Loksins, loksins, loksins…
Óðinn verði oss náðugur! Loksins er ég kominn aftur í netsamband eftir alltof langa bið. Á sunnudaginn datt nettengingin út hér á safninu og vegna þess að tölvukerfi Orkuveitunnar hrundi á nokkurn veginn sama tíma var vonlaust að fá viðgerðarmenn fyrr en núna. Ég er búinn að missa gögn, s.s. dagbókarfærslur, tölvupósti hefur ekki verið svarað og reikningar ekki greiddir.
Á frystihúsum er staffið sent heim þegar enginn er fiskurinn. Hvers vegna er ég ekki sendur heim í sturtu þegar netið dettur út? Fyrir utan það að ég gat nánast ekkert unnið (öll gögnin mín eru meira að segja vistuð á intranetinu) þá fór sú litla orka sem ég átti eftir í að pirrast og böggast. Ég er búinn að vera hranalegur við vinnufélaga og ég veit ekki hvað.
En núna kemur betri tíð með blóm í haga. Mmmm…., nettenging.
* * *
Meðan á sambandsleysi mínu við umheiminn stóð, þá keypti ég mér nýjan bíl. Nissan Sunny árgerð 1991. Þetta er fjórhjóladrifið og ágætlega kraftmikið, en reyndar sjálfskipt sem er galli. Þá eru ryðblettir á stöku stað sem vert er að laga. Fyrsta spurningin sem ég stóð frammi fyrir var sú hvað kalla eigi gripinn. Nú hafa flestir bílar sem ég hef átt eða haft aðgang að heitið nöfnum á borð við: „dósin“, „vaskafatið“, „gamli gráni“ eða „rauða hættan“. Út frá þessu verður nú breytt og nýi bíllinn mun fá hljómmikið nafn. Ég var að lát mér detta í hug að kalla hann: Neista nýrrar aldar!
* * *
Eftir miðnefndarfundinn í gær héldum við Steinunn, Sverrir og efnilegasti sonur þjóðarinnar á Nellys. Þaðan fór Sverrir grunsamlega snemma, en Palli og Hildur sviku okkur um að mæta.
Efnilegasti sonurinn er höfuðsnillingur, það lá alltaf fyrir. Um þessar mundir er hann hins vegar ákaflega ástfanginn höfuðsnillingur sem hefur einstakan hæfileika til að troða nafni sígaunastráksins, vinar síns, inn í allar umræður. Það er dálítið krúttlegt.