals & Vals-heimsins aðrar en titilpersónurnar og íkornan Pésa. Vænst þótti honum um gormdýrið sem lék oftast nær stórt hlutverk í sögunum og ein bókin, Gormahreiðrið, fjallar nær einvörðungu um það.

Þegar Franquin hætti ritun S&V-bókanna vildi hann ekki sleppa þessu eftirlætissköpunarverki sínu og hóf ritun sjálfstæðra sagna um Gorm og fjölskyldu hans í frumskógum Palómbíu. Eftirmaður hans, Fournier, skældi það þó út að gormdýrið fengi að vera með í fyrstu S&V-bók sinni, Gullgerðarmanninum, til að venja lesendur við umskiptin. Franquin féllst á það, gegn því að fá sjálfur að teikna fígúruna. Síðan eru liðin 47 ár.

Fyrir nokkrum misserum eignaðist Dupuis-fyrirtækið, útgefandi myndasögublaðsins Svals, á ný útgáfuréttinn á sögunum um Gorm. Þar með opnaðist í fyrsta sinn í langan tíma möguleiki á endurkomu dýrsins í S&V-sagnaheiminn. Hún var boðuð í síðasta myndarammanum í næstsíðustu bók, Vikapilt á vígaslóð, sem útgáfan Froskur sendi frá sér á íslensku fyrir síðustu jól. Þar fengu Svalur og Valur í hendur ljósmynd sem sýndi þá sjálfa á ferðalagi í frumskóginum með hnuggið gormdýr lokað inni í búri…

Nýja bókin er sú fimmta frá Yoann & Vehlmann. Þeir eru ástríðufullir S&V-aðdáendur og þekkja söguna út og inn. Þeir hafa kynnt til sögunnar nýjar aukapersónur, en sækja þó mest í sagnaarfinn: Zorglúbb, Don Cortizone… og núna síðast fúlmennið Samma frænda.

Sammi frændi er með betri illmennum bókmenntasögunnar og stórkostlega vanmetinn í S&V-heiminum. Langt er síðan orðrómurinn fór af stað um að verið sé að vinna að bók sem fjallar um Samma og hvernig hann breyttist úr iðrandi syndara í lok Baráttunnar um arfinn í forherta fantinn í Niður með einræðisherrann! Það verður mögnuð saga.

Ekki er gert ráð fyrir að gormdýrið verði fastagestur í bókaflokknum og þeir Yoann & Vehlmann hafa ekki fengið grænt ljós á að nota það nema í þetta eina skipti, hvað sem síðar kann að verða. Sagan ber þess því nokkuð merki að þeir hafi ákveðið að nýta það til hins ítrasta.

Bókin byrjar gríðarlega vel. Höfundarnir koma með trúverðuga skýringu á því hvers vegna gormdýrið hvarf úr sögunni án þess að nokkur minntist á það aftur. Sú flétta inniheldur Samma frænda og Zor-geislana. Eftir fyrstu 12-13 síðurnar var ég kominn á þá skoðun að þetta yrði ein af bestu bókum sagnaflokksins. Svo birtist dýrið.

Eftir að gormdýrið kemur almennilega til skjalana breytist sagan verulega. Yoann & Vehlmann njóta þess að teikna skepnuna og gera svo sem vel, en plottið verður ekkert sérstaklega djúpt. Þetta eru höfundar sem kunna best við sig þegar slagsmál eða eltingaleikur eru í gangi og teygir sig yfir margar blaðsíður. Sammi frændi er góður. Mjög góður. Og með alskegg. – Hliðarflétta með að Valur sé vinnuþræll og hafi tapað ævintýragleðinni með því að hanga alltaf í tölvunni að senda pósta nær aldrei sérstöku flugi. Cliffhanger-inn í lokin er sömuleiðis slappur.

Heildareinkunn? Tjah, þetta er fín bók. Yoann & Vehlmann eru orðnir þaulvanir og ég gerir mér grein fyrir að andúð mín á gormdýrinu er mikil minnihlutaskoðun meðal Svals og Vals-unnenda. Þeir verða því ekki sviknir – og Froskur drífur hana vonandi út fyrir jólin.

Fótboltasaga mín 100/100

 14. maí 1983. Manchester City 0 : Luton 1

Þann 22. janúar í fyrra birti ég fyrstu færsluna af þessum fótboltaminningum mínum. Ég ákvað strax í upphafi að kaflarnir yrðu hundrað talsins og hver um sig myndi fjalla um einn leik sem ég hefði horft á í sjónvarpi, hlustað á í útvarpi eða séð í eigin persónu. Tímamörkin sem ég setti mér var frá 1983, þegar ég byrjaði að fylgjast með fótbolta fyrir alvöru, til 2013. Það eru engin verðlaun fyrir að benda á að það séu strangt til tekið 31 ár en ekki 30.

Nú rétt tæpu ári síðar er komið að leiðarlokum, þó enn séu ýmsir merkilegir leikir ótaldir. Þannig liggja heilu bikarúrslitaleikir Framara óbættir hjá garði. Luton-leikurinn sem fór á til Barrow með fríðu föruneyti sömuleiðis. Stórleikir HM-sögunnar eru illa dekkaðir og svo mætti lengi telja. Alltaf hef ég samt haldið mig við upphaflegu reglurnar.

Þar til núna.

Hundraðasti og síðasti pistillinn fjallar um leik sem ég varð ekki vitni af sjálfur, enda átti ég þess ekki kost. En það er samt leikur sem ég hef lesið svo mikið um og heyrt svo oft rifjaðan upp að mér finnst ég vera vitni. Og það er leikur sem reyndist svo örlagaríkur. Sennilega afdrifaríkasti leikur fótboltasögu minnar.

Það var á vormánuðum 1983 sem fótboltafárið greip mig heljartökum. Rétt er að taka fram að mamma er ósammála þessari kenningu minni og bendir á að ég hafi legið yfir fótboltaúrslitum í blöðunum frá því að ég varð læs fimm ára og það eru til sögur sem ég skrifaði í sjö ára bekk, sem voru endalaus frásögn af ímynduðum fótboltaúrslitum og smáliðum sem unnu titilinn þvert á allar væntingar.

Hvað sem þessum úrtöluröddum líður kýs ég að miða við veturinn 1982-83. HM á Spáni var ekki fyrr búið en ég fékk áhuga á því og á afmælinu mínu í apríl árið eftir fékk ég aðra ef ekki báðar bækurnar um Spánarmótið. Um svipað leyti þurfti ég að velja mér lið á Englandi, í stað þess að daðra við nokkur félög og velja fyrir hvern leik.

Aston Villa var augljós kostur, þar sem nafnið var töff, búningurinn nokkuð flottur og liðið gott. En vandinn var að besti vinur minn á þeim tíma hélt með Aston Villa – átti meira að segja lúður með fána merktan þeim, sem var dýrgripur. Varla gat ég farið að apa svo augljóslega eftir honum.

Luton var annar kostur. Nafnið var grípandi og litasamsetningin í hvítum og appelsínugulum búningnum ágæt. Og það sem meira máli skipti: Luton-lið Davids Pleats voru nýliðar í efstu deild. Almennt fékk Luton þá umsögn í blöðunum að vera lítið félag, skipað ungum leikmönnum og var hlaðið lofi fyrir að reyna að leika sóknarbolta og halda knettinum á vellinum í stað þess að leiðast út í enskar háloftaspyrnur. Og svo voru svartir leikmenn í stórum hlutverkum, sem var framandi og spennandi. Brian Stein var einatt kallaður „blökkumaðurinn Brian Stein“ í frásögnum af leikjum.

Í vikunni fyrir lokaumferðina ákvað ég að láta vaða og tilkynnti vinum og ættingjum að ég væri orðinn Luton-maður. Það var kjörkuð ákvörðun í ljósi stöðunnar í deildinni.

