Þögnin rofin
Jæja, þá er ég ekki búinn að blogga síðan á þriðjudag og skulda því föstum lesendum á því einhverjar skýringar.
Þannig er, að 1. maí var algjör kleppur. Eins og lesa má um annars staðar, þá stóð SHA fyrir morgunkaffi. Það var skemmtilegt, einkum í uppvaskinu. Vonandi græddum við marga, marga peninga á vöfflunum sem hægt verður að nota til að reka herinn úr landi – (peningana það er, ekki vöfflurnar).
Síðdegis var kröfuganga. Hún var skemmtileg. Svo byrjaði fundurinn á Ingólfstorgi. Hann var ömurlegur. Raggi Bjarna og Milljónamæringarnir voru viðlíka ósmekklegur brandari og lélega ræðan hans Sigurðar Bessasonar. – Löggan sagði að 15.000 hafi verið í göngunni. Við sem höfum tekið þátt í óteljandi göngum og mótmælafundum vitum betur. Þarna voru 4-5.000 manns.
Um kvöldmatarleytið lenti ég í sjónvarpsviðræðum við Guðmund Ólafsson hagfræðing um sósíalismann, eins og fjallað hefur verið um. Mikið rosalega er Guðmundur stór maður og mikill um sig. Hann var hins vegar ekki í neinu stuði í umræðunum. Yfirleitt er hann nokkuð sniðugur í svona þáttum.
Kvöldið fór svo í Rauðan 1. maí að Hallveigarstöðum. Þar var skotheld dagskrá, en Margrét Guðnadóttir var sýnu best og hélt frábært erindi. Því miður drakk ég alltof mikinn bjór, sullaði svo rauðvíni saman við og varð þunnur eins og elgur í kjölfarið.
Þegar ég loksins drattaðist á fætur á fimmtudaginn, þá var ljóst að ég yrði lítill maður til vinnu og því var snarlega ákveðið að taka út sumarleyfisdag í bongó-blíðunni. Við Steinunn ókum til Þingvalla og erum þar með búin að rumpa af sunnudagsbíltúrum fyrir sumarið. – Þetta var síðasti afslöppunardagur fyrir NATO-fundargeðveikina sem nú fer í hönd. Á kvöld verða þrykkt barmmerki, Steini verður sóttur á Keflavíkurflugvöll eldsnemma í fyrramálið og svo byrjar hasarinn.
Jamm.