Sumarstarfsmannsraunir
Jæja, þá er komið að því að maður þurfi að ráða sumarstarfsmann hér á Minjasafnið.
Undanfarin ár hefur sú vinnuregla verið viðhöfð að ráða nema, helst úr sagnfræði, til að leysa af hér á safninu og taka á móti gestum.
Hvað felst í starfinu?
Að taka á móti gestum á Minjasafni og hjálpa til við vinnu á safninu. Einnig að geta farið upp í Gvendarbrunna og taka þar á móti hópum. Viðkomandi þarf því að geta:
i) Sett sig hratt og örugglega inn í undirstöðuatriði varðandi sögu rafmagnsveitu og vatnsveitu
ii) Talað fyrir framan hóp af fólki skammlaust
iii)Talað ensku vel og helst brugðið fyrir sig dönsku eða Norðurlandamáli. Þýska væri ágæt líka, en ekki skilyrði
iv) Vegna Gvendarbrunnaþáttarins, þyrfti viðkomandi helst að hafa aðgang að eigin bíl
Eitthvað fleira sem vert er að vita?
i) Viðkomandi þarf að vera reiðubúin(n) að vinna mikið. – Sannast sagna eru launakjörin ekki par merkileg, en með mikilli yfirvinnu og helgarvinnu er hægt að hala þau talsvert upp
ii) Safnið er opið alla daga nema mánudaga frá 13-17. Það þýðir að viðkomandi starfsmaður þarf að taka helming helgarvakta á móti þeim er þetta ritar. (Hins vegar geta helgarnar verið afskaplega afslappaðar. T.d. tilvalið að drepa tímann með því að glugga í bók.)
iii) Á sumrin er algengt að Orkuveitan bjóði hópum í móttökur á safnið – oft með litlum fyrirvara. Það þýðir því að oft getur teygst úr vinnudeginum – einkum á föstudögum.
Er gaman?
Já. Það er fínt að vinna hjá Orkuveitunni. Það má líka hugsa sér að svona sumarvinna geti leitt af sér áframhaldandi samstarf. T.d. mætti hugsa sér að stúdentar í sagnfræði eða skyldum greinum gætu í kjölfarið unnið lokaverkefni tengt sögu fyrirtækisins og notið til þess fulltingis fyrirtækisins.
íhugasamir geta bjallað í mig (567-9009) eða sent tölvupóst (minjasafn@or.is)