Luton tapaði 1:5 á heimavelli fyrir Everton í næstsíðustu umferð á sama tíma og Birmingham og Manchester City unnu bæði og komust í 47 stig, einu meira en Luton í fallsætinu. Reyndar átti Luton leik til góða, en það var gegn yfirburðaliði Liverpool svo 0:3 skellur fylgdi í kjölfarið á þriðjudagskvöldinu. Þessi úrslit þýddu bara eitt: Luton varð að vinna Manchester City á Main Road í síðustu umferðinni og senda gestgjafana niður um deild.

Ég varði laugardeginum á Neshaganum hjá afa og ömmu. Þar var litasjónvarp öfugt við svarthvíta tækið heima á Hjarðarhaganum og mun meira pláss til að leika sér eða liggja í bókum. Ég æfði langstökk, þrístökk og stangarstökk á ganginum. Stangarstökkið gekk út á að ég hróflaðu upp sófapullum og notaði gamlan göngustaf sem langafi hafði átt til að svippa mér yfir. Með saumamálbandið hennar ömmu gat ég svo slumpað á lengdina á stökkunum og borið saman við tölur á fyrstu nútímaólympíuleikunum eins og þær birtust í bókinni um sögu Ólympíuleikanna sem ÍR gaf út árið 1956. Mér sýndist ég ekki eiga langt í að ná þeim.

Íþróttaþáttur sjónvarpsins byrjaði ekki fyrr en klukkan fimm og Enska knattspyrnan klukkan 18:45. En þar voru hvort sem er bara sýnd mörkin frá síðustu umferð (slátrunin gegn Everton). Heimildir mínar um gang mála hafa því verið úr Íþróttaþætti útvarpsins í umsjón Samúels Arnar.

Á sama tíma í Manchester komst Luton lítið áleiðis. City-menn létu sér nægja að halda jöfnu og þrumuðu öllum boltum sem nálguðust vítateginn út í hafsauga. Þar til fimm mínútur voru til leiksloka…

Brian Stein, nei afsakið… blökkumaðurinn Brian Stein átti þá sendingu fyrir markið sem hefði ekki átt að skapa mikla hættu. En völlurinn var þungur og leikmenn líka, svo markvörður Manchester City sló boltann ekki nema rétt út fyrir teig þar sem Júgóslavinn Raddy Antic… já, sá Raddy Antic – þessi sem þjálfaði Atletico Madrid – kom aðvífandi og lét vaða. Skotið var þokkalega fast og ágætlega hnitmiðað og lak einhvern veginn í gegnum alla þvöguna, 0:1!

Raddy Antic… já, sá Raddy Antic – þessi sem þjálfaði Real Madrid – hafði skorað, 34 ára gamall varnarjaxlinn og á leiðinni í límverksmiðjuna! Enn í dag er kröftugur hópur sem vill að reist verði í miðbæ Luton stytta af Raddy Antic… já, þeim Raddy Antic – þessum sem þjálfaði Barcelona. Það yrði viðeigandi minnisvarði um Raddy Antic… já, þann Raddy Antic – þessum sem þjálfaði serbneska landsliðið.

Myndbandsupptökur staðfesta að það sló þögn á 42.000 áhorfendur á Main Road við markið. Og hvorki leikmenn né áhorfendur voru komnir úr lostinu þegar dómarinn flautaði til leiksloka og einhver frægustu gleðiviðbrögð enskrar knattspyrnusögu brutust út þegar David Pleat hleypur eins og barn í asnalega sniðnu gráu jakkafötunum sínum um allan völl. Þetta var „stórasta land í heimi“-móment þeirra Englendinga eða Ingólfur Hannesson að smella kossinum á Gauja Þórðar. Sláið þessu bara upp á Jútúb. Eða smellið á beint á tengilinn.

 

Það leið hálfur mánuður þar til ég fékk að sjá markið. Bikarúrslitaleikurinn vikuna á eftir milli Brighton og Manchester United fór í framlengingu, sem þýddi að Enska knattspyrnan frestaðist um viku. Reynið að útskýra þetta fyrir einhverjum sem fæddur er um aldamótin!

Luton hékk uppi og var meðal þeirra bestu til 1992. Eftir þennan leik var sambandið varla í verulegri hættu. Luton voru mínir menn þennan vordag 1983 og það breytist ekki úr þessu. Hins vegar er mér stórkostlega til efs að þetta ástarsamband hefði lifað eða raunar byrjað fyrir alvöru ef litla liðið frá Hattaraborginni hefði farið niður strax í fyrstu tilraun. Luton hefði eins getað spilað í Rússlandi og annarri deildinni á Englandi fyrir íslenskan krakka á níunda áratugnum. Takk strákar!

(Mark Luton: Raddy Antic… já, sá Raddy Antic – þessi sem þjálfaði Oviedo. Nei, ókey – ég er hættur núna.)

Fótboltasaga mín 99/100: Aðalfundurinn

15. september 1990. Fram 3 : Valur 2

Þegar afi heitinn, Haraldur Steinþórsson, varð sextugur árið 1985 komst hann á 95 ára regluna. Þá þegar hætti hann störfum hjá BSRB, eftir að hafa unnið að verkalýðsmálum í aldarfjórðung. Í kjölfarið var hann hann fenginn til starfa hjá ríkinu, þar sem hann hafði það hlutverk að liggja yfir gömlum kjarasamningum og reikna út eftirlaunaréttindi opinberra starfsmanna. Hann gantaðist með að hann væri dýrasti starfsmaður ríkisins, þar sem endurreikningar hans hækkuðu lífeyri fjölda fólks svo miklu munaði.

Lífeyrisútreikningarnir voru 9 til 5 vinna, öfugt við starfið hjá BSRB þar sem hann lá í símanum öll kvöld og helgar og utanlandsferðir voru eina leiðin til að flýja vinnuna, enda hvorki farsímar né tölvupóstur.

Árið 1985 þótti sú hugmynd að karlmaður í fullu fjöri drægi úr vinnu svo skrítin að afi lenti í blaðaviðtali, þar sem hann sagðist ætla að sinna barnabörnunum og fylgjast betur með fótboltanum. Við það stóð hann og næstu árin mætti hann ekki bara á flesta leiki í meistaraflokki, heldur rak inn nefið í getraunakaffinu, fór á karlakvöld, tók að sér ýmis smáverkefni fyrir klúbbinn og fylgdist jafnvel með yngri flokka leikjunum.

En félagsstörfin héldu áfram að toga. Afi varð fljótlega prímusmótor í Félagi hjartasjúklinga, sem réðst í að stofna HL-stöðina: þjálfunar- og endurhæfingarstöð fyrir hjarta- og lungnasjúklinga. Þau störf gátu af sér önnur félagsstörf, þar á meðal innan Öryrkjabandalagsins. Og það var líklega Örykjabandalagið sem hafði af honum úrslitaleikinn á Íslandsmótinu 1990.

Gamla manninum var ekki skemmt þegar hann áttaði sig á árekstrinum, en líklega hafði hann tekið að sér fundarstjórn eða eitthvað álíka trúnaðarstarf á fundinum og gat ekki losað sig. Bömmer.

Ég mætti því með strætó á Laugardalsvöll ásamt Baldri félaga mínum. Við vorum vel vígbúnir, með stóran Framfána sem okkur hafði áskotnast. Spennan var líka mikil þar sem fjögur lið gátu orðið meistarar. Framarar stóðu best og dugði sigur. Mistækist Fram að vinna yrðu KR-ingar meistarar með sigri á heillum horfnum Íslandsmeisturum KA. Langsóttari atburðarás þurfti til að Valur eða ÍBV ynnu.

