Nei sko!
Fór að skoða dagatalið og áttaði mig þá á því að kominn er miður júlí. Þá fór ég að reyna að muna hvenær ég hefði síðast heyrt í minni gömlu vinkonu og skólasystur Hjördísi. Eftir smá leit í pósthólfinu komst ég að því að það hefði verið laust upp úr áramótum. Eins og mig minnti, hafði stelpan þá upplýst það að hún væri ólétt og lofaði að reyna að eignast á afmælisdaginn minn, 8. apríl. – En þar sem ég er algjör durgur steingleymdi ég öllu um málið og tékkaði aldrei á því hvort staðið hafi verið við loforðið
Nema hvað, í kaffipásunni í morgun dundaði ég mér við að slá krílinu upp í þjóðskrá og uppgötvaði eftir smá leit á netinu að þetta mun vera strákur, fæddur í mars og meira að segja byrjaður að blogga. – Ég skal sko segja ykkur það!
* * *
Við Hjördís vorum bæði í 10.Þ í Hagaskóla og fórum svo bæði í MR. Þar einbeitti hún sér að einhverri satanískri stærð- og eðlisfræði en ég var svona meira í bjórnum og máladeildinni.
Á 10.Þ voru afskaplega fáir sem ég nennti að tala við. Það skýrðist annars vegar að því að ég var fúll og hrokafullur en hins vegar af því að það var allt fullt af fíflum og vitleysingum í bekknum. Meðal fárra heiðarlegra undantekninga frá þessu, voru félagi Stefán Jónsson og Hjördís. Ég sat við hliðina á Stefáni og blaðraði við hann linnulaust í nánast öllum kennslustundum. Á sumum tímum, að mig minnir í stærðfræði og einhverjum öðrum fögum, vildi Stefán hins vegar fylgjast með og bannaði mér að trufla sig. Þá kom sér vel að hafa Hjördísi á næsta borði fyrir aftan.
Sjaldnast nenntum við að skiptast á pappírsmiðum í þessum samskiptum, heldur sneri ég mér einfaldlega við í stólnum heilu og hálfu tímana. Ekki skil ég hvernig kennararnir þoldu þetta, því sjálfur verð ég foxillur ef nemendur eru að gera eitthvað annað á meðan ég er að kenna. – Ég var líklega frekar leiðinlegur unglingur, en á móti kemur að unglingar eru það yfirleitt.
Jamm.