Tölfræðin var Framliðinu líka hagstæð. Á þessum árum voru leikir Fram og Vals stærstu viðureignirnar í boltanum, en Valur hafði ekki unnið Fram í deildarleik frá 1986. (Tölum ekkert um ákveðinn bikarleik á Hlíðarenda. Þetta var líka ljót hurð.)

Það var skarð fyrir skildi að Kristinn R. Jónsson meiddist fyrir leikinn. Það virtist þó ekki koma að sök, því Framararnir voru mun sterkari og með boltann mestallan tímann. Það sannaði þó ekki alltaf mikið þegar þetta Framlið átt í hlut. Liðið hans Geira spilaði boltanum í stað kýlinga og gat haldið honum lon og don, en stundum án þess að skapa mikið.

Við óðum sem sagt í hálffærum – sendingum sem næstum tókust inn á Jón Erling Ragnarsson sem skoraði að vild þetta sumar en var ekki í stuði að þessu sinni. Valsmennirnir fengu tvö færi í fyrri hálfleik og í raun bara eitt því þrumuskot Sævars Jónssonar upp í markhornið eftir tuttugu mínútur kom ekki upp úr neinu. Skömmu fyrir leikhlé bætti Anthony Karl Gregory við marki, 2:0.

Stemningin í stúkunni var súr. Það var ekkert grín að þurfa að vinna upp gegn Valsvörninni: Sævari Jónssyni, Þorgrími Þráinssyni, Magna Blöndal… og Bjarna Sigurðssyni í markinu. Og þó, KR hafði skorað þrisvar gegn Val tveimur umferðum fyrr.

Talandi um KR – í Frostaskjólinu var KR komið yfir gegn KA og var Íslandsmeistari ef staðan héldist óbreytt. Eyjamenn voru sömuleiðis á flugi gegn Stjörnunni, svo Valsmenn máttu heita vonlausir um meistaratitil sama hvað gerðist í Laugardalnum.

Eftir leikinn vildu einhverjir KR-ingar telja sér trú um að Valsmenn hafi lagst yfir töfluröðina í hléi og ákveðið að gefa leikinn. Fátt var fjær sanni. Í fyrsta lagi voru Framarar erkióvinir Valsara og í öðru lagi breyttist nákvæmlega ekkert þegar seinni hálfleikur hófst. Framarar héldu áfram að stjórna spilinu. Valsmenn pökkuðu í vörn og Bjarni Sig. greip allt sem þurfti að grípa.

Ég leit sífellt oftar á vallarklukkuna á hinu sérkennilega Morgunblaðsmerkta altari við norðurenda vallarins. Tíminn til að skora þrjú mörk varð stöðugt minni og ekki voru KA-menn að fara að hjálpa okkur neitt.

Þegar hálftími var eftir náði Jón Erling góðri sendingu inn í Valsvítateiginn og Ríkharður Daðason skallaði í netið, 2:1. Um leið og fyrsta markið kom, var ég viss um að við myndum vinna. Það sást bara einhvern veginn á leiknum. Framararnir geisluðu af öryggi og þá sjaldan Valsmennirnir náðu boltanum tókst þeim aldrei að hanga neitt á honum. Fyrir vikið varð vörn þeirra sífellt þreyttari.

Ríkharður kom við sögu í marki númer tvö, sem hann lagði upp fyrir Steinar Guðgeirsson, reyndar með viðkomu á Pétri Arnþórssyni. Þrettán mínútur eftir og við Baldur vinur löngu farnir úr stúkunni og í stæðin við norðvestanverðan völlinn. Þar héngum við á veggnum, albúnir að stökkva inn á völlinn. Sjónarhornið var óneitanlega dálítið skrítið. Við horfðum beint aftan á markið – en það þykja svo sem skemmtilegustu stæðin í Bretlandi.

Í stöðunni 2:2 og þrettán mínútur eftir, hefðu vafalítið mörg lið freistast til að hleypa leiknum upp og senda alla fram. En ekki liðið hans Geira. Það hélt algjörlega sínu leikskipulagi, enda skynsamlegt. Valsmennirnir voru örþreyttir og virtust ekki líklegir til að halda út.

Fyrirfram hefði maður kannski veðjað á að Gummi Steins myndi setja sigurmarkið í svona leik. Hann var markahæstur Framara þetta sumarið, þrátt fyrir að hafa byrjað þennan leik á bekknum í fyrsta skiptið á Íslandsmótinu. En það var varnarmaðurinn Viðar Þorkelsson sem varð hetjan með skoti utan úr teig þegar sex mínútur voru eftir.

Tryllingslegur fögnuður fylgdi í kjölfarið og enn meiri þegar flautað var til leiksloka. Við krakkarnir og táningarnir hoppuðum öll inn á völlinn og mynduðum hóp umhverfis leikmennina og hlupum með þeim sigurhringinn eftir verðlaunaafhendingu. Hvaða fábjáni ákvað að brýnasta framfaramál fótboltans væri að banna áhorfendum að fara inn á völlinn í leikslok? Trölli hætti kannski við að stela jólunum, en hann hefur ekki enn skilað verðlaunaafhendingunum.

Eftir að allt var um garð gengið stóðum við félagarnir hálfumkomulausir eftir í Laugardalnum. Hvað gerir maður fimmtán ára og bíllaus þegar liðið manns hefur unnið Íslandsmeistaratitil? Ekki fer maður á barinn og ekki heim í tölvuna. Við komum okkur því vestur á bóginn og skemmtum okkur við að banka upp á hjá KR-ingum sem við þekktum. Kannski ekki mín glæstasta stund eftir á að hyggja.

Að lokum skilaði ég mér á Neshagann til afa og ömmu. Hann var kominn heim af ÖBÍ-þinginu (eða hvort þetta var bara aðalfundur Hjartasjúklingafélagsins eftir allt saman) og horfði á upptökuna af leiknum með fína vídeótækinu sem einhver verkalýðssamtökin höfðu gefið honum á sextugsafmælinu fimm árum áður. Þetta var fínt tæki og meira að segja með fjarstýringu. Vel að merkja ekki þráðlausri fjarstýringu, en fjarstýringu þó sem gerði það að verkum að maður gat staðið heila þrjá metra frá tækinu og spólað fram og til baka, fram og til baka… og séð Viðar skora aftur og aftur.

(Mörk Fram: Ríkharður Daðason, Steinar Guðgeirsson, Viðar Þorkelsson. Mörk Vals: Sævar Jónsson, Anthony Karl Gregory) 

 

Fótboltasaga mín 98/100: Fnykurinn

26. maí 1993. Marseille 1 : AC Milan 0

Í bók minni um sögu Fram segi ég frá því þegar ég hélt í klukkustund að ég hefði tryggt Fram Íslandsmeistaratitil. Hjartað ólmaðist í brjósti mínu og ég gegnum kollinn flugu hugsanir um hvort betra væri að hlaupa strax í fjölmiðla eða hvort ég ætti að bíða með að varpa sprengjunni þar til bókin kæmi út.

Málið var þannig vaxið að í kringum 1920 var mikill losarabragur á mótshaldi knattspyrnumanna. Nokkur mót voru haldin, hvert með sitt nafnið og enginn sérstakur greinarmunur gerður á milli þeirra. Þannig áttu blöðin til að rugla því saman um hvaða titil værið leikið hverju sinni.

Eftir að hafa legið yfir handritaðri skýrslu um leiki ársins 1920 og borið saman við allar mögulegar heimildir, gat ég ekki séð betur en að ég hefði komið auga á villu – að keppninni um Íslandshornið (sem Valsmenn stofnsettu) hefði verið ruglað saman við sjálft Íslandsmótið (sem Framarar sáu um). Þetta þýddi að ég hafði tryggt Frömurum nítjánda Íslandsmeistaratitilinn!!!

Nánari athugun leiddi í ljós að villan lá í frumheimildinni og að óskhyggja hafði ráðið því að mér fannst aðrar heimildir styðja hana. – Bömmer!

Eftir á að hyggja var kannski ágætt að ég reyndist hafa á röngu að standa. Fram hefði að sönnu grætt titil, en um leið hefðu Víkingar misst Íslandsmeistaratitil og það sinn fyrsta í sögunni. Ég hefði ekki unnið keppnina um vinsælustu stúlkuna í Víkinni það árið.

Og það er líka eitthvað rangt við afturvirkar breytingar á töflum yfir landsmeistara. Tökum sem dæmi titlana sem Juventus var svipt á Ítalíu, en Inter Milano fékk í staðinn. Það er kauðskt að fá skráð á sig titla mörgum árum síðar, eftir að hafa verið svikinn um fagnaðarlætin.

Í Frakklandi létu menn nægja að svipta Marseille 1992-93 titlinum, en krýndu enga nýja í staðinn. Ef ég man rétt íhugaði UEFA að gera slíkt hið sama við Evrópumeistaratitilinn þeirra sama ár, en féll svo frá því eða endurskoðaði ákvörðunina.

Það var hörkuúrslitaleikur á Ólympíuleikvangnum í Munchen. Andstæðingarnir voru AC Milan, lið sem manni var meinilla við en gat ekki annað en borið virðingu fyrir.

Marseille voru mínir menn. enda boðberar nýrra tíma í Evrópuboltanum. Frakkarnir voru að byrja að punda út ungum, góðum leikmönnum og þeir höfðu afrísku tenginguna sem átti eftir að breyta svo miklu. Tveimur árum áður hafði Marseille mætt í úrslitaleik sömu keppni sem sigurstranglegra liðið gegn Rauðu stjörnunni frá Belgrað. Það var mögulega leiðinlegasti úrslitaleikur sögunnar, þar sem Júgóslavarnir reyndu aldrei að halda boltanum, heldur sendu hann beinlínis til andstæðinganna og vörðust svo í 120 mínútur, til að vinna í vítakeppni.

Gegn Milan var það fremur hlutverk Frakkanna að vera varfærna liðið. Ekki það að liðið hans Tapie (sem reyndist sá sjoppulegi bílasali sem hann leit alltaf út fyrir að vera) gæti ekki sótt. Alen Boksic var aðalmarkaskorarinn þetta árið og virtist á leiðinni með að verða einn af bestu framherjum Evrópu, en fór svo Ítalíu og náði aldrei sömu hæðum. Við hans hlið var Franck Sauzée, sem elti Bocksic suður á bóginn og koðnaði niður í Atalanta.

Didier Deschamps var fyrirliðinn, Barthez var í markinu, Rudi Völler var reynsluboltinn fremst á miðjunni og Marcel Desailly tengdi saman vörn og miðju. En enginn þessara manna skoraði þó markið sem skildi á milli liðanna. Það gerði varnarjaxlinn Basile Boli með skalla eftir hornspyrnu. Internetið segir mér að hann eigi son sem spili fyrir Stabæk. Talandi um hnattvæðingu!

Sigur Marseille var ekki sá fallegasti, en á einhvern hátt virtist réttlætinu fullnægt frá því tveimur árum áður. Það kaldhæðnislega var þó að Jean-Pierre Papin, aðalmaðurinn 1991, hlaut aftur silfrið – núna sem varamaður í liði AC Milan. Það var ekki fyrr en síðar að í ljós kom að mögulega hafði titillinn ekkert með réttlæti eða sanngirni að gera.

Bernard Tapie, eigandi Marseille, var ástríðusvikahrappur sem mútaði og svindlaði hvenær sem færi gafst og hvort sem hann þurfti á því að halda eða ekki. Í riðlakeppninni sem fleytti Marseille í úrslitaleikinn (leikið var í tveimur fjögurra liða riðlum í stað fjórðungsúrslita, þar sem sigurvegararnir fóru beint í úrslit) virðist fé hafa verið borið á dómara í amk einum leik, rússneskum andstæðingum byrluð ólyfjan og reynt að múta leikmönnum Rangers til að taka ekki þátt. Titillinn frá 1993 er þó enn í dag sá eini sem Frakkar hafa unnið í stærstu keppni Evrópuboltans.

(Mark Marseille: Basile Boli)

Fótboltasaga mín 97/100: Frændurnir

25. febrúar 2001. Hearts 7 : Dunfermline 1

Þegar við Palli frændi hittumst, berst talið oftast nær að Hearts. Sjálfur fylgist ég með því hvort Hearts vinnur eða tapar í deildinni og gef mér tíma í að horfa á einn og einn leik, einkum ef andstæðingarnir eru Hibs. Palli er hins vegar harðari og hefur yfirleitt á reiðum höndum upplýsingar um leikmannahópinn og ekki síður eignarhaldið, en mesti hasarinn í kringum Hearts síðustu árin hefur verið utanvallar.

Sjálfur á ég nokkurn þátt í þessum brennandi áhuga frænda. Þegar ég var í Edinborg skólaárið 2000 til 2001, höfðu þeir Palli og Stebbi Kalli (við erum bræðrasynir) samband. Þeir voru á leiðinni á Liverpool-leik og flugu að mig minnir í gegnum Glasgow. Leiktíminn og flugtímarnir voru þannig að þeir þurftu að drepa heilan dag og þá þótti henta að líta í heimsókn til mín. Ætli Steinunni móður þeirra hafi ekki líka hugnast betur að vita af bræðrunum 17 og 21 árs undir minni leiðsögn en einum á ókunnum borgarstrætum?

Þennan dag tók Hearts á móti Dunfermline, sem bjargaði okkur frá því að hanga á söfnum. Það var reyndar skítaveður í Edinborg. Þessi andstyggilegi febrúarnæðingur sem er einhvern veginn svo miklu kaldari en sambærilegt veður á Íslandi. Klukkutíma fyrir leik skall meira að segja á snjóbylur svo tvísýnt var hvort leikið yrði.

Hearts : Dunfermline hljómaði ekkert sérstaklega sexy, þótt Edinborgarliðið væri að leika nokkuð vel þennan veturinn. Viðureignin átti þó eftir að koma gleðilega á óvart.

Dunfermline var úti að skíta frá fyrstu mínútu. Stephane Adam, franski framherjinn, skoraði strax eftir fimm mínútur. Norður-Írinn Andy Kirk breytti stöðunni í í 2:0 og aðalstjarnan okkar, Colin Cameron, skoraði 3:0 eftir hálftíma leik. Það gaf þó ekki nógu góða mynd af gangi leiksins. 6:0 hefði verið nær lagi.

Adam skoraði seinna mark sitt fyrir hlé og helsta von Dunfermline virtist sú að veðrið versnaði og leikurinn yrði blásinn af.

Cameron kom Hearts í 5:0 á upphafsmínútum seinni hálfleiks. Gestirnir minnkuðu muninn en Hearts átti tvö síðustu mörkin: Kirk og slóvaski landsliðsmaðurinn Tomaschek. Leiknum lauk á kúnstugan og ljóðrænan hátt, þar sem plastpoki fauk um völlinn. Í einni vindhviðunni tók hann sig á loft um leið og boltinn skoppaði framhjá. Knötturinn endaði í plastpokanum og dómarinn gat ekki stillt sig um að flauta strax til leiksloka.

Eftir leikinn settumst við inn á einhverri knæpunni, þar sem bræðurnir fengu sér kóka kóla en ég bjór. Við Stebbi spjölluðum um daginn og veginn, en Palli var eins og í losti. Upplifun hans af leiknum hafði nánast verið trúarleg, eins og mannanna sem sáu Sex Pistols spila í Manchester eða Utangarðsmenn í Kópavogsbíói og ákváðu strax að verða pönkarar.

(Stephane Adam 2, Andy Kirk 2, Colin Cameron 2, Róbert Tomaschek. Mark Dunfermline: Jason Dair)

Fótboltasaga mín 96/100: Kvikmyndastjörnurnar

25. ágúst 1990. Þróttur 3 : ÍK 1

Pabbi er gamall Þróttari. Lykilorðið í þessari setningu er „gamall“, því hann æfði og spilaði með Þrótti sem smápatti þegar hann bjó á Lynghaganum og Þróttur var ennþá á Grímsstaðaholtinu.

Þetta fannst mér gríðarlega merkilegt og spurði ítrekað út í fótboltaferilinn. Þær sögur voru flestar á einn veg: hvað Þróttararnir hefðu verið kjöldregnir í hverjum leik, liðið ekki verið fullskipað eða þjálfarinn dottið í það og gleymt að mæta með búningana. Samkvæmt einni sögunni léku þeir við Val eða KR á móti sterkum vindi og voru 5:0 undir í hálfleik, en sáu fram á betri tíð í seinni hálfleik. Í leikhlénu datt á dúnalogn og Þróttur tapaði 10:0.

Ég efast um að pabbi hafi mætt á fótboltaleik frá fermingu og langt fram á fullorðinsár. Og eftir að famelían flutti í Frostaskjólið gerðist hann KR-ingur. Það tók ég aldrei gilt. Í mínum huga var ekkert hægt að skipta um lið, pabbi hefði valið Þrótt um 1960 (eða Þróttur valið hann, eftir því hvernig á það er litið) og undan því yrði ekkert komist. Þess vegna var ég reglulega að stinga upp á því að við skelltum okkur saman á Þróttarleik.

Loksins skapaðist hentugt tækifæri eina ágústhelgina 1990. Bikarúrslitin fóru fram á sunnudegi, svo ekki var spilað í efstu deild þessa helgi. Þróttarar voru hins vegar á nýja heimavellinum sínum við Sæviðarsund og gátu komist upp í næstefstu deild á ný, eftir tveggja ára eyðimerkurgöngu í gömlu þriðjudeildinni.

Árið áður höfðu Þróttararnir talið sig áskrifendur að toppsætinu, en mátt hafa sig alla við að detta ekki niður í fjórðudeild, þar sem ákveðið hafði verið að steypa SV- og NA-riðlunum saman í eina deild og lið þurfu að ná fjórða sæti til að hanga uppi.

1989 voru það Grindavík og ÍK sem slógust um að fara upp og Grindvíkingar höfðu betur. Framhald þeirrar sögu ættu flestir að þekkja.

Þetta voru árin þar sem ÍK menn voru ítrekað hársbreidd frá því að komast í hóp þeirra næstbestu. 1990 bitust ÍK og Haukar um annað sætið í deildinni á eftir Þrótturum sem voru langsterkastir, enda með miklu öflugari hóp en hin liðin.

Það var fjölmennt á vellinum. Þetta var nefnilega fyrir þá tíma þegar íslenskir áhorfendur hættu að mæta á leiki hér heima um leið og enski boltinn byrjaði. Þróttarar voru í hátíðarskapi en Kópavogsbúar stressaðri, enda með jafn mörg stig og Haukar fyrir umferðina. Hafnfirðingarnir áttu léttar viðureignir fyrir höndum svo möguleikar ÍK fólust í sigri og að komast framúr Haukum á markatölu frekar en að veðja á að Gaflararnir myndu misstíga sig.

Ég vissi ekki alveg hvað mér ætti að finnast. Að nafninu til hafði ég dregið pabba hálfnauðugan á völlinn undir því yfirskyni að styðja Þróttara upp um deild. En á sama tíma vildi ég miklu frekar að litla krúttlega Kópavogsliðið færi upp en Haukar, þó ekki væri nema vegna þess að Haukarnir hefðu jú spilað þarna uppi en ÍK aldrei. (Og svo hef ég ekki enn fundið þann fótboltaáhugamann sem ekki fannst ÍK-treyjan töff.) Þróttararnir máttu alveg við því að tapa, því útilokað var annað en þeir myndu landa stigum gegn Ísfirðingum og arfaslöku liði TBA frá Akureyri.

En þessar vangaveltur voru óþarfar. Herra Þróttur, Sigurður Hallvarðsson heitinn, skoraði fyrsta markið snemma leiks með góðu skoti. Sigurður naut virðingar allra fyrir að spila með sínum mönnum í neðri deildum, þrátt fyrir ítrekuð boð um að ganga til lið við ýmis efstudeildarfélög.

ÍK átti aldrei raunhæfa möguleika á að komast aftur inn í leikinn, hvað þá eftir að Haukur Magnússon skallaði í netið skömmu síðar, 2:0. Í seinni hálfleik skoraði Sigurður Hallvarðsson aftur. Ekkert óvænt við það. Hann setti sautján mörk í jafn mörgum leikjum í deildinni þetta sumar.

Á lokamínútunum minnkaði ÍK muninn, en það skipti engu. Þróttarar kysstust, föðmuðust og tolleruðu lykilmenn á meðan Kópavogsbúar gengu hnípnir af velli, vitandi að draumurinn væri úti… þótt vafalítið hafi þá ekki grunað að endalok sjálfs félagsins nálguðust.

Ég var hnugginn fyrir þeirra hönd. ÍK-liðið var líka fullt af kunnum köppum. Þannig kannaðist maður vel við markahrókinn Steindór Elísson, sem síðar átti eftir að spreyta sig í Frambúningnum og Eyjamanninn og fyrrum Framarann Ómar Jóhannsson þekkti ég líka. Í hópnum var líka Lúðvík Bergvinsson, rauðbirkni varnarjaxlinn sem er ekki jafn klókur á tölvur og Andrés Jónsson almannatengill, en hvort hann lék þennan leik man ég ekki.

Helgi Kolviðsson var ungur og efnilegur leikmaður í ÍK-liðinu, þótt líklega hafi fá grunað að hann yrði sú knattspyrnukempa að vera skrifaður inn í bíómynd (Íslenska drauminn). Og svo var líka Davíð Garðarsson í hópnum. Um hann mætti hæglega gera bíómynd líka.

Og talandi um bíómyndir. Vonandi klárar Auðun Georg fljótlega heimildarmyndina sem hann er með í smíðum um ÍK. Ég mun mæta á fyrstu sýningu, en skilja pabba eftir heima.

(Mörk Þróttar: Sigurður Hallvarðsson 2, Haukur Magnúss. Mark ÍK: Hörður Magnússon)

Fótboltasaga mín 95/100: Silfrið

9. apríl 1989. Luton 1 : Nottingham Forest 3

Áður en ég las bókina Damned United, um Brian Clough og þá sérstaklega ævintýralegar vikur hans í stjórasætinu hjá Leeds, átti ég alltaf erfitt með að skilja dálæti enskra fótboltaáhugamanna á Brian Clough. Hann virkaði á mig eins og hálfgerð bulla sem mönnum þærri sjarmerandi af því að þeir gætu speglað sjálfa sig í honum, búralega klæddri fyllibyttu sem segði hlutina umbúðalaust. Eins konar svar enska boltans við „stjórnmálamönnum að vestan“. Tilvitnanirnar í karlinn sem víða mátti lesa voru sumar svo sem hnyttnar, en fjarri því jafn hillaríös og margir vildu vera láta

Damned United varð til þess að ég tók Clough að nokkru leyti í sátt. Fattaði í það minnsta að hann væri talsvert flóknari persóna er skrípamyndin Harry Redknapp svo dæmi sé tekið.

Vorið 1989 fannst mér Brian Clough hins vegar ennþá vera ofmetinn vitleysingur. Evrópumeistaratitlar 1979 og 80 hefðu mín vegna eins getað verið á nítjándu öld. Og ég var svo sem vanur því að Nottingham Forest væri gott efstu deildar lið og skildi ekki afrekið sem maðurinn vann fáeinum árum fyrr.

Nottingham Forest-menn voru sjálfir í þynnku eftir gullmisserin í lok áttunda áratugarins. Það var ekki endalaust hægt að rifa upp sigrana á Hamborg og Malmö. Þú vilt alltaf fá eitt fix í viðbót.

Það var því glorhungrað lið Nottingham Forest sem mætti Luton í úrslitum deildarbikarsins vorið 1989. (Og um vorið, vel að merkja! Úrslitin voru í apríl en ekki í marsbyrjun eins í seinni tíð.) Luton var á hinn bóginn búið að svala mesta titlaþorstanum með frægum sigri á Arsenal í sömu keppni árið áður, eins og áður hefur verið rakið á þessum vettvangi. Sjálfur var ég meira að segja ótrúlega afslappaður fyrir leiknum – fannst þetta orðið sjálfsagður hlutur að sjá mína menn í sjónvarpinu spila á Wembley.

Ég var líka frekar sigurviss, sem kann að virðast skrítið í ljósi þess að Luton var í fallbaráttu en Forest lauk keppni í þriða sæti, reyndar langt á eftir toppliðunum. En á góðum degi var Luton-liðið bara fjári gott og ég var rígmontinn af því að fyrr á tímabilinu vann Luton stærsta sigur leikársins, 6:1 gegn Southampton. „Six past Shilton“ er enn sungið á góðum dögum á Kenilworth Road.

Bjartsýnin virtist ekki tilefnislaus. Þegar Mick Harford kom okkur yfir með skallamarki (hvað annað?) í fyrri hálfleik, var maður svekktastur að munurinn væri ekki meiri þar sem Ricky Hill hafði komist einn á móti markmanni skömmu áður eftir æðislega sending frá Kingsley Black. (Ó, hvað hann var góður leikmaður!) Og hver átti sendinguna á Harford í markinu? Auðvitað Danny Wilson, spyrjið ekki svona kjánalega!

Snemma í seinni hálfleik átti Danny Wilson aðra sendingu inn í teiginn í átt til Harfords. Sendingin var léleg og fór beint á Terry Wilson. Miðvörðurinn hrasaði hins vegar og allt í einu var Harford kominn í opið marktækifæri, en átti greinilega ekki von á þessum fáránlegu mistökum og tókst ekki að skora. Þarna hefðum við getað klárað leikinn.

Steve Hodge fékk víti eftir að Les Sealey braut á honum, að því er virtist að nauðsynjalausu þar sem boltinn var á leiðinni útaf). Nigel Clough jafnaði úr vítaspyrnunni og þar með var loftið farið úr blöðrunni. Neil Webb fór illa með rangstöðuvörn Luton og skoraði 2:1 og Clough innsiglaði sigurinn með því að skjóta milli fóta Steve Fosters (mannsins með ennisbandið) og í bláhornið.

Forest hampaði titlinum og Clough dansaði stríðsdans, meðan snyrtimennið og Luton-stjórinn Ray Harford (engin ættartengsl) stóð prúður hjá. Harford gerði síðar góða hluti sem aðstoðarstjóri hjá Blackburn en stóð ekki undir því að vera einn í stjórasætinu á þeim bænum.

Gömlu Luton-stuðningsmennirnir voru sérstaklega hnuggnir yfir úrslitunum í ljósi þess að það voru líka helvítin í Forest sem unnu okkur í bikarúrslitunum 1959, í eina FA Cup-úrslitaleik Luton í sögunni. Í það skiptið hafði Luton verið sigurstranglegra með Syd Owen sem fyrirliða, enskan landsliðsmann sem var valinn leikmaður ársins 1958-59.

Þeir yngri jöfnuðu sig fljótt. Jújú, auðvitað hefði verið voðalega gaman að vinna helvítið hann Clough og enn skemmtilegra að pönkast á Watford-mönnum með tvo deildarbikarmeistaratitla að baki en einn… en við hefðum samt aldrei fyllst sömu nostalgíu yfir þessum titli og Arsenal-leiknum árið áður. Hann verður alltaf númer eitt.

(Mark Luton: Mick Harford. Mörk Nottingham Forest: Nigel Clough 2, Neil Webb)

Fótboltasaga mín 94/100: Afmælisgjöfin

11. maí 1986. Fram 2 : Valur 1

Ég á litla minnisbók frá Fjölvís. Allir fundir sem ég þarf að mæta á þurfa að rata í hana, annars gleymi ég þeim, tvíbóka mig eða það sem verra er. Snemma á hverju ári fer ég inn á KSÍ-vefinn og skrifa niður alla leiktíma Framliðsins. Það minnkar líkurnar á að ég geri eitthvað heimskulegt, eins og að taka að mér launavinnu eða sinna ástvinum meðan það er deildarleikur.

Reyndar skrái ég líka niður alla Reykjavíkurmóts- og deildarbikarleiki. Ekki vegna þess að ég stefni að því að mæta á þá alla – en það er alltaf gott að hafa möguleikann.

Þetta gerði ég samviskusamlega fyrir ári síðan og á leikjalistanum var Meistarakeppni KSÍ, viðureign Íslandsmeistara og bikarmeistara fyrra árs: KR og Fram. Fyrsti meistarakeppnisleikur Framara frá 1991.

Ég var í makindum heima í tölvunni þegar ég rambaði inn á fótbolta.net og sá á skjánum tilkynningu um beina textalýsingu frá leiknum og að Kjartan Henry væri búinn að skora. Steinhissa greip ég í minnisbókina og fór svo inn á KSÍ-vefinn. Leiktímanum hafði verið breytt á síðustu stundu og fyrri hálfleikur að verða búinn. Ég kastaði kveðju á fjölskylduna og brunaði inn í Laugardal.

Þar sátu 300 hræður og horfðu á frekar tilþrifalítinn leik sem lauk með 2:0 sigri KR, þar sem Framarar hefðu raunar átt að ná að jafna 1:1. Yfirbragðið var eins og á riðlakeppnisleik í deildarbikarnum og að mönnum þætti í raun hálfgert vesen að þurfa að spila svona viku fyrir Íslandsmót með meiðslahættu og leikmenn sem kynnu ekki að meta gervigras. Svo var líka hálfkalt þótt sólin væri á lofti, svo lítil stemning var fyrir að bíða eftir verðlaunaafhendingu.

Fyrir nostalgískan son níunda áratugarins var þetta frekar ömurlegt sjónarspil. Ég mundi þá tíma þegar Meistarakeppni KSÍ var alvöru leikur og titillinn „Meistarar meistaranna hljómaði“ ekki jafn bjánalega og þegar MorfÍs-krakkarnir krýna „Ræðumann Íslands“.

Vorið 1986 fórum við afi saman á meistaraleikinn, sem um þær mundir var yfirleitt spilaður á Kópavogsvelli. Völlurinn var reyndar drullusvað og við mættum aðeins of seint því að gamli maðurinn (sem var reyndar bara 61 árs þarna) ætlaði að vera klókur og leggja í einhverri íbúðagötunni skammt frá. En þetta var auðvitað Kópavogur svo við villtumst út í ófærur.

Loks rötuðum við þó á réttan stað og höfðum svo sem ekki misst af miklu. Það voru nærri þúsund manns á vellinum og Valsmenn líklega nokkru fleiri, enda sérstakur hátíðisdagur hjá þeim: Valur fagnaði 75 ára afmæli þennan dag og hafði því sérstakan hvata til sigurs.

Þjálfararnir tefldu fram sínum sterkustu liðum. Örn Valdimarsson, Arnljótur Davíðs og Þórður Marelsson voru þó í byrjunarliði Framara en Gummi Torfa, Ormarr Örlygs og Kristinn Err á bekknum. Hjá Valsmönnum var Stefán Arnarson í markinu en Guðmundur Hreiðarsson á bekknum, en þeir börðust um markmannsstöðuna þetta sumarið.

Völlurinn var lélegur og Valsmennirnir frekar slappir. Framararnir áttu engan stjörnuleik heldur. Voru til að mynda miklu betri fáeinum dögum fyrr þegar liðið vann KR í úrslitum Reykjavíkurmótsins og Valsara í undanúrslitunum þar á undan. Fram var þó alltaf líklegra til að skora og hefði væntanlega gert það að lokum þótt farsakenndur varnarleikur og markvarsla hefðu ekki komið til.

Eftir um hálftíma leik ætlaði Guðni Bergsson að sparka í burtu aðvífandi knetti en hitti ekki. Allt í einu var Arnljótur Davíðsson kominn einn á móti Stefáni markverði og skoraði með fallegu skoti.

Niðurlæging Guðna var þó hjóm eitt miðað við klúðurganginn í seinna marki Framara. Snemma í seinni hálfleik var kom vonlaus sending inn á Gumma Steins sem var í gæslu tveggja Valsmanna og þess utan ekki með hávöxnustu mönnum. Svona eins og til að sýna lit náði Guðmundur þó að reka fram kollinn nokkuð fyrir utan vítateig í átt til Stefáns í markinu. Boltinn skoppaði hægt eftir vellinum svo Guðmundur náði að snúa sér við og var að skokka til baka þegar hann heyrði furðublandin fagnaðaróp félaga sinna: nafni minn hafði líklega eytt of mikilli orku í að velta því fyrir sér hvert ætti að senda boltann og missti hann í gegnum klofið og þaðan í markið. Aumingja séra Friðrik!

Guðni Bergsson náði að laga stöðuna með góðu skoti undir lokin, en sigurinn var aldrei í hættu. Framarar fögnuðu nafnbótinni, þótt væntanlega hafi tíu ára gömlu stuðningsmennirnir verið hrifnæmari en þeir eldri og harðnaðri. Vissulega eilítið svekkjandi að bæði mörkin hafi verið hálfgerð skítamörk, einkum þar sem Gauti Laxdal og Steinn Guðjónsson áttu báðir miklu flottari þrumuskot í stöng og þverslá. En Valsmenn gengu ekki hlæjandi til sængur á afmælisdaginn og það var jú fyrir öllu.

(Mörk Fram: Arnljótur Davíðsson, Guðmundur Steinsson. Mark Vals: Guðni Bergsson)

Fótboltasaga mín 93/100: Guð

16. september 2006. Fram 1 : HK 0

Árið 2013 fór jarðskjálftabylgja um bókmenntaheiminn þegar fréttist af óbirtum sögum eftir J. D. Salinger, þar á meðal smásögu sem væri rekti aðdraganda Bjargvættsins í grasinu. Sögurnar birtust á skrárskiptasíðum á netinu og allir urðu óskaplega spenntir, en samt einhvern veginn vissir um að þetta yrði alltaf antiklímax… dáldið eins og fá aftur nammið sem manni þótti svo gott í æsku.

Íslenskur fótbolti átti sitt J. D. Salinger-móment fáeinum misserum fyrr. Og svo ég sé alveg heiðarlegur, varð ég miklu spenntari fyrir því (þó vissulega á kvíðafullan hátt) en einhverri forsögu vælukjóans Holdens Caulfields. Þetta var endurkoma Arnljóts.

Þær gerast varla meiri fótboltaklisjurnar en velta því fyrir sér hvort þessi eða hinn leikmaðurinn hefði getað orðið sá besti. En það átti svo sannarlega við um Arnljót Davíðsson. Þegar Framarar gerast nostalgískir og rifja upp gullöldina um miðjan níunda áratuginn fara nöfnin að fljúga: Ormslev, Gummarnir… Birkir og Friðrik í markinu… Kiddi Err á miðjunni, já og Pétur Arnþórs – það var nú meiri naglinn! Ómar Torfa, Ormarr, Jón Sveinsson að sóla alla í eigin vítateig! – Og svo er það Arnljótur.

Arnljótur var einn af þessum leikmönnum sem var orðinn frægur um fermingu. Það eru nokkur dæmi um þetta í fótboltasögunni: strákar á grunnskólaaldri sem voru frægir langt út fyrir raðir síns félags. Siggi Jóns var þannig leikmaður. Andri Sigþórs og Gummi Ben líka. Og auðvitað Eiður Smári.

Mig minnir að það sé mynd af Arnljóti í Íslenskri knattspyrnu 1981. Þá var hann þrettán ára og hafði skorað skrilljón mörk á móti einhverjum slátrunarlömbunum í yngriflokkaleik eða unglingalandsleik. Íslandsmeistarasumarið okkar 1986 kom hann við sögu í ellefu leikjum af átján, átján ára gamall. Geiri El notaði hann sem varamann á sama hátt og hann notaði yfirleitt ungu strákana sína: skipti öðrum inná þegar tuttugu mínútur voru eftir og hinum í blálokinn. (Geiri skildi aldrei neitt í þessari vitleysu að bæta við þriðja varamanninum.)

Árið eftir var Arnljótur notaður á sama hátt og komst enn ekki á markaskoraralistann. Meistaraárið 1988 var hann hins vegar aðalmaður og skoraði sex sinnum í sautján leikjum. Framtíðin var björt og Arnljótur myndi skora sjittlóds af mörkum næstu misserin áður en hann hæfi óhjákvæmilegan atvinnuferil í Evrópu og yrði jafnfrægur og Hófí og Jón Páll.

Nema hvað, eitthvað hrökk í baklás hjá okkar manni. Hann lenti í meiðslum sumarið 1989, en það sem verra var (frá sjónarhorni stuðningsmanna, ekki hans sjálfs), þá fann hann víst Guð. Hjá kaþólskum Suður-Ameríkubúum gengur upp að trúa bæði á fótbolta og drottinn allsherjar, en hjá okkur prótestöntunum í norðrinu hefur þessi samsetning aldrei virkað.

Frelsaður tók Arnljótur ekki þátt í nema átta leikjum og skoraði einu sinni sumarið 1990. Svo lá leiðin í ÍBV og Val. Hann var í ÍR-liðinu sem komst upp í úrvalsdeildina öllum að óvörum 1997 og lék hálft tímabilið með þeim þar, þangað til Framarar (komnir í harða fallbaráttu) fengu hann aftur heim um mitt mót. Í lok tímabilsins 1998 lagði Arnljótur loks skóna á hilluna.

…þar til árgangamót Fram 2006 var haldið.

Árgangamót ganga út á að mynduð eru lið með keppendum úr einstökum árgöngum gamalla leikmanna. Þeir keppa á móti, detta í það um kvöldið og félagið fær pening í kassann. 1968-liðið fór á kostum og enginn var betri en Arnljótur. Og í partýinu á eftir kviknaði brjáluð hugmynd!

Addi Davíðs tók skóna niður úr hillunni og lék með Framliðinu það sem eftir lifði sumars. Fram var í næstefstu deild, með langlangbesta mannskapinn í deildinni og því ekki spurning um hvort heldur hvernig við færum upp.

Það væri gaman ef ég hefði getað látið pistilinn fjalla um bikarsigurinn á Haukum, þar sem Arnljótur skoraði fyrsta markið eftir endurkomuna eða 3:3 jafnteflið í Garðabænum þar sem hit mark sumarsins leit dagsins ljós, en ég sá hvorugan leikinn. Var fyrir austan þegar Stjörnuleikurinn var, en hef ekki hugmynd um hvers vegna ég komst ekki á Ásvelli á bikarinn.

Og þar sem reglur þessarar bloggraðar (ég veit, þetta er fáránlegt orð) krefjast þess að ég hafi horft á viðkomandi leik í eigin persónu eða í beinni útsendingu í sjónvarpi, þarf ég að velja lokaleikinn – kveðjuleik Arnljóts Davíðssonar.

Reyndar fínn leikur. Fram : HK á Laugardalsvellinum. Verið var að taka þjóðarleikvanginn í gegn þetta sumarið svo við sátum í litlu stúkunni við austurendann, sem var mun passlegra á fámennum leikjum næstefstudeildar. Fram var löngu komið upp og búið að tryggja sér titilinn. Maður mætti því bara af skyldurækni og gömlum vana. Helsta spennan var hvort Jónas Grani skoraði mark eða tvö og yrði næstmarkahæstur á eftir Helga Sig.

Hvorki Helgi né Jónas Grani skoruðu, heldur Ingvar Ólason í seinni hluta fyrri hálfleiks. Það var eina mark leiksins. HK-ingar voru hins vegar öllu stressaðri. Lið Gunnars Guðmundssonar var spútnik ársins og kæmist upp í efstu deild í fyrsta sinn, svo fremi að Fjölnir myndi ekki vinna KA á Akureyri með miklum mun (eða HK á sama hátt tapa mjög stórt).

Taugarnar voru þandar hjá Kópavogsbúum svo líklega hefði Fram getað skorað 2-3 í viðbót hefðu menn nennt því eða almennilega kunnað við það, en Fjölni tókst ekki að skora fyrir norðan og undir lokin skoraði Hreinn Hringsson fyrir gulklædda Akureyringa. HK-menn trylltust í stúkunni.

Þegar flautað var til leiksloka tók við kyndug uppákoma. Framararnir sem unnu leikinn, voru kátir og klöppuðu fyrir sínu fólki og sungu Sigga-sagga. En tapliðið ærðist á sama tíma. Gamlir menn felldu tár. Meðan fulltrúi KSÍ rétti Frömurunum bikarinn, voru gestirnir að tollera mann og annan með silfurverðlaunin um hálsin. Krúttlegt!

Og Arnljótur? Fékk hann heiðursskiptinguna í lokaleiknum? Nei, þetta var Geiri El að stjórna og hann tók ekki þátt í svona drama. En hann gaf þó Gesti Inga Harðarsyni sínar einu meistaraflokkssekúndur fyrir Fram undir lokin, þegar Daði Guðmunds var orðinn lúinn. Næsta sumar verður Gestur Ingi mögulega loksins úrvalsdeildarleikmaður með Leikni Reykjavík. Er hann J. D. Salinger sinnar kynslóðar?

(Mark Fram: Ingvar Ólason)

Fótboltasaga mín 92/100: Félagsmálaforkólfurinn

Ágúst 1983. Knattspyrnufélagið Skörungur : Knattspyrnufélag Tómasarhaga (úrslit óljós)

Lengi hélt ég að aðalbókasafn Borgarbókasafnsins hefði að geyma nálega allar bækur sem út hefðu komið á íslensku. Hinn þekkti og aðgengilegi ritaði menningarheimur var samkvæmt því varðveittur í barnabókaherberginu á annarri hæð og því fjarri því óraunhæft markmið að komast yfir hann allan.

Sérstaklega átti þetta við um allar þær bækur sem fjölluðu um fótbolta. Það var sagan um Tómas miðframherja, sænsku þjóðfélagslega meðvituðu sögurnar um knattspyrnuliðið Hæðagerði, ensku þjóðfélagslega ómeðvituðu sögurnar um knattspyrnuliðið United í skringilegum smábrotsbókum, ævisögur Eusebio, Pele, Glenn Hoddles, Ásgeirs Sigurvinssonar, Alberts Guðmundssonar, sögu Liverpool, Tottenham, West Ham, Manchester United, bækurnar tvær um HM 1982 og sú skrítna um HM 1970 sem þýdd var úr þýsku. Lokakaflinn úr Við í vesturbænum eftir Leo Löve féll líka undir þessa skilgreiningu.

Uppáhaldið var samt hundgömul strákabók sem þýdd var úr ensku: Ellefu strákar og einn knöttur. Hún sagði frá fótboltaóðum drengjum sem stofnuðu félagið Sköflung (því það væri harðasta bein mannslíkamans) og unnu fræga sigra.

Innblásinn af þessum sögum þráði ég að stofna fótboltalið. Alvöru lið sem uppfyllti öll skilyrði þess að komast í mótaskrá KSÍ: nafn, heimavöllur, aðalbúningur, varabúningur, stofnár, stjórn og formaður dómaranefndar.

Við krakkarnir í kennarablokkinni á Hjarðarhaganum vorum alltaf að stofna félög um allan fjandann, sem flest voru gleymd á viku. Fótboltafélagið mitt átti hins vegar að lifa og þá yrði upprunasagan að vera á hreinu. Þess vegna tók ég niður minnispunkta.

Samkvæmt minnisblöðunum stofnaði ég félagið við annan mann í stúkunni á Melavelli snemma sumars 1983, átta ára gamall. Næstu dagana fékk ég aðra stráka úr blokkinni til að ganga til liðs við félagið. Það var kannski ekki fullkomlega auðsótt, þar sem ég gerði kröfu um stofnframlag í félagssjóð. Nákvæmlega hvers vegna ég taldi þörf á félagssjóði er óljóst, en strákaliðin í bókunum voru alltaf að basla við að safna peningum til að kaupa bolta eða búninga, svo þetta tilheyrði greinilega.

Nokkrum dögum síðar fékk félagið nafnið Skörungur – sem hljómar grunsamlega líkt Sköflungsnafninu úr Ellefu strákum og einum knetti, en var væntanlega einnig undir áhrifum frá Emil í Kattholti, þar sem eldskörungar eru oft í veigamiklu hlutverki.

Skörungur fékk liðsbúning: gula Puma-treyju með bláu hálsmáli og rönd á ermum. Þetta var reyndar KA-treyja, en Sigtryggur vinur minn átti svona treyju og ég gat skælt aðra slíka út. Þá voru tveir komnir í eins búning, sem var ágætis byrjun.

Næstu vikurnar bætti ég inn sundurlausum athugasemdum um fjölgun eða fækkun liðsmanna og nákvæma stöðu sjóðsins. Utanumhald félagsskrár og fjármála virtist mun veigameira atriði í starfseminni en beinar æfingar.

Seint í ágúst dró til tíðinda. Eldri krakkarnir í blokkinni, sem sjaldan gáfu sig að fótbolta fóru að sparka sín á milli á lóð blokkarinnar. Þau áttu vini á Tómasarhaganum og ákveðið var að blása til kappleiks: Kennarablokkinn gegn liðinu af Tómasarhaganum. Mér tókst að sannfæra mitt fólk um að miklu betra væri að mæta til leiks undir merkjum Skörungs.

Þetta varð hörð rimma á alltof þröngum velli meðfram norðurhlið blokkarinnar. Yngstu keppendurnir voru 7-8 ára og höfðu helst þann tilgang að þvælast fyrir. Atkvæðameiri leikmennirnir voru 11-12 ára og með ólíkt meiri reynslu af fótbolta. Minnispunktarnir mínir eru furðufámálir um úrslit þessa fyrsta og eina leiks Skörungs. Líklega unnu óbermin af Tómasarhaganum. Sjálfur fékk ég högg á hausinn snemma leiks og hafði mig lítið í frammi eftir það. Treyjuna átti ég í mörg ár en ekki hef ég hugmynd um hvað varð um félagssjóðinn.

(Markaskorar óþekktir)